28.02.1945
Neðri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (4979)

257. mál, veltuskattur

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég sé ástæðu til þess að gera nokkrar athugasemdir við þau svör, sem hér hafa komið fram. sumpart af hendi hæstv. fjmrh. og sumpart frá öðrum hv. þm., út af þessu máli, án þess þó, að ég vilji þreyta um það mjög langar umr.

Mun ég fyrst víkja að nokkrum atriðum varðandi sjálfan skattinn. Hæstv. fjmrh. sagði, að það væri einkennilegt að vera að gagnrýna þennan skatt, en heldur því fram, að heildsölufyrirtæki hafi haft gróða, og þess vegna væri eðlilegt að skattleggja þau. Hann sagði enn fremur, að þeir, sem gagnrýndu skattinn, yrðu þá að skýra frá, hvernig þeir vildu láta skattleggja þennan mikla heildsölugróða. Ég get sagt hæstv. ráðh. alveg hreinskilnislega, hvað ég álít í þessum efnum. Ég álít, að yfirleitt eigi að skattleggja fyrirtækin og miða við nettóafkomu þeirra, en ekki miða við einhverja aðra liði, t.d. faktúrur, þannig að það verður tilviljun ein, sem ræður, hvernig skattgreiðslurnar koma niður. Ég hefði álitið það miklu heppilegri leið að afnema t.d. þau varasjóðshlunnindi, sem verið hafa undanfarið, heldur en að viðhafa þá handahófsaðferð, sem hér er stungið upp á. Það á að þyngja gjöldin á nettóafkomu fyrirtækjanna og fella niður varasjóðshlunnindin, og hygg ég, að skattaálagningin kæmi þar með niður í hlutfalli við afkomu fyrirtækjanna, en yrði ekki af handahófi. (Fjmrh.: Hvað hefði þetta gefið ríkissjóði miklar tekjur?) Það hefði gefið nokkuð miklar tekjur, ef mismunurinn væri tekinn sem eignarskattur af þeim, sem þar eiga hlut að máli.

Hæstv. fjmrh. hélt því fram, að það væri að ófyrirsynju sagt, að þessi skattaálagning sé einsdæmi í löggjöfinni. Það er einsdæmi í löggjöfinni að leggja skatt á veltuna eftir á og banna að draga frá, þótt niðurjöfnunarn. hafi að vísu leyft sér þessa aðferð út úr neyð í ýmsum tilfellum, en það er hvergi í löggjöfinni og hafa ekki verið sett ákvæði um þetta fyrr en nú um leið og veltuskatturinn verður lögboðinn. Það er því einmitt þetta ákvæði, sem gerir veltuskattinn svo óskynsamlega skattaálagningaraðferð gagnvart þeim fyrirtækjum, sem hér um ræðir, — ef menn ætla að skattleggja fyrirtækin og gera það með slíkri handahófsaðferð, eins og hæstv. fjmrh. gerir hér, heldur en að hafa þá aðferð að miða við, hvað fyrirtækin hafa grætt og safnað miklum eignum.

Hæstv. fjmrh. spurði, hvernig ætti að samræma þá gagnrýni, sem komið hefði fram um þennan skatt, að hann komi niður á neytendunum, en komi samt þungt niður á þeim, sem verzlunina hafa með höndum. Ég ætlast til þess, að hæstv. fjmrh. hafi heyrt það, sem ég hef áður sagt um þetta efni, en ég held því fram, að sá hluti skattsins. sem samvinnufélögunum er ætlað að greiða, komi niður á neytendunum í minnkuðum tekjuafgangi og hækkuðu vöruverði, en hinn hlutinn skilst mér komi niður á þeim, sem verzlunina reka, og að þessu leyti verkar skatturinn á ólíkan hátt eftir því, hvort verzlunin er í höndum neytenda sjálfra eða kaupmanna. Það er og alger misskilningur hjá hæstv. fjmrh., er hann heldur því fram, að þessi skattaálagning komi vöruverðinu ekkert við, því að hún kemur strax fram sem hækkað vöruverð hjá þeim, sem verzla við samvinnufélög landsins, og kemur einnig í veg fyrir það, að unnt verði að lækka vöruverðið hjá hinum. Það er þess vegna alveg út í hött að halda því fram, að þessi skattur sé óviðkomandi vöruverðinu í landinu.

