16.02.1945
Efri deild: 129. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1905 í B-deild Alþingistíðinda. (4939)

257. mál, veltuskattur

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Þetta er nokkuð stórt mál og hefur ekki enn verið rætt frá öllum hliðum. Ég vil víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. Barð., þar sem hann út frá þeim skattaálögum, sem hér er um að ræða, fór orðum um það, að samvinnufélögin hefðu haft óþarfa hlunnindi í skattaálögum áður og gætu þess vegna ekki kvartað út af þeim skatti, sem hér kemur. Ég vil aðeins benda á það, að ástæðan til þess, að hér á landi eins og í öðrum frjálsum löndum er gerður munur á skatti á samvinnufélögum og hlutafélögum, er eftir eðli málsins ekki af greiðasemi, heldur af því, að ekki verður hjá því komizt. Ég ætla að taka dæmi. Segjum t.d. að hv. þm. væri stór og ríkur atvinnurekandi á einhverjum stað og þar væri kaupfélag með þúsund félagsmenn og þessar verzlanir gætu haft á einhverju ári eða mörgum árum svipaða veltu, þá finnst mörgum, að þær ættu að borga sama ú;svar, tekjuskatt og veltuskatt. Margir kaupmenn hafa haldið því fram, að svona hlyti þetta að vera. En þegar hv. þm. athugar það, að munurinn er þessi, að ef hann hefur fengið af sinni forretningu við skulum segja 200 þús. kr. í gróða og kaupfélagið með þúsund meðlimi hefur fengið 200 þús. kr. tekjuafgang, þá eru eftir skipulaginu þessar 200 þús. kr. eign þúsund meðlima, eins og þeir hefðu lagt það í sparisjóð. Þetta er ekki eign, sem kaupfélagið á, heldur er það lagt til hliðar. Aftur á móti hinn atvinnurekandinn á þessar 200 þús. kr., — hefur grætt þær. Það eru tiltölulega miklar tekjur, og því er líka réttmætt, að hann beri nokkuð mikinn skatt, móts við það, að hinar 200 þús. kr. eru lánsfé, ef til vill manna, sem eru búsettir utan héraðsins, og af því leiðir, að þessar smáeignir þúsund manna koma í ranglátan skala, eins og það væri talin eign eins manns, sem það ekki er, heldur skiptist það í þúsund parta.

Ég þykist vita, að hv. þm. Barð. muni vita þetta. Og þetta dæmi er táknrænt yfir baráttu þá, er snertir skattamál kaupfélaganna um það, hvort eigi að nota sér það, að t.d. þús. menn geyma part úr ári innstæður, sem þeir eiga, og leggja á það eins og það væri eins manns eign. Það er meira að segja, að þessir þúsund menn eiga ekki eftir eðlilegum skattareglum að borga af þessu tekjuskatt tvisvar. Kaupfélagsmaður, sem hefur 5 þús. kr. í tekjur og verzlar í sínu kaupfélagi fyrir 3 þús. kr., fær borgaðar aftur um áramótin 300 kr. Það er ekki rétt hugsun í því að telja þær sem hækkun á grundvellinum til skatts. Hann er búinn að telja þær fram áður, hann hefur lánað eða geymt þessar 300 kr. part úr ári í ákveðinni stofnun, og þess vegna er rangt að skatta þær bæði í kaupfélaginu og heima hjá honum. Það er aðeins rétt í fyrsta sinn, þegar það er talið fram sem hreinar tekjur.

Ef menn átta sig á þessum einföldu sannindum, mun ekki vera hægt að deila um, að þetta sé rétt, og ætti þá að detta niður allur órói af því, að réttmætt sé að leggja á tekjuafgang samvinnufélaganna eins og einstaklingsgróða.

Nú vil ég enn fremur spyrja hv. þm. Barð., hvort hann standi í þeirri trú, að kaupfélögin borgi engan skatt. Það er öðru nær. T.d. borgaði S.Í.S. 400 þús. kr. skatt árið, sem leið, og eitt kaupfélag á Akureyri borgaði 270 þús. kr. skatt til ríkis og bæjar.

