22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (4965)

257. mál, veltuskattur

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Ég sé ástæðu til að segja hér nokkur orð út af ræðu hv. þm. a.-Húnv., en hann gerði einmitt að umtalsefni m.a. mitt nál. og mína framsöguræðu. Hv. þm. sagði, að andstæðingar hæstv. stj. væru ekkert síður en stjórnarstuðningsmenn samþykkir þeim útgjöldum. sem ætti að nota féð til. Þessu vil ég mótmæla af hálfu okkar framsóknarmanna. Er þess þó í rauninni ekki þörf, því að þetta er öllum kunnugt og hv. þm. a.-Húnv. vitanlega eins og öðrum, vegna þess að mótmæli okkar gegn þeirri stefnu, sem nú er fylgt í dýrtíðar- og fjárhagsmálum, hafa komið greinilega fram bæði í ræðu og riti nú að undanförnu. Þegar þessi hæstv. stjórn var mynduð, átti að fara inn á þá leið, sem við höfðum bent á. Í stað þess að auka dýrtíðina með því að hækka kaupgjald ýmissa stétta, sem leiðir af sér aukna dýrtíð og svo áframhaldandi aukið kaupgjald og vöruverð sitt á hvað, hefði vitanlega átt að snúa við og halda til baka, eins og till. hafa m.a. komið um frá bændum landsins og samtökum þeirra. Þetta hefðu stjórnarflokkarnir getað gert, ef þeir hefðu viljað og verið um það samtaka. Þetta hefði vitanlega haft í för með sér lækkun á dýrtíðarvísitölunni og um leið lækkun á útgjöldum ríkissjóðs, og þá hefði verið hægt að komast hjá því að leggja á þjóðina verulegan hluta af þeim nýju sköttum, sem nú er stofnað til. Þessu hefur verið margyfirlýst af hendi okkar framsóknarmanna, og var því óþarft fyrir hv. þm. a.-Húnv. að viðhafa þessi orð.

Hv. þm. segir, að það geti ekki talizt nein ósanngirni að leggja á slíkan skatt, vegna þess að þau fyrirtæki, sem fyrst og fremst eiga að borga hann, hefðu yfirleitt góða afkomu nú, en í næstu setningu á eftir viðurkenndi hv. þm. sjálfur, að skatturinn væri ósanngjarn, vegna þess að hann lenti jafnt á þeim, sem verzluðu með lífsnauðsynjar og þarfan varning, og hinum, sem verzluðu með óþarfa varning, og eins og ég hef tekið fram áður, miðast hann hvorki við tekjur né eignir þegnanna.

Þá sagði hv. þm., að það væri þó bót í máli, að skattur þessi yrði aðeins á lagður í eitt skipti. Mér finnst ástæða til að beina til hv. þm. spurningu í sambandi við þetta. Dettur honum í hug. að tekjuþörf ríkissjóðs verði minni á næsta ári en nú, ef svo fer fram sem nú horfir? Ég held, að enginn geti látið sér detta slíkt í hug, m.a. fyrir það, að hæstv. núv. stj. hefur gefið fyrirheit um nýja lagasetningu, sem hlýtur að hafa í för með sér enn aukin útgjöld fyrir ríkissjóð til viðbótar þeim, sem fyrir eru.

Það stendur enn óhrakið, sem ég hef áður sagt, að því er snertir félagsmenn í kaupfélögum, sem hafa þar sín viðskipti, að það verður ekki fram hjá því komizt, að þessi skattur lendi á þeim. Hann hlýtur að koma fram í minnkandi tekjuafgangi, sem úthlutað er til manna, og þar með hækkandi vöruverði, og jafnvel þótt einstaka samvinnufélög tækju þann kostinn að taka fé úr sínum sameiginlega sjóði að einhverju leyti til að borga þennan skatt, er niðurstaðan raunverulega sú sama, því að ekki er um annað fé að ræða en það, sem er sameign þessara manna, og verður til þess, að þeir þurfa þá í staðinn síðar að leggja fé í sinn sjóð í skarðið. Í sambandi við þá fullyrðingu hv. þm., að skattarnir séu ekki lagðir á nema í eitt skipti, má vitanlega benda á það, að ef stuðningsmenn stj. vita um aðra sanngjarnari tekjuöflunaraðferð, sem þeir hugsa sér að nota á næsta ári, til þess að sleppa við að leggja á þennan skatt, var þeim auðvitað skylt að koma með þá aðferð nú þegar. Ef hins vegar hv. stjórn og stuðningsmenn hennar ætla að bjarga sér frá því að leggja á þennan skatt oftar með því að breyta um stefnu innan skamms í fjármálum. þá var þeim auðvitað skylt að gera það strax, áður en þyngri byrðar væru lagðar á þjóðina, vegna þeirra útgjalda. sem þeir hafa nú stofnað til.

