22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (4963)

257. mál, veltuskattur

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég get vel verið stuttorður, þar sem hv. þm. Borgf. hefur talað fyrir brtt. á þskj. 1200, sem ég og nokkrir fleiri þm. flytjum.

Það hefur nú verið þannig, að það hefur verið óvinsælt verk að leggja á skatta, því að allir vilja reyna að komast hjá að greiða þá, þótt flestir geri kröfur um greiðslur úr ríkissjóðnum. Ég mun ekki fara út í að ræða, hvort hægt hefði verið að komast hjá þessum skatti, ef önnur fjármálastefna ríkti en nú er. En ég heyrði, að hv. þm. V.-Húnv. var að tala í þá átt. En ég sé ástæðu til að minnast á það, að ef launal. nýju, sem hækka munu greiðslur ríkissjóðs um 8 millj. kr., yrðu ekki samþ., mundi kannske hafa verið hægt að komast hjá þessum skatti. Eins og nú er komið, verður ekki siglt fram hjá þessu skeri. Launal. verða samþ., og það er staðreynd, að enginn eyrir er á fjárl. til að greiða niður vöruverð, eins og ákveðið hefur verið að gera. Og enginn eyrir er til á fjárl. til þess að tryggja vöruverð útfluttra landbúnaðarafurða, eins og ákveðið er að gera. Ef þessar greiðslur eiga að verða inntar af hendi, þá verður að afla tekna til þess.

Ég er sammála þeim mönnum, sem talað hafa hér og talið veltuskattinn ósanngjarnan, sérstaklega vegna þess, að gert er ráð fyrir, að þeir, sem verzla með álagningarlága vöru, greiði jafnháan skatt og þeir, sem verzla með álagningarháa vöru. En það er mjög erfitt að flokka þessar vörur í sundur, svo að það komi sanngjarnlega niður, einkum þar sem margar verzlanir verzla jöfnum höndum með álagningarlágar vörur og álagningarháar vörur. Veltuskatturinn er ósanngjarn, því verður ekki neitað. En eins og ég sagði áðan, verður ekki hjá því komizt að afla ríkissjóði tekna á einhvern hátt. Og þar sem enginn hefur komið með till. um annað en veltuskatt, þá skilst mér það sé eina úrræðið, þótt slæmt sé.

Eins og frv. kom frá Ed. og liggur nú fyrir, er það svo stórgallað, að ég get ekki fylgt því, nema það hljóti endurbætur. Ef till. á þskj. 1200 verður samþ., þá ætla ég að greiða atkv. með frv., þótt ég mæli skattinum ekki bót. Ég á þá við, að það verði ekki hjá því komizt að fá fé í ríkissjóðinn, eins og komið er. Hver er þá þessi stóri galli á frv., sem ég tel nauðsyn að fá leiðréttan? Gallinn er sá, að gert er ráð fyrir, að borgaður sé veltuskattur af innlendu framleiðsluvörunum, mjólk og kjöti. Það er ákveðið í dýrtíðarl., að bændur eigi að fá 1,23 kr. fyrir mjólkurlítrann kostnaðarlaust og kr. 6,87 fyrir kjötkg kostnaðarlaust. Ef á nú að greiða 1% af þessum vörum, þá verður útkoman sú, að ríkissjóður fær þar að vísu nokkrar tekjur, en verður að endurgreiða þær. Ég sé ekki, hvað svona nokkuð ætti að þýða. Ef ríkissjóður endurgreiddi ekki þetta eina prósent, þá er líka meiningin að halda ekki dýrtíðarl., og þá er það meiningin, að bændur beri ekki það úr býtum, sem ákveðið hefur verið. Nú er 13% álagning á kjötinu, en fyrir tveimur árum var 15% álagning á því. Kaupmenn lækkuðu álagninguna um 2% og sýndu með því þegnskap og slökuðu til í baráttunni við dýrtíðina. Kjötkaupmenn hafa verið að nauða á kjötverðlagsn. og viljað fá álagninguna hækkaða, því að hún er lítil miðað við álagningu, á annarri nauðsynjavöru, en hún er um 25%. Ef kjötkaupmenn eiga svo að borga veltuskatt af þessum 13%, þá leiðir af sjálfu sér, að það verður að hækka álagninguna. Og þá kem ég að því, sem ég hef áður sagt: Það er verið að láta í vasann með annarri hendinni og taka úr honum með hinni. Sama máli gegnir um mjólkina og kjötið. Þeir, sem selja hana, fá 4% í umboðslaun. Ef þeir eiga að borga 1% í veltuskatt, þá verður óhjákvæmilega að hækka umboðssölulaunin sem því nemur. Afleiðingin verður svo sú sama, ríkissjóður verður að borga til baka það, sem nemur þessu eina prósenti. Þess vegna er það ekki nema skrípaleikur að halda þessu ákvæði í frv. Nú er það ekki svo, að hér sé um að ræða stóra upphæð, ekki einu sinni frá sjónarmiði þeirra, sem telja, að ríkissjóður gæti komizt hjá því að endurgreiða þetta eina prósent.

