26.02.1945
Neðri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (5057)

254. mál, fasteignamat

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Frv. þetta er komið hingað aftur frá hv. Ed. Þar í d. hafa verið gerðar á því breyt. á 6. gr. þess. En 6. gr. frv. er um breyt. á 12. gr. gildandi l., sem snertir mat á fasteignum, sem fer fram á milli þess, sem aðalmat fer fram. Í hv. Ed. hefur verið sett þarna inn ákvæði, sem ég tel óviðunandi með öllu. Það hefur sem sagt verið samþ. í þeirri hv. d., að þessu mati skuli haga á allt annan veg í Reykjavík heldur en annars staðar á landinu. Samkv. frv., eins og það nú er. á þetta millimat, sem kallað er, að framkvæmast þannig í Reykjavík, að þar séu tveir menn til þess valdir að annast það, annar sé kosinn af bæjarstjórn Reykjavíkur, en hinn skipaður af fjmrh. Aftur á móti á að haga matinu utan Reykjavíkur þannig, samkv. frv. eins og það er nú, að það verði fjmrn., sem ákveður fasteignamat á húsum, sem metin eru til brunabóta. Og er gert ráð fyrir. að ráðuneytið hafi til hliðsjónar matsgerðir þeirra, sem virða húseignir til brunatrygginga. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að úttektarmenn í hverjum hreppi meti þau hús, sem brunamat hefur ekki farið fram á, og er þetta eins og ákveðið var í frv., þegar það fór héðan til hv. Ed.

Ég tel, að það geti ekki komið til mála að láta aðrar reglur gilda í þessu efni um Reykjavík en aðra staði á landinu. Við síðustu umr. málsins hér í hv. þd. á dögunum bar ég fram brtt. um það, að yfirfasteignamatsnefndin skyldi annast þessi millimöt, en síðan væri hægt að áfrýja úrskurði hennar til ráðuneytisins. Þessi brtt. mín var felld. Ég hef því leyft mér að leggja nú til í brtt., sem prentuð er á þskj. 1209, að sá háttur verði á þessu hafður, að fjmrh. skipi einn mann, matsmann fasteigna, sem framkvæmi þessi möt milli þess. sem aðalmat fer fram, og þá vitanlega meti hann fasteignir alls staðar á landinu. Þá er gert ráð fyrir, að fjmrh. leggi úrskurð á kærur út af aukamati, svo að hægt verður að áfrýja úrskurði matsmanns. Ég vænti þess, að d. geti á þetta fallizt, þótt hún gæti ekki fallizt á, að yfirfasteignamatsn. væri þarna öll að verki. Það er ekki líklegt, að kostnaður verði meiri með þessu móti en eftir frv. Þar er gert ráð fyrir tveim matsmönnum í Reykjavík og að þeir starfi jafnan að þessu. Hv. þm. a.-Húnv. vill ganga skemmra í breytingum en ég og flytur brtt. á þskj. 1208. En sameiginlega flytjum við brtt. á þskj. 1210 um viðbót við 6. gr. Þessi sama till. var samþ. hér við síðustu umr., en fyrir vangá hefur hún ekki komizt í frv.. eins og það var síðan lagt fyrir Ed. Þetta er ákvæði um tilkynningarskyldu, og þarf ekki að rekja það nánar. Ég tel víst, að d. samþ. sína fyrri breytingu og frv. verði síðan sent Ed. aftur.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, nema tilefni gefist. Ég vænti þess. að fleiri mönnum en mér sé ljóst, að óviðfelldið er, og raunar alveg óhæft, að láta aðrar reglur gilda um millimat í einum landshluta en öðrum.