15.02.1945
Efri deild: 128. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1893 í B-deild Alþingistíðinda. (4929)

257. mál, veltuskattur

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. — Mér þótti dálítið einkennilegt sumt af því, sem hv. 3. landsk. sagði. Hann hélt því fram, að þessi skattur kæmi niður á þeim stéttum, sem hefðu haft mestan hagnað undanfarið. Ég þóttist hafa sýnt fram á, að í raun og veru kæmi þessi skattur niður á almenningi, og hv. þm. játaði, að eins og frv. liggur fyrir, þá kæmi skatturinn þannig niður. Hann játaði það líka, sem ég hafði sagt, að þetta væri raunverulega neyzluskattur, eins og frv. liggur fyrir, og það er einnig að nokkru leyti eignarskattur, sem leggst m.a. á alla viðskiptamenn samvinnufélaga landsins, hvort sem þeir eru ríkir eða fátækir.

Hv. þm. sagði, og hv. þm. Barð. vék einnig að því, að það væri ekkert nýtt að leggja skatt á eftir á. Hann segir það út frá sinni till. um að leggja á veltu ársins 1944. Ég mótmæli þeim orðum bæði h já hv. 3. landsk. og hv. þm. Barð., að skattur, sem á nokkurn hátt sé sambærilegur við þennan skatt, hafi verið lagður á eftir á. Þeir skattar, sem hingað til hafa verið lögleiddir, hafa verið lagðir á arð af atvinnu eða eign, en það er talsvert annað að leggja á afgang tekna liðins árs eða leggja á veltu liðins árs. Það hugsa ég, að allir skilji.

Hv. 3. landsk. segir, að það, hvort þessi skattur verði neyzluskattur eða ekki, fari eftir því, hvort hans till. um að miða við veltu ársins 1944 verður samþ. eða ekki. Ég sýndi fram á það í fyrri ræðu minni og vakti athygli á því við 1. umr. þessa máls, að þetta er nákvæmlega það sama, a.m.k. að því er snertir þá, sem verzla við samvinnufélögin, en það er um helmingur landsmanna. Það getur vel verið, að hv. þm. álíti það engu máli skipta um þann helming landsmanna, heldur aðeins hinn, en þótt svo væri, þá er grunur minn sá, að þetta yrði einnig útkoman með aðrar verzlanir en verzlanir samvinnumanna, og eins og ég sagði áðan, leggst skatturinn með einhverjum hætti á almenning, hvernig sem að er farið. (Fjmrh.: Er hann þá líka eignarskattur?) Hann er a.m.k. eignarskattur á samvinnumenn.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um það, sem hann sagði, en aðeins minnast á síðustu brtt. hans á þskj. 1113. Ég verð að segja, að ég sé ekki betur en með þessari till. sé gerð einhver sú svæsnasta árás á samvinnufélög landsins, sem gerð hefur verið á Alþingi. Með brtt. við 8. gr. er nú, eins og allir sjá, lagt beinlínis til, að samvinnufélög landsins séu svipt ákvörðunarrétti um eiginn fjárhag sinn og fjármál. Það hefur ekki verið lagt til áður, svo að ég viti til, í jafnríkum mæli. Í niðurlagi þessarar till. stendur, að ekki megi draga greiddan veltuskatt frá tekjum við ákvörðun ágóða samkvæmt ofansögðu, og er þar átt aðallega við Sambandið. En reynist tekjurnar ekki nægar til að framfylgja þessu ákvæði, á þá að stofna skuldir til að fullnægja þessu ákvæði, eða hvernig hugsar hv. þm. og meðflm. hans sér framkvæmdina á þessu? Hvað sem öðru líður og hvað sem líður öðrum brtt. á þessu þskj., þá vil ég þó alveg sérstaklega vænta þess, að d. felli þessa síðustu till. á þskj. og hrindi þar með þeirri árás, sem þar er gerð á samvinnufélög landsins.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að umr. um þetta mál mundu vera gagnslitlar. Ég get alveg fallizt á það, enda mun ég stytta mál mitt. Örlög þessa máls munu vera ákveðin fyrirfram, svo að það má segja, að gagnslítið sé að ræða það. Hann vék að því, sem ég hafði sagt, að þessi skattur væri ranglátur, og hann viðurkenndi fyllilega, að svo væri, en hann varði sig með því, að það væru allir skattar ranglátir, t.d. tekju- og eignarskattur o.s.frv. Afstaða hans flokks var hér áður sú yfirleitt að vera á móti öllum sköttum, en í seinni tíð þó með öllum útgjöldum ríkissjóðs, og þess vegna býst ég við, að þetta sé hans sannfæring, að allir skattar séu ranglátir. Það væri náttúrlega á ýmsan hátt bezt, að ríkið hefði einhverja tekjulind til að ausa úr, sem ekki kæmi við neinn þegn þjóðfélagsins. En ég verð að halda fram, að þótt svo kunni að vera, að allir skattar séu ranglátir, eins og hv. þm. hélt fram, þá sé þessi skattur a.m.k. ranglátastur þeirra skatta, sem enn þá hefur verið stungið upp á að leggja á, og það af þeirri ástæðu, sem ég nefndi í frumræðu minni, að þessi skattur fer ekkert eftir gjaldþoli skattgreiðenda, en allir aðrir skattar, sem lagðir hafa verið á hingað til, a.m.k. fram að þessu þingi, fara þó að einhverju leyti eftir því. Sem dæmi upp á það, hve skattar væru ranglátir, nefndi hv. þm. það, ef embættismaður og forretningsmaður hefðu sömu tekjur á pappírnum, þá greiddu þeir sama tekjuskatt, en það mundi í raun og veru vera ólíkur skattur, sem þeir greiddu, sem auðvitað væri þá af því, að annar þessara aðila sviki skattinn, en hinn ekki, annar gæti það, en hinn ekki. Þetta getur verið rétt, en löggjafinn reynir að koma í veg fyrir skattsvik og sjálfsagt að halda áfram á þeirri braut. því að auðvitað er það, að skattur til ríkisins og bæjar- og sveitarfélaga ætti að ganga jafnt yfir þegnana eftir þeirra gjaldþoli, tekjum og eignum.