Með því að miða við það verð, sem nú er á kjötinu, mun andvirði kjötsins vera alls um 40 millj. kr. Nú má gera ráð fyrir því, að einn fjórði kjötsins seljist í heildsölu, en 3/4 hlutar þess í smásölu, eða fyrir 30 millj. kr. 1% af því í veltuskatt gerir 300000 kr. Ég gizka á, að andvirði seldrar mjólkur muni vera um 30 millj. kr., skatturinn af henni mun því nema líka 300000 kr. Veltuskatturinn mundi því lækka um 600000 kr., ef till. okkar á þskj. 1200 yrði samþ. Ríkissjóður fengi sem sagt 600000 kr., ef frv. verður samþ. óbreytt, en yrði að endurgjalda þá upphæð til framleiðenda aftur.

Hv. þm. a.-Húnv. sagði, að það væri erfitt, þegar verzlanir verzluðu með blandaðar vörur, að flokka vöruna og þess vegna hefði hann flutt till. sína á þskj. 1192. Sú till. miðar vitanlega til stórra bóta, en hún nær ekki nógu langt, þess vegna er okkar till. fram komin. En að halda því fram, að það sé erfitt að flokka blandaðar vörur, það er misskilningur. Þeir, sem verzla með kjöt og fleira, geta ósköp vel greint kjötið frá hinum vörunum. Þeir kaupa kjötið frá Sambandinu og fleirum, og reikningarnir liggja fyrir, og, nú er vitað. að álagningin er 13%, þá er ljóst, hversu mikið magn hefur selzt af kjöti yfir mánuðinn. Sú upphæð dregst frá sölu búðarinnar. Sama máli gegnir með mjólkina. Það liggur ljóst fyrir eftir hvern mánuð, hve margir lítrar hafa verið keyptir af Samsölunni. Þegar maður veit, að 6 aurar leggjast á hvern lítra, þá sjá allir, að það er engum erfiðleikum bundið að skilgreina þessa vöru frá öðrum vörum. Sú viðbára, að þetta sé erfitt í framkvæmd, er því ekki tekin til greina.

Það hefur verið talað um það, hvort eðlilegra væri að leggja þennan skatt á veltu ársins 1944 eða 1945. Ég tel, að bezt væri illu aflokið fyrir verzlunarfyrirtækin. Það er þegar ljóst, að árið 1944 var sæmilegt fyrir verzlunina, en í dag er óljóst, hvernig útkoman verður árið 1945. Hins vegar geri ég það ekki að neinu kappsmáli, á hvort árið skatturinn er lagður.

Ég hef nú lýst því, hversu ósanngjarnt er að samþ. frv. eins og það er. Og það er augljóst, að till. okkar er að öllu leyti réttmæt og mun ekki valda neinum erfiðleikum í framkvæmd, eins og sumir halda, sem ekki hafa næga þekkingu á verzlun. Ef till. verður felld, greiði ég atkv. á móti frv., enda þótt ekkert fé sé til staðar í greiðslur til bænda. Ef till. er felld, er það ekki annað en slá því föstu, að bændur eigi ekki að fá 1,23 fyrir mjólkina og 6.87 fyrir kjötkílóið, Ég legg því mikið kapp á, að till. verði samþ. Og mun ég greiða atkv. á móti frv., ef hún nær ekki fram að ganga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Mér þykir rétt að sjá, hverja meðferð málið hlýtur unz við atkvgr. 2. umr.