Hæstv. ráðh. sagði, að tollarnir væru einnig ranglátir og þess vegna væri ekkert meira að bæta við einum ranglátum skatti í viðbót. Þykir mér þetta mjög undarleg röksemdafærsla, og hefði mér fundizt eðlilegra, að þetta hefði frekar átt að hvetja hæstv. ráðh. til þess að reyna að finna réttlátari leið í skattaálagningu en þá, sem hér um ræðir, þar eð svo mikið var af ranglætinu fyrir, en ekki að setja sér það mark að fara eftir því, sem hann fann ranglátast í skattalöggjöfinni.

Í upphafi ræðu sinnar vék hæstv. fjmrh. að því, sem væri aðalatriðið í því máli, sem hér um ræðir. Hæstv. ráðh. færði fram svo einkennileg rök í því sambandi, að ég varð alveg undrandi. Hann hélt því sem sé fram alveg ákveðið, — til þess að reyna að koma sér undan ámæli —, að það væri ekki fjármálastefna núv. ríkisstj., sem orsakaði þessar skattaálögur, sem hér um ræðir, heldur önnur fjármálastefna henni alveg óviðkomandi. Það er hins vegar alveg óhugsandi, að menn geti verið í ríkisstj. án þess að verða að viðurkenna, að sú stefna, sem rekin er, sé stefna þeirrar stj., meðan hún ber ábyrgðina á því, hvað gert er. Hann færði fyrir þessu þau rök, sem maður að vísu hefur heyrt hér áður, að dýrtíðin hefði verið til í landinu, þegar þessi ríkisstj. tók við völdum, og þess vegna sé henni alveg óviðkomandi það, sem gert er, og miðar við þetta ástæður sínar fyrir þessari skattaálagningu. Nú veit hæstv. fjmrh. það vel, að mikil dýrtíð var í landinu, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, en það var hins vegar hægt að fara mismunandi leiðir þrátt fyrir þetta. Það var hægt að fara þá leið að stöðva dýrtíðina, — það var hægt að fara þá leið að lækka dýrtíðina, — og það var hægt að fara þá leið að auka dýrtíðina. Þessar þrjár leiðir átti hæstv. ríkisstj. um að velja, þegar hún tók við völdum. Ef hæstv. ríkisstj. hefði farið þá leið að lækka dýrtíðina, væri hún ekki í eins miklum vandræðum með sína fjármálastefnu og hún er nú.

Ef stj. hefði tekið þá leið að stöðva dýrtíðina, mundu vandræðin vera minni nú en þau eru, en af því að farin var sú leið að láta hana vaxa, er hún nú að verða óviðráðanleg. Það er ekki hægt að skjóta sér undan þessari staðreynd með því að segja, að þessi stefna hafi ríkt. þegar núv. stj. tók við völdum. Stefna núv. stj. er hennar eigin stefna eða stefnuleysi, en ekki annarra. Núv. stj. ber ábyrgð á, að dýrtíðin var ekki stöðvuð. Fram hjá þeirri staðreynd er ekki hægt að komast.

Það er til sú leið að lækka dýrtíðina, en hún var ekki farin.

Framsóknarmenn bentu á í sambandi við stjórnarmyndunina, að þeir vildu ekki hlaupa til stjórnarmyndunar án þess að vita, hvernig ætti að sjá fjármálum landsins borgið. Fyrir um það bil tveimur mánuðum vorum við framsóknarmenn dæmdir óalandi og óferjandi, af því að við bentum á, að nýsköpun væri óframkvæmanleg, nema breytt væri um fjármálastefnu. En nú hefur hæstv. fjmrh. játað þetta sama úr ráðherrastóli. Hvers vegna mátti ekki segja þjóðinni frá þessu strax? Það er ekki hægt að komast hjá þessu meginatriði.

