16.10.1944
Sameinað þing: 55. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (5000)

142. mál, rafveitulán fyrir Keflavíkurhrepp, Njarðvíkurhrepp og Grenjaðarstaða- og Múlahverfi

Frsm. (Pétur Ottesen):

Fjvn. hefur athugað þessa till. á nokkrum fundum og rætt við hæstv. atvmrh. um hana og leitað umsagnar forstöðumanns rafmagnseftirlits ríkisins um hana. Eins og kunnugt er, var samþ. á Alþ. 12. nóv. 1943 þál., þar sem stj. er heimilað að verja allt að 1 millj. kr. til kaupa á efni í háspennulínu til Keflavíkur. Þessi efniskaup hafa nú farið fram, og í áframhaldi af því hefur ríkisstj. ráðizt í að leggja þessa línu fyrir ríkisfé. En áður en ríkisstj. gerði þetta, leitaði hún til þingflokka á Alþ. og fékk hjá þeim samþykki fyrir því, að ríkisstj. léti reisa línuna og auk þess heimild þeirra til þess að veita fé til viðbótar þeirri upphæð, sem þyrfti til þess að hrinda þessu verki áfram. Og um leið tókust um það samningar milli ríkisstj. og Keflavíkurhrepps og Njarðvíkurhrepps, að þeir hreppar legðu til innanbæjarkerfið á sinn kostnað, þannig að ríkisstj. sæi einungis um það að koma upp háspennulínunni suður eftir. Í þessu nál. getur fjvn. um það, að ríkisstj. hljóti að afla sér formlegrar heimildar Alþ. fyrir þeim fjárveitingum, sem muni þurfa til þess að koma upp þessari línu. Auk þess bendir n. á það, að eðlilegt sé, að ríkisstj. afli sér enn fremur með löggjöf heimildar til þess að lína þessi verði lögð fyrir fé frá ríkissjóði. Samtímis því, sem nál. var útbýtt hér á Alþ., var einnig útbýtt frv., sem stj. flutti og lagt var fram í hv. Ed., þar sem ríkisstj. er heimilað að koma upp þessari háspennulínu frá Hafnarfirði til Keflavíkur, og er heimilað viðbótarfé í þessu skyni, 1 millj. og 800 þús. kr. Ég skal geta þess í sambandi við þessa tölu, 1800000, að í viðræðum, sem fjvn. hefur átt við forstöðumann rafmagnseftirlits ríkisins, hefur það komið fram, að sízt muni of í lagt að áætla þessa tölu 2 millj. kr., og þar sem þetta virðist vera síðasta niðurstaða, mundi verða eðlilegra að miða við þá upphæð heldur en þá, sem stendur þarna nú. Hæstv. ríkisstj. hefur því algerlega uppfyllt það, sem fjvn. þótti á standa af hálfu stj. um undirbúning þessa máls, með því að leggja þetta frv. fram hér á hæstv. Alþ., og ætlunin var að taka frv. til meðferðar í Ed. s.l. föstudag. Þá er það viðvíkjandi þáltill. um það að fá heimild til handa ríkisstj. til þess að ganga í ábyrgð fyrir 1½ millj. kr. láni fyrir Keflavík og Njarðvíkur, til þess að koma upp innanhreppskerfinu. Fjvn. mælir með því, að stj. verði veitt þessi heimild, eins og fram kemur í nál. Nefndin byggir meðmæli sín á því, að löng reynsla í því að koma upp stærri rafveitum hefur sýnt, að ríkið hefur þurft að ganga í ábyrgð fyrir slíkum lánum, og þegar slík ábyrgð hefur verið veitt, hefur hún einnig tekið til þess kostnaðar, sem leitt hefur af því að koma upp innanhreppskerfi viðkomandi staðar. Þó að í þessu tilfelli standi þannig á, að það sé sinn aðilinn, sem stendur að hvorri framkvæmd, þá leit n. svo á, að rétt væri að veita þessa upphæð, enda er það í samræmi við það, sem áður hefur verið gert í slíkum málum. Fjvn. mælir þess vegna með því, að till. verði samþ. eins og hún liggur fyrir frá hendi flm. hennar.