22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (4961)

257. mál, veltuskattur

Pétur Ottesen:

Herra forseti. — Það er nú máske tilgangslaust að tala hér fyrir brtt., þar sem ekki er mættur nema 1/3 hv. þdm. Ég vil þó láta nokkur orð fylgja þeirri brtt., sem ég ásamt þremur öðrum hv. þm. á á þskj. 1200.

Við 1. umr. þessa máls bar ég hér fram fyrirspurn, sem ég beindi til hæstv. fjmrh., um skilning á vissum atriðum í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og þær skýringar, sem hæstv. fjmrh. gaf, féllu á þá lund, að skatturinn mundi ná til innlendra framleiðsluvara, bæði mjólkur og kjöts og fisks, í öllum öðrum tilfellum en þeim, þegar varan er seld í heildsölu, og í öðru lagi þegar það eru sjálfir framleiðendur varanna, sem selja þær. Þannig mundu samkv. þessum skilningi þessar vörur koma undir ákvæði þessara skattalaga, þó að þær væru seldar af félagssamtökum framleiðenda sjálfra.

Nú er það svo, að því er snertir sölu á mjólk og kjöti, að því leyti sem þessi sala fer fram á vegum þessa félagsskapar, sem bændur hafa nú falið að hafa það verkefni á hendi, að þá mundi þetta, að því er mér skilst, ekki hafa nein áhrif fyrir ríkissjóð til né frá, vegna þess að ákveðið er í sex manna nefndar álitinu eða þeirri löggjöf, sem við það styðst, það verð, sem bændur eiga að fá fyrir þessar vörur, og mér skilst, að það sé ekki hægt að skerða það verð með slíkum skatti sem þessum. Því er alveg tilgangslaust að þessu leyti að láta þennan veltuskatt ná til þessara vara að því leyti, sem sala þeirra er í höndum þeirra félaga, er framleiðendur sjálfir hafa falið að annast sölu á þessum vörum. Eða svo er þessu háttað, meðan sú löggjöf gildir um þetta efni, sem nú er.

Nú er vitað, að nokkuð af þessum vörum, t.d. mjólkurvörur og kjöt, er selt af öðrum en þessum félagsskap bænda, sölufélögum bænda. Þau fela öðrum sölu þessara vara fyrir ákveðin umboðslaun. Nú er það svo, að álagning á þessar vörur í smásölu er háð verðlagseftirliti, og eftir því sem mér er sagt af mönnum, sem mjög eru kunnugir þessari sölu, þá er þessi álagning svo naumt skorin, bæði að því er snertir kjöt og mjólk, að ef slíkur skattur sem þessi eigi að koma niður á þessari sölu, séu engar líkur til þess, að hægt verði að koma út þessum vörum með þessari álagningu. Afleiðing af því, að skatturinn lendir á þessum vörum, þegar þær eru seldar út af kaupmönnum, gæti því hæglega orðið sú, að kaupmenn hættu að selja þessar vörur jafnskjótt og l. gengju í gildi, en það mundi aftur leiða til þess, að framleiðendur, sem þessar vörur eiga, yrðu að haga útsölunni á annan hátt eða koma sjálfir upp útsölustöðvum fyrir þessar vörur, og þá ber að því sama, að þetta hefði engin áhrif fyrir ríkissjóð, meðan núgildandi löggjöf í þessum efnum heldur gildi.

Við flm. lítum því svo á, að eðlilegt væri að ákveða í þessum l., að þessar framleiðsluvörur á mismunandi framleiðslustigi séu, eins og tekið er fram í þessu frv., undanþegnar þessum skatti.

Hv. þm. a.-Húnv. hefur flutt um það brtt., að vörurnar skuli undanþegnar þessum skatti að því leyti, sem framleiðendur sjálfir eða félagsskapur þeirra hafi söluna á hendi. Okkar till. gengur að því leyti lengra en hans till., að hún tekur til þessara framleiðsluvara með hvaða hætti sem sala þeirra fer fram.

Ég held, að það sé svo ekki meira, sem ég þarf að segja um þessa till. að svo komnu.