Nú vil ég enn fremur skýra fyrir hv. þm., að fyrir nokkrum árum urðu tveir mjög merkir flokksbræður okkar beggja til þess að koma á stríðsgróðaskatti, annar fyrir hönd kaupfélaganna og hinn fyrir hönd auðmannanna. Þeir komu sér saman um, að rétt væri að leggja þennan skatt á, en ég held, að þeir hafi báðir farið rangt að í þessu efni. Ég ætla, að hv. þm. Barð. hafi passað hlut auðmannanna, en ég ætla ekki að fara út í það, en svo mikið er víst, að þessi skattur hefur raunverulega orðið til eyðileggingar fyrir samvinnufélögin og hefur valdið því, að með þeim takmörkunum á verðálagningu, sem samvinnufélögin temja sér alltaf, og vegna verðlagseftirlitsins, sem er í landinu. hafa ekki verið rúmir möguleikar fyrir samvinnufélögin að græða á þessum árum. Allar tekjur, sem samvinnufélögin hafa fengið, eru að langmestu leyti fra félagsmönnum, þannig að þegar verðfallið kemur, eru kaupfélögin og samböndin ákaflega illa undir það búin að mæta því, þar sem ekki er leyft að leggja til hliðar af eignum félagsmanna til þess að mæta þeim erfiðleikum, sem eru fram undan. Það er ákaflega lítið talað um þetta. Þegar ofan á þetta bætist það, sem mér skildist, að hv. 3. landsk. vildi leggja höfuðáherzlu á, að leggja þennan eignarskatt eða eignaraukaskatt þannig á, að hann verkaði aftur fyrir sig, þá er nú skörin farin að færast upp í bekkinn. Í venjulegum evrópiskum löggjöfum í frjálsum löndum er það ekki siður að skatta tekjuafgang, sem félagsmenn eiga í félagi sínu. En þegar við það bætist, að þetta er skattlagt stórkostlega, að strangt eftirlit er um verð á nauðsynjavörum og þessi fyrirtæki verzla með þær vörur fyrst og fremst, hafa þau litla möguleika til þess að safna fé á þann hátt. Þessi veltuskattur kemur tilfinnanlegast niður á verzlunum, sem hafa mikla umsetningu.

Svo kemur að þessu, sem er svo undarlegt, að manni, sem þekkir ákaflega vel afstöðu kaupfélaganna, hefur verið kaupfélagsstjóri, skuli detta í hug að gera þennan skatt enn erfiðari og kannske ranglátari með því að vilja láta hann verka aftur fyrir sig, þannig að telja þetta harðan skatt eins og eign. Ég tel, að ég hafi fært rök fyrir því, að að því er kaupfélögin snertir er þessi skattur út af fyrir sig ranglátur og hálfu ranglátari, þegar lagt er á eftir á.

Ég vil þá næst snúa mér að hv. 3. landsk., sem er stuðningsmaður þessarar ríkisstj. Þó að ég sé á móti stj., get ég sem þm. litið óhlutdrægt á það, hvernig búið er að ráða fram úr þessu vandamáli. Fyrst kem ég að því, sem hefur verið mikið umdeilt, — tilefni þessa skatts. Það hafa margir verið í þeirri meiningu, að það hafi þurft að leggja þennan skatt á til þess að borga bændum landsins tekjur, sem þeir kannske ekki fá. Ef ég skil hæstv. fjmrh. rétt, þá hafði hann orð um það, að þennan skatt eigi ekki að leggja á aftur, og sér enginn eftir því. Og yfirleitt væri það ekki meiningin að fylgja þeirri stefnu að borga niður dýrtíðina. Hv. 3. landsk. er einn af fulltrúum verkamannaflokksins, og sá flokkur hefur haldið því fram, að hann væri óánægður með, að dýrtíðin væri borguð niður, og þeir og nokkur hluti Sjálfstfl. hafa haldið því fram, að það væri gjöf til sveitafólksins. Ég get ekki komizt hjá því, þegar rætt er um þennan skatt, sem enginn vill borga og fáir leggja á, að benda á, að ástæðan til þess, að talað var um að leggja þennan skatt á, er sú. að sumarið 1942 beittu bæði Alþfl. og Sósfl. sér fyrir því að hækka verkamannskaupið. og er sú saga svo kunn, að ekki þarf um það að ræða. Og þetta gerðu þeir, þó að þeir hafi vitað það fyrir víst, að það mundi hækka dýrtíðina. Dýrtíðin hækkaði svo mikið þetta sumar, að ef haldið yrði áfram sömu stefnu, var ekki annað sýnilegt en þjóðfélagið mundi stranda fjárhagslega innan skamms, ef ekki yrði gripið í taumana. Þá var það, að millibilsstjórnin, utanþingsstjórnin, tók upp það ráð, sem margir hafa fordæmt og hæstv. fjmrh. hefur líka fordæmt, að reyna að halda dýrtíðinni í skefjum með því að færa til frá þeim, sem voru meiri máttar, til þeirra, sem voru minni máttar. Því hefur aldrei verið svarað, og ég vona, að hæstv. ráðh. segi nokkur orð um það, hvernig hann og stjórnin ætla að ráða við dýrtíðina, ef þessi skattur verður ekki framlengdur.

