17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (4993)

254. mál, fasteignamat

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Hv. fjhn. þessarar d. hefur flutt þetta frv. samkv. tilmælum mínum. Frv. er flutt í því skyni að spara ríkissjóði útgjöld. Breyt., sem lagt er til að gera á fasteignamatsl., er fyrst og fremst sú, að ekki skuli framkvæma aðalmat á 10 ára, heldur á 25 ára fresti, enn fremur, að yfirmatsnefnd starfi aðeins, meðan mat fer fram, en að öðru leyti falli störf hennar undir fjmrn., þau sem henni voru falin samkv. l. frá 1938. Ég hef verið í samráði við hv. þm. Mýr., formann n., um þetta mál. Hefur hann gefið mér ýmsar bendingar, og hygg ég, að hann sé samþykkur till. þeim, sem hér koma fram.

Ég sé ekki ástæðu til langrar framsögu. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að kostnaður við það að framkvæma mat á fárra ára fresti er óeðlilega hár í samanburði við fasteignaskatt, sem skilað hefur einum 650 þús. kr. árlega. Matskostnaðurinn árin 1938–1944 hefur orðið kringum eina milljón, og er þó ekki talinn þar allur kostnaður, t.d. ekki prentunarkostnaður, sem ætlazt er til, að vinnist upp með sölu fasteignabókar. Ekki er hægt að búast við öðru en kostnaður við að meta allar jarðeignir, húseignir, lóðir og lendur verði jafnan gífurlega hár. Lenging tímans, sem matið á að gilda, virðist ekki þurfa að koma mjög að sök.

Í 6. gr. eru ákvæði um millimat á húsum og jarðeignum. Skal leggja brunabótavirðingu til grundvallar við ákvörðun nýs mats á húsi, en jarðabótaskýrslur o.fl. við nýtt mat jarðar. Með þeim hætti, sem hafa skal á millimati, er hægt að spara verulegan kostnað, en satt að segja hefur vantað mikið á, að millimöt hafi borgað sig. Ríkinu hefði verið hagur að sleppa þeim heldur alveg og þeim skattauka, sem með þeim fékkst.

Ég geri ráð fyrir, að fjhn. hafi haft svo lítinn tíma til að athuga frv., áður en hún flutti það, að rétt sé að vísa því til hennar aftur, og tel ég sum atriði þurfa þar athugunar. Ég vildi þó mælast til, að n. hraðaði afgreiðslu frv., því að æskilegt er, að það verði afgreitt fyrir þinglok og þá raunar sem allra fyrst, m.a. af því, að ríkinu er nauðsynlegt að fá það húsnæði, sem yfirmatsn. hefur, til annarrar notkunar.