Hv. þm. segir, að útsvör í Reykjavík séu lögð á veltu. Það kann að vera rétt, að Reykjavík geri það, en ég álít, að það sé rangt af bænum að gera það, og þó að það eigi sér stað hér, þá er það jafnrangt fyrir því, því að skattar eiga vitanlega að fara eftir gjaldþoli, en ekki öðru, og ég sé enga skyldu hjá mér til að fara að verja það, þótt Reykjavíkurbær leggi á ranga skatta.

Hv. þm. segist ekki vilja verja þennan skatt, og lái ég honum það ekki, nema þá í einu atriði, að hann yrði ekki lagður á nema einu sinni. Hann segir það, og hæstv. stj. segir það. En ég verð nokkuð að draga í efa, að þessi skattur eða annar honum líkur verði ekki lagður á nema einu sinni. Ég sýndi fram á við 1. umr., og ég hygg, að öllum sem gera sér grein fyrir fjármálaástandinu, sé ljóst, að annaðhvort verður að ári liðnu að framlengja þennan skatt eða setja einhvern annan skatt eða toll í hans stað. Ég spurði um það við 1. umr., hvað ætti að koma í staðinn að ári liðnu og hvers vegna mætti ekki einu sinni stinga upp á því nú, sem ætti að koma í staðinn þá. Hv. frsm. meiri hl. sagði. að það væri verið að gera tilraun með, hvort skatturinn komi niður á neytendum. Mér virðist, að hv. frsm. meiri hl. hafi þá játað með ummælum sínum, að svo mundi fara, að skatturinn kæmi niður á neytendunum, enda er það fyrirfram víst, að svo verður, a.m.k. að einhverju leyti, eins og ég hef þegar sýnt fram á.