Nú vil ég segja við hv. 3. landsk. og óska skýringar hans á því, af því að sérstaklega af þeim flokki, sem hann er í, hefur verið um það talað, að þessi tilfærsla hafi verið gerð fyrir bændur. Það var ekki gert fyrir bændur 1942 að hækka kaupið. Bændur voru óánægðir yfir því, að það var gert, en þeir réðu ekki við það. Þess vegna er það, að þessi dýrtíð og það, sem hefur verið gert til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem voru gerðir 1942, er sérstaklega verk verkamannaflokksins og nokkurs hluta Sjálfstfl., sem var allánægður með þetta. Það ráð, sem tekið var upp haustið 1942, um að færa til milli stétta til að halda niðri dýrtíðinni, hafa þær. þjóðir, sem við eigum mest skipti við, Bretar og Bandaríkin, gert í stórum stíl, til þess að atvinnulíf þeirra hrynji ekki í rúst, þegar stríðið er búið. Þess vegna er það, að allir, sem fordæma það að borga niður dýrtíðina, eiga eftir að sýna, hvaða spaklegu úrræði þeir hafa fram yfir Breta og Bandaríkin, sem borga niður dýrtíðina.

Það er nokkuð undarlegt, að fulltrúi verkamannaflokksins hér, hv. 3. landsk., og einn af flokki sósíalista hafa borið fram till. um það, að höfuðáherzla skuli lögð á það, að þessi skattur skuli lagður á fyrir árið 1944, en ekki 1945. Að þessu atriði ætla ég að víkja nokkrum orðum. Ég skal ekki segja, hvað þessir hv. þm. hafa haft mikinn hug á að mynda þá stj., sem nú situr. Það er eins og þegar menn ganga í hjónaband, að þeir menn, sem það gera. verða að taka afleiðingunum af því. Eitt af því, sem þeir urðu að koma sér saman um, um leið og stjórnin var mynduð, var að borga niður dýrtíðina og afla til þess fjár. Og nú kemur að því, sem mér finnst vera ádeiluefni fulltrúa verkamannaflokksins. Ég ætla þá að snúa mér að hv. 3. landsk. Það, sem þeim þá mátti vera ljóst, var það, að stj. var nauðsynlegt að geta fengið þessa peninga. Það er vitað, að ef ekki hefði tekizt að komast að samkomulagi í sambandi við hækkun landbúnaðarvörunnar, þá hefði ekki tekizt að mynda þessa stjórn, sem nú situr.

