20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (5045)

254. mál, fasteignamat

Frsm. (Magnús Jónsson):

Fjhn. hefur athugað þetta mál, sem er komið frá Nd. og var þar upphaflega flutt af fjhn. þeirrar d. eftir tilmælum hæstv. fjmrh. N. hefur borið frv. saman við l. og fellst á þá meginhugsun, sem liggur til grundvallar fyrir frv., sem er sú, að eins og fasteignamati er nú háttað, þá sé það langsamlega óþarflega kostnaðarsamt og á hinn bóginn verði ekki séð, að svo mikið sé lagt upp úr fasteignamatinu, að ástæða sé til að kosta svo miklu til þess. Eins og kunnugt er, er vanalega látið fara fram sérstakt mat bæði til brunabóta og til lántöku. Fasteignamatið er því meira skýrslugerð, sem sjálfsagt er mikilsverð heimild um fasteignir, ef samræmi næst sæmilega um land allt.

Meginbreyt., sem þetta frv. felur í sér frá núgildandi l., er sú, að aðalmat skuli ekki fara fram nema á 25 ára fresti í stað 10, og einnig um millimat, sem fer fram milli aðalmata, sem er miklu einfaldara. Er þar lagt til grundvallar brunabótamat, þar sem það fer fram, en annars falið þeim aðilum, sem hvort sem er eru til staðar, og á fjmrn. að annast þetta mat. N. fellst á þennan aðaltilgang frv., en ber þó fram eina brtt. við 6. gr. frv., og er hún um, að ný gr. skuli koma inn í frv. með sérákvæði um fasteignir í Reykjavík. Er það aðeins vegna þess, að það er augljóst, að hér í Reykjavík muni það verða svo umsvifamikið milli þess, sem aðalmat fer fram, að fjmrn. mundi alls ekki anna því öðruvísi en taka sér sennilega 1–2 aðstoðarmenn til að hafa þetta með höndum. Virðist þá eðlilegt, að beinlínis sé svo fyrir mælt í l., að tveir menn starfi að þessu. Þó að brtt. þessi sé löng, þá er hún ekki annað en það, sem er í a-lið brtt., en b-liður er svo að segja orðrétt tekinn upp úr frv., en er þó betra að orða hann þannig, úr því að þessi nýi liður kom inn.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en aðeins mælast til, að d. samþ. þessa brtt. Einn nm. hefur þó skrifað undir nál. með fyrirvara.