Viðvíkjandi því, sem ég hafði minnzt á, sem enginn getur hrakið, að þetta kæmi alveg beint niður á þeim helmingi landsmanna, sem verzlaði við samvinnufélögin, þá sagði hann, að það væri vegna þess, að í því efni væru samvinnumenn orðnir kaupmenn, það kæmi niður á þeim sem kaupmönnum, en ekki neytendum. Þetta er dálítið hæpið. Tilgangur kaupfélaganna er að selja raunverulega vörur með sannvirði og hafa engan ágóða af, nema það, sem þarf að leggja í sameiginlega sjóði. En vegna þess að vöruverð getur verið breytilegt, þá þykir hentugt að hafa útsöluverð svipað og hjá kaupmönnum á staðnum, venjulega þó ívið lægra, og úthluta síðan af þessum ágóða til viðskiptamanna. Mér finnst nú, að það sé varla hægt að kalla það kaupmennsku, þegar gætt er að öllu eðli samvinnufélaganna og rekstri, þó að þessum arði sé úthlutað, og þess vegna finnst mér, að þar sem það er játað, að skatturinn komi niður á þessum hluta landsmanna, þá komi hann niður á þeim sem neytendum, það er svo lítil kaupmennska í þessu sambandi hjá hverjum einstakling.

Hv. frsm. meiri hl. viðurkenndi, að till. mín væri rétt að því er snerti mjólkursöluna, og geri ég þá ráð fyrir, að hann beri fram brtt. um að kljúfa hana, þannig að hv. dm. eigi þess kost að greiða atkv. um það atriði sérstaklega. En svo þótti honum það galli á till. minni, að ég blandaði inn í fleiri vörutegundum, og spurði, hvers vegna ég hefði ekki tekið klæðnað með. Það var vegna þess, að ég áleit, að till. væri því ólíklegri til framgangs sem fleira væri tekið með, en ég hefði verið fús til að taka klæðnað með og fleiri nauðsynjavörur almennings. Mér skildist á honum, að það mundi verða erfitt og kannske ekki hægt í framkvæmd að skilja þetta undan í verzluninni, að hve miklu leyti veltan stafaði af sölu þessarar vöru og að hvaða leyti af sölu á öðrum vörum. Ég skal ekki fjölyrða mikið um þetta, en ég hygg þó, að öll bókhaldsskyld fyrirtæki gætu gert grein fyrir þessu. Það hlýtur að vera hægt að ganga úr skugga um það í bókum fyrirtækjanna, hvað þar er selt af þessari eða annarri vöru.

Mér fannst hv. þm. telja það aðalkost þessa skatts. að það taka svo margir þátt í að bera hann. Þetta kann að vera kostur, og það kann að vera ókostur. En áreiðanlegt er, að í þessu er fengin full viðurkenning á því, sem ég sagði, að þessi skattur lenti raunverulega á almenningi í landinu og hefur ákaflega svipuð áhrif, og nýr tollur.

Hv. þm. Barð. var að tala um það, að skatturinn myndi ekki verða framlengdur, ef tekjur landsmanna ykjust eða það færi fram niðurskurður á ríkisútgjöldunum. sem mér fannst hann hafa góðar vonir með að yrði, og byggir hann það vitanlega á trausti til núv. ríkisstj. Ég hef nú ekki séð miklar horfur á því enn, að það sé mikill niðurskurður á ríkisútgjöldunum síðan núv. ríkisstjórn tók við völdum.

Ég man ekki, hvað það eru mörg embætti, sem stofnuð hafa verið með l. síðan ríkisstj. tók við völdum, en þau eru orðin nokkuð mörg. Að nýjar framkv. og öflun nýrra atvinnutækja skapi auknar tekjur í ríkissjóð, eins og hann var að spá, . og þar af leiðandi væri ekki þörf á að endurnýja skattinn, þá er vonandi, að þær vonir, sem hann og aðrir bera í brjósti um það, rætist. En ekki sér maður bóla á slíkum framkvæmdum enn. Það eina. sem í þessu efni hefur skeð og nú er verið að framkv., eru ráðstafanir, sem fyrrv. stj. gerði, þó að hún þætti ekki góð og ekki þætti rétt að hafa hana áfram. En misskilningur er það, sem hv. þm. Barð. sagði að ég hafi verið stuðningsmaður þeirrar stj. Ég veit ekki til þess, að ég hafi verið meiri stuðningsmaður þeirrar stjórnar en hann. (GJ: Jú áreiðanlega.) Það vildi nú samt svo til, að í þeim málum, sem sú stj. bar sérstaklega fyrir brjósti og hefði gert að fráfarara:riði, ef þau hefðu' ekki náð fram að ganga, vorum við samherjar í að fylgja á þingi 1943, ekki til að styðja stj., heldur af því, að við álitum þau nauðsynjamál.

