22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (4958)

257. mál, veltuskattur

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Þess gerist ekki þörf að hafa langa framsögu um þetta mál. Það er orðið svo kunnugt hv. þm., að það þarf ekki mikilla skýringa við, en ég læt mér aðallega nægja að vísa til grg., sem upphaflega fylgdi frv., og svo framsögu hæstv. fjmrh. hér við 1. umr. málsins.

Ég skal fúslega játa, að sú skattlagningaraðferð, sem hér er gripið til, er óvenjuleg, og má segja, að hún réttlætist ekki af öðru en því, að það er yfirleitt skoðun manna, að þeir gjaldendur, sem þessi skattur er lagður á, hafi haft nokkra sérstöðu til að auðgast á sínum atvinnurekstri á undanförnum árum. Það er í raun og veru ekki um það að ræða fyrst og fremst að leggja skatt á afkomu þeirra á því ári, sem skatturinn gildir fyrir, heldur sé hann eins konar eignarskattur, sem sé miðaður við veltu þessa árs. Það komast því ekki að í sjálfu sér aths. um það, hvort hagnaður verði á atvinnurekstrinum það ár, sem skatturinn er lagður á, og ekki heldur sérstaklega á síðasta ári, því að grundvallarhugsunin á bak við þennan skatt er sú, að á þessum árum hafi þeir gjaldendur, sem skattinn eiga að greiða, yfirleitt haft aðstöðu til að hagnast á sínum atvinnurekstri.

Eins og fram kemur í þeim skjölum, sem hér liggja fyrir í sambandi við málið og brtt. frá fjhnm., er augljóst, að ég hef lítið um málið að segja fyrir n. hönd, því að telja má, að hún sé að ýmsu leyti margklofin. þó að fjórir nm. skrifi undir sameiginlegt nál. og vilji láta samþ. frv., því að þessa nm. greinir nokkuð á um, hvernig eigi frá því að ganga. Við erum sammála um, að þinginu beri að gera ríkisstj. kleift að afla fjár til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem ríkissjóður óhjákvæmilega þarf að standa undir á þessu ári, m.a. til þess að greiða þær uppbætur á landbúnaðarafurðir, sem samþ. hefur verið að greiða. Það er því óhjákvæmileg nauðsyn alþjóðar, að tekjur séu til að standa undir þeim útgjöldum. Og með því að ekki liggja fyrir aðrar till. til þessarar fjáröflunar, teljum við nm. óverjandi að leggjast á móti þessum skatti.

Um einstakar brtt., sem fram hafa verið bornar, get ég í rauninni ekki talað neitt nema frá mínu sjónarmiði. Ég er mótfallinn öllum brtt. nema þeirri einu, sem mitt nafn er sérstaklega bundið við, á þskj. 1193. Um þá till. má segja, að það má telja hana frá n. allri að því leyti, að hún snýr eingöngu að framkvæmd l. Er þar lagt til, að skatturinn verði innheimtur fyrir tvo fyrstu ársfjórðungana saman vegna anna skattstofunnar, sem á að leggja skattinn á. Till. er borin fram eftir sameiginlegri ósk skattstjóra og fjmrh., og hygg ég, að allir nm. álíti, að ef frv. nær fram að ganga, sé þetta nauðsynleg brtt.

Um brtt. á þskj. 1200 frá hv. þm. Borgf. og þremur öðrum hv. þm. og brtt. á þskj. 1192 frá hv. þm. a.-Húnv. hygg ég, að ég geti sagt fyrir hönd okkar þriggja nm., hv. 8. þm. Reykv. og hv. 5. landsk., að við teljum, að þær séu ekki á, þeim rökum reistar, að við getum mælt með samþ. þeirra. Okkur skilst, að þær hnígi að því að mismuna þeim, sem hér eiga hlut að máli, án þess að nægileg rök séu fyrir hendi til þess að sú mismunun sé leyfileg. Um till. þeirra hv. 8. þm. Reykv. og hv. 5. landsk. á þskj. 1191 get ég sagt f. h. okkar hv. þm. a.-Húnv., að við getum ekki fallizt á þá till. Það má að vísu mjög um það deila, hvort heppilegra sé að leggja skattinn á veltuna 1944 eða 1945, en eins og nú er h áttað um þetta hér á þingi og nú er líka komið að þinglokum, þá getum við ekki annað en mælt á móti þeirri till.

Ég hef svo ekki meira um þetta mál að segja, en ég vænti, að d. geti afgr. málið fljótlega.