Nú hefur hæstv. forsrh. gefið verkamannaflokknum undir fótinn um það, að hægt sé að vera þeim að skapi, sem sé með því að láta breiðu bökin fá að bera skattinn. Og hæstv. ráðh. hefur mjög skáldlega lýst því, að til væru rottuholur, sem hægt væri að seilast inn í, og hann gerði ráð fyrir því, að það væri eitthvað annað, sem finna mætti til bjargar í þessu efni. Þetta var alveg rétt hjá hæstv. ráðh., eins og við var að búast hjá svo mætum manni. Hér á landi er verulega mikið fjármagn, sem ekki er gefið upp til skatts. Það er í fárra manna höndum, og raunverulega er það ekki nema mannsverk fyrir þá, sem styðja þá fátæku, eins og fulltrúa verkalýðsflokksins, að reyna að hjálpa höfuðmönnum stj. við að ná í eitthvað. sem um munaði, af þessum stórgróðamönnum. Það er öllum kunnugt, að það er verulega mikið af verðbréfum, sem ganga nafnlaus manna á milli, og þó að það sé ekki beinlínis hægt að sanna það um hvert einasta bréf, þá er vitað, að þetta fé er að mestu leyti ekki talið fram. Megnið af þessu fé er eign tiltölulega ríkra, manna, og þar sem það er ekki talið fram fyrir þessa vöntun á góðu formi. þá er þetta einhver sá eðlilegasti gjaldstofn. Þessar rottuholur hefði hv. 3. landsk. og félagar hans átt að stinga hendinni í. Og veit ég, að ekki þarf að skýra fyrir manni eins og hv. 3. landsk., hvernig það má gerast að knýja þessi nafnlausu bréf fram, að ekki þurfi að greiða af þeim vexti, nema þau komi fram, og leggja á þau nokkurn skatt. Og það vil ég segja við hæstv. fjmrh., að ef þarna er beitt réttmætum skatti, er sennilegt, að fá mætti menn til þess að telja fram sparisjóðsfé. Það er ekki hægt að gera það nema leggja á það vaxtaskatt og undanþiggja það öðrum skatti. Þessi vaxtaskattur getur verið í hlutfalli við það, sem menn mundu borga, ef þeir teldu það fram, ef hægt væri að fá það undan skattal. Það var eitthvað annað en farið væri inn í þessar holur, heldur er niðurstaðan sú, að það er komið að mjóu bökunum og þeim breiðu sleppt. Þegar óskað er eftir að leggja á kaupfélögin, þá er ekkert annað sýnna en það, að þau verði að taka af stofnsjóðum félagsmanna, og þá er sannarlega komið að öðru en til var ætlazt af forsvarsmönnum ríkisstj.

Þá er það leitt, sem ég álít ekki óviðeigandi að beina til fulltrúa verkamannaflokksins, sem hér er eins konar staðgengill hæstv. forsrh., og það er, að mér finnst það ótrúlegt í framferði verkamannaflokksins gagnvart ríkisstj., að þeir hafa tiltölulega fleiri ráðh. en stærsti flokkurinn. Það er eins og í vinnufólksleysinu, að það gengur út yfir húsbændurna, sem verða að fara á fætur kl. 5 og sofna ekki fyrr en kl. 12, en fólkið, sem hefur minni ábyrgð, fær fullan svefn, og eins finnst mér það vera í ríkisstj.

Það, sem fulltrúum verkamannaflokksins átti að vera ljóst, var það, að þennan skatt urðu þeir að borga vegna dýrtíðarinnar, sem þeir hafa skapað. Þá er það sýnt, að þessum flakksleiðtogum hlaut að þykja eðlilegt, að þeir tækju á sig einhverja ábyrgð. Sá skattur, sem illu heilli á að leggja á, var til sameiginlegra þarfa ríkisstj. til að inna af hendi skyldur hennar við mannfélagið. Ég get aðeins bætt við. að þegar nú hæstv. fjmrh. kemur hér fram og segir: „Ég verð að leggja á þennan skatt, annað er ekki betra. Skatturinn er svo vondur, að ég vil ekki leggja hann á nema einstaka menn,“ þá átti að vera sýnilegt fyrir stuðningsflokkana, að nógu mikið er lagt á bak ríkisstj. að fá svona skatt.

Nú er mála sannast, að skattur í þessari mynd, sem verkalýðsflokkarnir vilja leggja á, eykur stórkostlega óvinsældar stj., og þó að okkur stjórnarandstæðingum út af fyrir sig sé það ekki á móti skapi, þá finnst mér samt rétt, úr því að rætt er um þetta, að benda fulltrúum verkalýðsflokkanna á, að með þessu frv. sínu eru þeir að grafa undan þeirri stj., sem þeir hafa sett á laggirnar. Stj. á nógu erfitt samt, þó að það sé ekki gert.