22.02.1945
Neðri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (4966)

257. mál, veltuskattur

Jón Pálmason:

Það er þegar komið að því, að fundartími er að verða búinn. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara að hefja þrætur við hv. þm. V.-Húnv. um fjármálastefnu og annað slíkt, sem ræða hans, hefði getað gefið tilefni til. Ég ákvað að svara þeim hlutum, sem fram hjá honum komu, á öðrum vettvangi, þar sem fleiri geta eftir þeim svörum tekið, og læt það því liggja á milli hluta.

Ég gat þess hér áðan, að verzlunarfyrirtæki hefðu yfirleitt haft góða afkomu á undanförnum árum og það væri þess vegna síður en svo ástæða til að leggja fremur á önnur fyrirtæki í landinu heldur en þau. Og þótt það sé að vísu satt, að það komi nokkuð misjafnt niður, eftir því með hvaða vörur verzlað er, þá er hér gert ráð fyrir, að um eitt tiltekið ár sé að ræða og þessi skattur sé ekki endurnýjaður, en það var sérstaklega sú spurning, sem hv. þm. V.-Húnv. var með, hvernig ég gæti hugsað mér, að þessi skattur yrði ekki endurnýjaður, og hvernig hagað yrði fjármálum ríkisins næst, þegar fjárl. yrðu afgreidd. Ég lít svo á, að það sé ekki fært að framlengja þennan skatt í annað sem í þeirri mynd, sem hann er, þannig að hann sé ekki álagningarfær á vörur og ekki frádráttarbær til skattaframtals. Þar með er auðvitað ekki sagt, að ekki þurfi eins mikið fé í ríkissjóð á næstu árum og nú, og þar með er ekki sagt, að ekki þurfi að leggja á eitthvað vörugjald á næstu árum, því að ríkisvaldið hefur, eins og hv. þm. V.-Húnv. og öðrum er kunnugt um, ekki haft nema um það tvennt að velja, annaðhvort að leggja á tollgjald, sem kemur á vöruflokka eða færri vörutegundir, eða beina skatta, og annað hvort verður að gera, ef fé vantar í ríkissjóðinn, eða í þriðja lagi að draga saman gjöldin frá því, sem nú er. Það gæti því auðveldlega komið fyrir, að þetta gjald yrði framlengt í þeirri mynd, að það kæmi niður á öllum almenningi, eða þá að yrði hækkað vörugjald, verðtollur eða eitthvað, sem því svaraði, en ég geri ráð fyrir, að það komi ekki til, að þessi skattur verði framlengdur í þeirri mynd, sem hann er í nú.

Hins vegar er vert að minnast á og rétt að taka fram í þessu sambandi út af deilum, sem um það hafa orðið, hvort rétt sé að miða skattinn við 1944 eða 1945. Þeir, sem mæla með að leggja hann á liðna árið, telja það helzt til andmæla að leggja hann á 1945, að með því sé frekar tækifæri fyrir fyrirtækin til að svíkjast undan l., annaðhvort með því að leggja þetta á almenning eða á einhvern annan hátt að komast undan þessum skatti. Ef það kemur í ljós, að mikil brögð verða að slíku, þá tel ég sjálfsagt, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafi það í huga og taki til athugunar, þegar næst verða samin skattaákvæði, ef einhverjir aðilar hafa svikizt undan þessum l. á beinan eða óbeinan hátt.

Varðandi það, að ekki hafi verið komið betra fyrirkomulagi á innheimtu ríkisins en þetta, þarf ég ekki að svara, því að ég gerði það áður, og ég tel fullforsvaranlegt, þegar verið er að innheimta fé til dýrtíðarráðstafana, sem verzlanirnar hafa ekki sízt þýðingarmikinn hagnað af, að það sé innheimt á þennan hátt, sem hér er lagt til með þessu frv.