22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (4962)

257. mál, veltuskattur

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Það stendur svo á, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. og hv. 8. þm. Reykv., sem á sæti í n., eru bundnir á öðrum fundi og geta ekki losnað. En eigi að síður skilst mér, að meiningin sé, að þessu geti orðið lokið í kvöld og atkvgr. frestað. Þótt hv. frsm. sé fjarverandi, þykir mér ástæða til að víkja nokkuð að þessu máli frá mínu sjónarmiði og þeim brtt., sem fram hafa verið lagðar við þetta frv.

Það hefur verið um það talað af andstæðingum þessa máls, að hér væri á ferð ný stefna í skattamálum, fullkomin neyð o.s.frv. Ég er dálítið hissa á því, hve fast er að orði kveðið í þessum efnum, því að það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þeir, sem eru andstæðir þessu frv., hafa engu síður en við rætt um það, hve mikil nauðsyn væri á því að afla ríkissjóði meiri tekna en fram að þessu hefur verið gert. Frá þeim hefur þó ekki komið nein till. eða frv. á þessu þingi um það að afla þess fjár, sem afla þarf, á annan veg.

Ég fyrir mitt leyti er nú ekki líkt því eins svartsýnn á þennan skatt og jafnvel margir aðrir, sem eru þó fylgjandi þessu frv., því að ég er sannfærður um það, sem hefur ekki heldur verið talið neinum tvímælum bundið á undanförnum árum, að nú, síðan stríðið hófst. hafa þeir aðilar, hvort heldur eru félög eða einstaklingar, sem fengizt hafa við verzlun, haft betri aðstöðu til að hagnast á atvinnurekstri sínum en aðrir aðilar í þessu þjóðfélagi. Þetta byggist á því, að sú regla hefur verið upp tekin varðandi verðlagningu á innfluttum vörum, að eftir því, sem þær eru keyptar inn hærra verði, verður hagnaður verzlunarrekandans meiri, þegar álagningin er öll miðuð við prósentugjald. Þess vegna er það, að þegar afla á fjár til þess að viðhalda atvinnuvegunum í landinu og koma í veg fyrir, að dýrtíðin vaxi meira en orðið er, þá er það engan veginn á ósanngirni byggt, að þeir, sem með viðskiptamálin fara, láti nokkuð af hendi rakna með sérstökum hætti. Það er líka víst, að af því að vísitölunni hefur verið haldið niðri, sem hefur verið gert með þeirri ráðstöfun að borga niður verð á innlendum markaði, hefur viðskiptalíf okkar verið betra á allan hátt síðustu ár en ella, og það hefur tvímælalaust verið hagnaður fyrir alla þá, sem með verzlun fara.

Hitt er rétt, að það er ósanngjarnt varðandi álagningu þessa skatts, sem hér um ræðir, að hann komi jafnt á „umsetningu“ án tillits til þess, hvaða vörutegundir það eru, sem einstök fyrirtæki verzla með. Ef réttilega hefði verið að farið, þá hefði til þess, að þetta væri sanngjarnlega á lagt, að mínu áliti þurft að vita, hvaða vörutegundir er um að ræða. En vegna þess, að hér er gert ráð fyrir því, að þetta verði á lagt í eitt skipti og þessi skattur er ekki sérstaklega hár miðað við það, sem verzlunargróðinn hefur verið á undanförnum árum, og þar sem það enn fremur hefði kostað mikil fjárútlát að flokka niður verzlanirnar eftir því, hvaða vörutegundir þær verzla með, þá hefur verið hjá því sneitt og tekin sú einfalda leið, sem gert er með þessu frv. Það er að láta skattinn ná yfir „umsetningu“ án tillits til þess, hvaða vörutegundir það eru, sem viðskiptaeinstaklingar verzla með.

Það, sem fram kemur í nál. hv. þm. V.-Húnv., sem hér liggur fyrir á þskj. 1197, er raunar ekki annað en það. sem fram kemur hjá mörgum, sem móti þessum skatti hafa mælt, sem sé það, að þetta hljóti að vera álagning á almenning, en ekki þá, sem með verzlun fara, vegna þess að því verði jafnað niður á neytendur í landinu. Það er nú skýrt kveðið á um það í þessu frv., að þetta á ekki að gera, og ef þetta yrði gert, þá byggðust þau mistök eingöngu á því, að verðlagsyfirvöldin fullnægðu ekki þeirri skyldu, sem á þeirra herðar væri lögð, svo sem vera ætti.

