22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (4959)

257. mál, veltuskattur

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég hef ekki getað orðið sammála hv. meðnm. mínum í fjhn. um afgr. þessa máls, og ég hef skilað sérstöku nál. á þskj. 1197, þar sem ég legg til, að frv. verði fellt.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um málið nú við þessa umr., en ef til vill verður það rætt frekar við 3. umr. Ég vil þó í stuttu máli gera grein fyrir því, hvernig mér lízt á þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Mér sýnist ljóst, að hér er um að ræða nýjung í skattamálum. Það hefur verið venja við álagningu beinna skatta, að þar hefur verið miðað við tekjur og eignir þeirra, sem hafa átt að greiða þá, og hafa, skattarnir farið stighækkandi eftir eignum manna og tekjum, þannig að skattur hefur verið hlutfallslega meiri af miklum tekjum og eignum en litlum. Hér er hins vegar tekin upp alveg ný aðferð við álagningu þessa skatts. Þar er ekkert litið á rekstrarafkomu fyrirtækjanna, sem eiga að borga skattinn. og ekki heldur til efnahags þeirra, og skatturinn er jafnt lagður á verzlanir, sem verzla með brýnustu lífsnauðsynjar, og hinar, sem aðallega verzla með óþarfan varning. Fyrirtæki, sem hafa litla umsetningu. en tiltölulega mikinn ágóða miðað við veltu, sleppa sæmilega vel frá þessu skattgjaldi, en þau, sem hafa mikla veltu, en lítinn ágóða og mikla áhættu, sem oftast fylgir mikilli umsetningu, verða að borga mikinn skatt. Þetta finnst mér svo ranglát aðferð við skattaálagningu, að ég get ekki léð því mitt samþykki. Mér sýnist alveg Ijóst, að þessi skattur, ef hann verður tekinn í l., geti lent með miklum þunga á fyrirtækjum, sem hafa engan nettóágóða af átvinnurekstri sínum, og hann getur lent á fyrirtækjum, sem hvorki hafa tekjuafgang af starfsemi sinni né eignir til að nota til skattgjaldsins. Það er tekið fram í 7. gr. þessa frv., að þennan veltuskatt sé óheimilt að telja í kostnaðarverði vöru eða taka tillit til hans við verðákvörðun. Ég held, að þrátt fyrir þessi ákvæði verði ekki komizt hjá því, að þessi skattur lendi að töluverðu leyti á almenningi og komi þá fram í raun og veru sem viðbótarskattur á vörurnar. Það má t.d. benda á það í þessu sambandi, að ef þau fyrirtæki, sem við verzlun fást og eiga að borga þennan veltuskatt, eru fær um að greiða hann af sínum tekjum, þá hefði verið hægt fyrir verðlagsyfirvöldin að minnka ágóða þeirra með því að draga úr álagningunni, og hefði sú ráðstöfun orðið til þess að lækka vöruverðið. Sérstaklega er það ljóst, að þessi skattur hlýtur að lenda á þeim mönnum, sem hafa viðskipti sín við samvinnufélögin og eru félagsmenn þeirra. Skatturinn hlýtur óumflýjanlega að verða til þess að lækka þær upphæðir, sem kaupfélögin geta skilað aftur til félagsmanna sinna, og kemur þá fram sem hækkun á verði þeirrar vöru, sem þessir menn kaupa.

Það var á það minnzt af hv. frsm. meiri hl., að ekki væri hægt annað en að samþ. að leggja á þennan skatt, af því að ríkissjóð skorti fé. Rétt mun það vera, að ríkissjóður hafi þörf fyrir þessar tekjur. En ég tel, að þegar farið er að grípa til slíkra ráðstafana, til þess að ná tekjum í ríkissjóð, eins og hér eru á ferð, sé það bezta sönnun þess, að eitthvað sé meira en lítið bogið við ríkjandi fjármálastefnu, sönnun þess, að hún er röng og ekki hægt að halda áfram á þessari braut. Ég tel því, að í stað þess að leggja á þennan skatt, hefði nú þegar átt að breyta um stefnu í fjármálum, þannig að útgjöld ríkissjóðs færu lækkandi og tekjuþörf hans þá um leið.

Ég ætla nú ekki að sinni, nema tilefni gefist til, að segja meira um málið almennt. Það hafa þegar komið fram nokkrar brtt. við frv., og minntist hv. frsm. meiri hl. á nokkrar þeirra. Það eru þ. á m. till., sem full ástæða er til að gera að umtalsefni. En þannig er ástatt, að hv. flm. einnar brtt., sem eru tveir, hv. 5. landsk. og hv. 8. þm. Reykv., eru ekki viðstaddir hér á fundi, þegar málið er tekið til umr., þótt þeir hafi leyft sér að flytja þessa brtt. Ég veit ekki, hvernig hæstv. forseti fer með afgreiðslu málsins, hvort hann gerir ráð fyrir, þegar til atkv. kemur, að láta þessa till. koma undir atkv., þó að hvorugur hv. flm. hafi svo mikið við að láta sjá sig í hv. d. til að gera grein fyrir till. sinni. Mun ekki vera venja að taka brtt. til meðferðar, fyrr en flm. hafa gert grein fyrir þeim, og ætla ég ekki að gera það nú, ef meðferð málsins yrði þannig, að till. yrði ekki látin ganga undir atkv., fyrr en hv. flm. hafa sýnt sig og látið eitthvað frá sér heyra varðandi þessa till. En verði hún hins vegar tekin til afgreiðslu, án þess að gerð sé grein fyrir henni, vil ég áskilja mér rétt til að víkja að efni hennar.