Mér skildist á ræðu hv. 2. þm. Rang., að hann teldi, að sérstaklega vantaði fé í ríkissjóð til þess að standa undir dýrtíðarráðstöfunum. Ég vil bara benda á í þessu sambandi, að þessi skattur á náttúrlega ekkert frekar að ganga til þeirra útgjalda en annarra útgjalda, sem hvíla á ríkissjóði. Þá má alveg eins segja, að tekjur af þessum skatti fari til þess að borga þá fúlgu, sem launahækkunin hefur í för með sér.

Ég sé ekki ástæðu til að segja mikið út af ræðu hæstv. fjmrh., en út af því, sem fram kom hjá hæstv. ráðh. um, að það mundi vera erfitt að skilja í sundur hjá fyrirtækjum, sem verzluðu með innlendar vörur og aðrar, hve mikil sala þeirra væri á innlendum afurðum og hve mikil á öðrum vörum, þá held ég, að þetta sé ekkert erfitt hjá þeim fyrirtækjum, þar sem bókhaldið á annað borð er í sæmilegu lagi. Því miður mun vera svo um ýmis fyrirtæki hér á landi, sem eru bókhaldsskyld samkv. l., að bókhald þeirra er ekki í svo fullkomnu lagi sem vera ætti, og hjá þeim fyrirtækjum geta vitanlega verið erfiðleikar á að finna út hið rétta. en ég vil benda á, að vitanlega gildir það þá jafnt um alla umsetningu þeirra.

Þá vil ég að síðustu víkja nokkuð að þeim brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 1119 og ég minntist á í fyrri ræðu minni. Það er nú það sama að segja og þá, að hvorugur þessara hv. þm., sem flytja þessa till., hafa látið sjá sig hér í d., og þess vegna hefur enginn sagt neitt þeim til stuðnings. Eins og lýst var hér úr forsetastóli í byrjun fundarins, voru í dag lögð fram á lestrarsal mótmæli frá S.Í.S. gegn síðustu brtt. á þessu þskj. En. þessi till. er um það að ákveða með l., að S.Í.S., — því að um annað samvinnusamband er ekki að ræða hér á landi, — skuli úthluta til sambandsfélaga sinna hlutfallslega jafnmiklum ágóða eða tekjuafgangi árið 1945 eins og árið áður. S.Í.S. hefur lagt fram mótmæli gegn þessari till., og þó að reyndar megi gera ráð fyrir, að till. á þessu þskj. verði ekki samþykktar, þar sem hvorugur fjhn. hefur haft svo mikið við að mæta í d. og tala nokkuð fyrir þeim, þegar málið er til umr., vil ég þó, áður en umr. verður slitið, skýra hér frá því, á hverju þessi mótmæli S.Í.S. eru byggð í aðalatriðum. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp kafla úr bréfi Sambandsins, sem um þetta fjallar.

Þar er fyrst, í bréfinu, vikið að þessari síðustu málsgr., sem mótmælin beinast gegn, og síðan segir um þetta: „Hér á landi er aðeins eitt samvinnusamband, sem þetta getur átt við, og það er Samband íslenzkra samvinnufélaga. Beinast því þessi fyrirhuguðu lagaákvæði beinlínis að því og að því einu, þótt reynt sé að orða þetta á almennan hátt. Með þessu fyrirhugaða lagaákvæði er tekinn af aðalfundi S.Í.S. allur ráðstöfunarréttur á tekjuafgangi sambandsins, og er því tekinn umráðaréttur af félaginu yfir fé sínu að þessu leyti. Sýnist eins mega taka út einstöku hlutafélög, um við verzlun fást, og þau megi greiða á sama hátt, án tillits til veituskatts, ef þannig á að vera hægt með venjulegum l. að skylda eitt ákveðið fyrirtæki og svipta það ráðstöfunarrétti á tekjuafgangi sínum.“

Og síðan segir: „Stjórn S.Í.S. leyfir sér að skora eindregið á hið háa Alþ. að fella framkomna till.“ Ég held, að þarna séu færð svo skýr rök fyrir því, að það væri rangt að samþykkja þessa till., að ég þurfi engu þar við að bæta. Till. um þetta sama efni kom fram í hv. Ed. í meðferð málsins þar, en var felld, en þessir 2 hv. þm. í þessari hv. d. hafa nú tekið till. upp. Það má aðeins taka það fram, eins og hv. þdm. er væntanlega öllum kunnugt, að samkv. samvinnul. og l. Sambandsins er tekjuafgangi þess ráðstafað á hverjum aðalfundi, þar sem eru samankomnir kjörnir fulltrúar allra kaupfélaga, sem í Sambandinu eru, og það ætti öllum að vera ljóst, að það getur ekki náð nokkurri átt að taka þennan rétt af þeim. Það getur vel staðið þannig á, bæði hjá Sambandinu og einstökum samvinnufélögum, að varið sé t.d. meira fé í einn tíma en annan til ýmissa nýrra framkvæmda, og sjá þá væntanlega allir, hve fráleitt er að ætla að fara að skylda félagið með l. til að verja tekjuafgangi sínum á annan hátt, en meina þeim sjálfum að taka ákvörðun um það. Ég vil því vænta þess, að þessi till. verði felld.