10.11.1944
Sameinað þing: 63. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (5058)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Frsm. (Pétur Ottesen):

Í bréfi, sem fráfarandi atvmrh., Vilhjálmur Þór, ritaði fjvn. síðari hl. sept., vekur ráðh. athygli á því, að nú muni vera tækifæri til, að við getum orðið aðnjótandi nokkurs styrks frá Rockefellerstofnuninni í Bandaríkjunum til að koma upp rannsóknarstöð í þarfir landbúnaðarins. Það hefur verið í ráði að koma hér upp fullkominni rannsóknarstofnun, er hefði það verkefni að rannsaka búfjársjúkdóma. Eftir að n. hafði fengið þetta bréf ráðh., tók hún þetta mál til athugunar og kynnti sér þá áætlun, sem gerð hafði verið, að því er snýr að stofnkostnaði þessarar rannsóknarstöðvar. Ráðh. lét að nýju athuga um þetta og gera áætlun um stofnkostnaðinn og sendi n. hana. Sú áætlun hefur, að því er virðist, verið nokkuð flausturslega gerð, og fylgdu þau ummæli, að við nánari athugun mundi verða breyting á kostnaðinum. En eins og áætlunin var lögð fyrir n., hljóðaði hún upp á hálfa aðra milljón kr., og í því fólst 150 þús. kr. upphæð, sem gert var ráð fyrir, að varið yrði til að kaupa ýmiss konar tæki handa rannsóknarstöðinni. Að öðru leyti er falinn í þessari upphæð byggingarkostnaður. Þá þótti fjvn. rétt að láta gera athugun um það, hvaða kostnaður yrði við rekstur slíkrar stofnunar, og við lauslega athugun kom í ljós, að rekstrarkostnaður muni ekki fara mikið fram úr kostnaði við slíkar rannsóknir, sem framkvæmdar hafa verið hér nú um skeið á ýmsum stöðum við erfið skilyrði, þegar tekið er tillit til þess, að gert er ráð fyrir, að stöðin muni fá nokkrar tekjur fyrir bóluefni, vítamínrannsóknir o. fl., og þegar frá liði, mundu tekjur af þessari starfsemi fara vaxandi. Mig minnir, að gert sé ráð fyrir, að útgjöld til þessarar starfsemi muni vaxa um 14–15 þús. kr. frá því, sem nú er veitt til þeirra verkefna, sem eiga að vera aðalverkefni þessarar stofnunar. Frá því sjónarmiði virðist ekki vera áhorfsmál um að ráðast í þetta fyrirtæki, sem skapar vitanlega miklu betri skilyrði til að geta náð þeim árangri, sem stefnt er að.

Í grg. er drepið á, hvílík vá er fyrir dyrum í landbúnaðinum vegna búfjársjúkdómanna, sem eru komnir langt með að leggja sauðfjárrækt landsmanna í auðn. Jafnframt er ískyggilegt, hvernig horfir með kúastofn landsmanna. Ég þekki dæmi þess, að bændur hafa misst meira en helming af bústofni sínum. Þeir, sem stunda svínarækt, hafa ekki heldur farið varhluta af þessu, og sama máli gegnir um hænsnaræktina. Þetta eru ískyggilegar horfur, og þegar tekið er tillit til þess, hver þáttur landbúnaðarframleiðslan er í lífi þessarar þjóðar, er það vitanlega ekki áhorfsmál að gera þær ráðstafanir, sem eru á okkar valdi, til að hamla á móti þessu. Hvernig mundi þessi þjóð vera á vegi stödd, ef skortur væri á kjöti og ullarvörum til klæðnaðar og skortur yrði á mjólk handa landsfólkinu? Það ætti einnig að verða til að hvetja og uppörva Íslendinga að gera tilraun í þessum efnum sú reynsla, sem fengizt hefur um hinn menntaða heim, þar sem vísindunum hefur tekizt að ráða niðurlögum ýmissa sýkla og baktería í mönnum og skepnum. Það er ekki ólíklegt, að þeir Íslendingar, sem hafa aflað sér þekkingar á þessum efnum, muni ná svipuðum árangri og starfsbræður þeirra erlendis, ef þeir fá svipuð starfsskilyrði. Það tókst ekki í fjvn., að n. stæði öll að þessari till., en meiri hl. n., sex af níu, fylgir henni. Minni hl. mun gera grein fyrir afstöðu sinni í sambandi við málið. Ég vil svo til viðbótar geta þess, að Rannsóknaráð ríkisins hefur með bréfi til fjvn. frá 5. okt. mælt með því, að komið yrði upp þessari rannsóknarstöð að Keldum í Mosfellssveit, en þar hefur þessari stofnun verið ætlaður staður. Hefur ráðið látið í ljós þá skoðun, að þetta sé líklegt til góðs árangurs, að því er snertir búfjársjúkdómana, og auk þess ættu aðrar rannsóknir að geta notið góðs af, eftir því sem við verður komið. Að því er vikið í grg., að þessi stofnun geti orðið allþýðingarmikil fyrir sjávarútveginn, að því er snertir efnagreiningu á meðalalýsi, og lýsisframleiðslan tryggð, þannig að framleidd verði betri vara með aukið verðgildi á erlendum markaði. Ég vakti athygli á því, þegar ákveðið var að fresta störfum Alþ., að nauðsynlegt væri að hraða þessu máli, því að eins og getið er um í grg. verður á þessu ári, snemma í desember, tekin ákvörðun um þessa styrkveitingu af hálfu Rockefellerstofnunarinnar. Fjmrh. gat þess þá, að auk þess sem þyrfti að athuga þetta mál nánar, yrði því ekki stefnt í hættu af þessum sökum, enda veit ég, að hann hefur athugað, að tími mundi vinnast til að koma málinu á framfæri, eftir að lokið er fullum undirbúningi þess, sem er eðlilegt skilyrði frá hendi þeirra, er munu veita okkur lið í þessu efni. Rockefellerstofnunin hefur veitt slíkum málum stuðning, og eftir því sem hv. fyrrv. atvmrh., Vilh. Þór, upplýsti í n., þá átti hann í síðustu utanför sinni samræður við forseta þessarar stofnunar. Sagði hann, að fyrir lægju mjög margar umsóknir um slíka styrki frá Norðurlöndum, en eins og sakir stæðu nú, hefðu Bandaríkin ekki það samband við ýmis Norðurlandaríki, að slíku væri við komandi. Þess vegna væri sérstakt tækifæri fyrir Ísland núna að sækja þessi mál eða leita stuðnings frá þessari merku vísindastofnun.

Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um þessa till. Ég vil aðeins bæta við, að með tilliti til þess, að Rockefellerstofnunin gerir að ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir slíkri styrkveitingu, að búið sé að ákveða í heimalandinu eða landinu, sem styrksins verður aðnjótandi, fjárveitingu í þessu skyni, þá er ráð fyrir gert í þessari þáltill., að fé til þess sé tekið af tekjuafgangi þessa árs, og fjvn. hefur kynnt sér það nokkuð hjá fyrrv. fjmrh., að sú aðstaða mundi vera fyrir hendi, miðað við þá upphæð, sem hér er um að ræða.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um till., en vænti þess, að þetta mikla nauðsynjamál eigi þeim skilningi að mæta á hv. Alþ., að það fái skjóta og góða afgreiðslu og að því loknu verði undinn bráður bugur að koma upp þessari stofnun, til þess að við getum tekið svo föstum tökum á því máli, að skilyrði verði hér heima til að fara að vinna að þessum rannsóknum við þau endurbættu skilyrði, sem falla okkur í skaut, ef stofnunin kemst upp.