Þá sagði hv. þm., að þetta frv. væri borið fram af nauðsyn vegna ástandsins, en ekki vegna stefnu ríkisstj. Ég er nú ekki alveg sammála um þetta. Ég veit, að það hefði þurft að afla nokkurra:ekna í ríkissjóð, hvað sem öðru leið, vegna þess, sem á undan var gengið. En ég er ekki alveg viss um, að það hefði þurft að afla allra þeirra tekna, sem nú er farið fram á, ef stefna ríkisstj. hefði ekki komið til og hennar flokka. Það er ekki nema 10 millj. kr., sem áætlað er, að þessi skattur gefi í ríkissjóð. En t.d. samþ. launal. mun kosta a.m.k. 7 millj. kr. árlega miðað við, að núverandi dýrtið haldist. Það er afleiðing af stjórnarsamningnum, að þessi l. verða samþ. Ég er því alveg viðbúinn, að mér sé svarað, að ég sé einn af flm. frv. — Í fyrsta lagi er það, að ég bar fram lækkunartill. við frv. og ég ber enga ábyrgð á þeim hækkunum, sem síðan hafa verið samþ. Og svo er annað. það er sú hækkun, sem hefur orðið á vísitölunni í staðinn fyrir lækkun. sem hefði átt að vera. Er það ekki bein afleiðing af stefnu stj.? Ég ætla ekki að fara út í það, það yrði langt mál. En ég hygg, að hægt sé að færa býsna góð rök fyrir því, að það sé afleiðing af henni.

Ummæli hv. þm. Barð. um það, að mín afstaða markist af því, að verið er að leggja á samvinnufélögin, eru vitanlega ekki svaraverð. Enda hafa orð mín ekki gefið neitt tilefni til þess að segja slíkt. Þegar ég minntist á samvinnufélögin, tók ég það aðeins sem dæmi, af því að það er öllum skiljanlega, að í þeim tilfellum hlýtur skatturinn að koma niður á almenningi. Ég var ekki sérstaklega að mæla samvinnufélögin að öðru leyti undan þessum skatti fremur en aðra. Ég ætla ekki tímans vegna að fara út í þessi margumtöluðu hlunnindi samvinnufélaganna, sem hv. þm. var að tala um. Ég veit ekki um önnur hlunnindi samvinnufélaganna, að því er skatta ríkisins snertir, en þau, sem ýmis félög og fyrirtæki í landinu hafa. Að því er snertir gjöld til bæjar- og sveitarfélaga er það að segja, að hvað, sem samvinnulögin segja, er það praktiserað þannig, að því er mér virðist, að það er lagt á samvinnufélögin eins og hverja aðra verzlun. A.m.k. er það svo um það félag. sem ég er kunnugastur. að mér virðist það borga útsvar til hlutaðeigandi bæjar eins og hver önnur verzlun. Vitanlega er það stærsta verzlun í bænum, en borgar líka margfalt útsvar á við nokkra verzlun.

Það, sem hann nefndi olíusamlögin, þá er því auðsvarað, að þessi félög gátu tæpast komizt undir nokkur önnur ákvæði um tilslökun heldur en samvinnul., þau eru nefnilega ekki hlutafélög. Þá minnti hann mig á það, að ég hefði verið með frv. um veltuskatt á togarana, sem væri að nokkru leyti hliðstætt þessu frv. Þetta er dálítið hæpið hjá hv. þm. Ég gerði ekki svo mikinn ágreining um það mál, að ég skrifaði fjhn. út af því og gæfi út sérstakt nál. En ég skrifaði undir nál. fjhn. um málið með fyrirvara. Ég greiddi ekki atkv. með því í hv. d. Ég man satt að segja ekki, hvort hv. þm. greiddi atkv. með þessu frv. En hitt veit ég. að hann styður nú og sjálfsagt áfram þá stjórn, sem bar þetta frv. fram, og þess vegna finnst mér hann eigi ekki að gera mikið veður út af því máli.