Meginatriðið er, að fjmrh. skuli láta það dragast að beita sér fyrir þeirri stefnubreytingu, sem hann játar, að þurfi að eiga sér stað. Það þarf að snúa við strax, en í stað þess slær stj. öllu slíku frá sér, og hljóta afleiðingarnar að verða öllum auðsæjar.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði véfengt, að stj. hafi ætlað að fella þennan skatt niður. Það er ekki rétt hermt. Ég sagði, að ríkisstj. gæti ekki lækkað skattana í haust, ef hún héldi áfram á sömu braut. Stefna núv. stj. hlýtur að leiða af sér síhækkandi skatta, framkvæmdir ríkisins dragast saman, og engin nýsköpun á sér stað. Samt á að halda sömu braut, láta grafast undan þeim grunni, sem menn verða að standa á.

Hv. 8. þm. Reykv. hafði orð fyrir sósíalistum, ef svo virðulega má komast að orði um málflutning hans. Aðalinnihald ræðu hans var, að réttast væri fyrir stjórnarandstæðinga að gera stj. þann greiða að þegja. Þessi málflutningur lýsir honum og flokki hans vel. Þegar stj. mætir gagnrýni, kveður þessi tónn við frá herbúðum hennar: Ykkur væri sæmst að þegja.

Hv. 8. þm. Reykv. er vanastur því að flýja. þegar mest á reynir. Það er vani hans, þegar minnzt er á það, sem flokkur hans hefur lagt til málanna, þá lætur hann ekki sjá sig. Hann er málpípa sósíalista, það er talað inn á hann eins og plötu, og síðan er hann látinn fara víðs vegar um landið og tala það, sem talað hefur verið inn á hann. Þessi maður er látinn vera á þönum um allt land, í útvarpi og annars staðar, og látinn prédika, að dýrtíðin sé ekki böl, það sé hægt að mæla henni bót, það eigi að afnema og lækka tollana. Þetta hefur verið talað inn á hv. 8. þm. Reykv., og þetta er hann látinn spila.

En það er von, að hann sé gramur nú. Nú hefur honum verið skipað að éta ofan í sig allt, sem hann hefur verið látinn segja að undanförnu. Nú er hann látinn boða nýja stefnu, alveg gagnstæða þeirri, sem hann hefur áður boðað. Nú á að leggja nýja tolla ofan á þá gömlu.

Hv. 8. þm. Reykv. ætti að láta gremju sina koma niður á einhverjum öðrum en framsóknarmönnum. Framsóknarmenn hafa lítinn þátt átt í þeirri meðferð, sem hann hefur átt að sæta innan Sósfl.

Hv. 8. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. töldu eðlilegt, að þeir hefðu fylgt því, að skattur þessi yrði lagður á árið 1944, en ekki 1945.

Þótt skatturinn sé lagður á veltu ársins 1944, hlýtur hann að koma fram sem hækkað vöruverð. Eigi sízt hefur þetta áhrif á samvinnuverzlun. Tekjuafgangur eða arður þeirra manna, sem að samvinnuverzlun standa, verður þeim mun minni sem svarar þessari álagningu.

Sú leið, sem hv. 8. þm. Reykv. — og einkum hv. 3. þm. Reykv. — harmaði, að ekki var farin, var naumast eins svívirðileg og sú, sem hér er farin. Ef menn hefðu vitað um þennan skatt fyrir fram, hefðu menn getað lagt niður þær greinar, sem þeir hefðu neyðzt til að reka með tapi. Það er því bæði réttara og geðfelldara að fá að vita um slíkar álögur fyrir fram. Nú verða menn að reka þau fyrirtæki, sem þeir héldu sig reka sér til lífsframfæris, með tapi.

Röksemdafærsla hv. 3. þm. Reykv. er mjög undarleg. Framsfl. hefur verið með í að leggja rangláta skatta á að undanförnu. Það er því undarlegt, að þeir skuli finna að því, þó að við gerum það. Af því að framsóknarmenn hafa lagt skatta og tolla á og við, þ.e. Sjálfstfl., bárum á móti því, þá er okkur heimilt að gera það sama. Eða ef ég gerði manni að borga 10 krónur, væri ekkert athugavert, þótt annar kæmi og gerði honum að borga 100 krónur! Slík er röksemdafærsla þessa hv. þm. En það er ekki svo auðvelt að klóra yfir sín gömlu spor, og það mun hv. 3. þm. Reykv. ekki geta.