Hv. frsm. gat þess áðan, að hann liti á þennan skatt sem raunverulegt eignargjald, sem miðaðist við „umsetningu“ viðskiptaaðila á þessu ári, sem eins konar framlag frá þeirra hálfu. sökum þeirrar aðstoðar, sem þjóðfélagið hefði veitt þeim á þeim veltutímum, sem nú hafa verið undanfarin ár.

Til sönnunar því, að ekki hafi þótt óarðvænlegt að stunda verzlun síðustu ár, má geta þess, að það hafa streymt í þá atvinnu allir þeir menn, sem með nokkrum ráðum hafa þótzt geta komizt í þá aðstöðu. Og ég fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar, að þegar um það er að ræða, hvort þjóðfélagið á að haga sínum fjármálaafskiptum þannig, að það eigi að hafa áhrif á það, hvort það eru framleiðsluatvinnuvegirnir, sem komið er upp, eða hinir, sem eru byggðir á vöruskiptaviðskiptum eða félagsviðskiptum, hvernig sem þeir eru, er ég ekki í vafa, að fremur beri að miða við uppgang þeirra atvinnuvega, sem okkar þjóðfélag byggist á, þ.e. fiskflutninga, landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar.

Ég er nú ekki svartsýnni á þennan skatt en það, að ég tel hann miklu sanngjarnari en þann skatt, sem við vorum að samþ. í dag, skatt á söluverð á útfluttan fisk. Því að þar er um að ræða atvinnurekstur, sem okkur ber fyrst og fremst að efla. Að vísu ber ekki svo að skilja þessi ummæli mín, að ég ætlist til, að gengið sé svo á hlut þeirra, sem viðskipti stunda, að þeir verði að hætta þeim rekstri. Ég tel, að hér sé um að ræða fjáröflun til dýrtíðarráðstafanna, sem viðskiptin séu fær um að standa undir.

Nú er það vitað, að það orkar tvímælis hjá þeim, sem um þessi mál fjalla, hvort heldur skuli leggja skattinn á veltu ársins 1944 eða 1945. Sannleikurinn er nú sá, að það væri á ýmsan hátt einfaldara og þægilegra í meðförum að leggja skattinn á veltu ársins 1944. En hins vegar ber á það að líta, að það er alltaf leiðinlegt að láta skatta verka aftur fyrir sig. Þess vegna leggur hæstv. fjmrh., sem hefur samið frv., mikla áherzlu á það, að skatturinn verði miðaður við árið 1945. Þetta skiptir sennilega ekki miklu máli, því að engin líkindi eru til þess að dragi úr viðskiptum á þessu ári miðað við árið sem leið. Skatturinn mun því sennilega verða svipaður, á hvort árið sem hann kann að verða lagður.

Ég skal svo minnast á þá brtt., sem ég er flm. að á þskj. 1192, og einnig þá brtt., sem hv. þm. Borgf. hefur flutt ásamt 3 öðrum þm. Till. mín er byggð á þeim grundvelli, sem umr. fóru fram um hér við fyrstu umr. þessa máls, þ.e. að framleiðendur, sem selja vöruna, eða félög þeirra skuli vera skattfrjáls. Hins vegar skal ég játa það, að lengra er gengið í till. hv. þm. Borgf. á þskj. 1200. Fyrir mitt leyti get ég vel sætt mig við það, að sú till. verði samþ. Get ég því tekið mína till. aftur til 3. umr., þar til séð verður, hvernig fer fyrir till. á þskj. 1200. Raunverulega álít ég, að þær vörur, sem taldar eru upp í frv., séu undanþegnar þessu skattgjaidi, þar sem meðfram er verið að afla fjár til að bæta upp verð á nokkrum þeirra. En þeir, sem sömdu frv., vildu ekki undanskilja smásöluverðið, vegna þess að svo margar verzlanir verzla með blandaðar vörutegundir, og því mjög erfitt að framkvæma þessa undanþágu. Þegar verzlanir verzla með blandaðar vörutegundir, er ýmsum erfiðleikum bundið að flokka það, hvað eru vörur, sem eru undanþegnar skattinum, og hverjar ekki. Þess vegna valdi ég millileiðina og undanskildi aðeins þá framleiðendur og félög þeirra, sem verzla sjálf með vöruna, sem hér er um að ræða. Ég hef svo ekki meira um þetta að segja. Það hefur ekki fleira komið enn fram frá þm., sem ég tel mig þurfa að víkja að. En ég vil geta þess aftur, að til samkomulags get ég vel fallizt á, að till. á þskj. 1200 verði samþ., og mun mín till. því bíða til 3. umr.