14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (5067)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Aðeins örfá orð. Ég var víst ekki hér kominn, þegar fyrri umr. fór fram um þetta mál. En ég vildi bara segja það, að ég gat ekki fylgt þeim hv. fjvn. mönnum, sem að þessu máli standa, í því að flýta svo mjög flutningi þessa máls, sem hér er um að ræða, eins og raun er á orðin, að hv. meiri hl. fjvn. vill. Liggja til þess fleiri ástæður en ein. Fyrst sú, að ég hef ekki trú á því, að nú séu síðustu forvöð með að tryggja sér þetta framlag frá Rockefellerstofnuninni, sem vænzt er eftir til þess að koma þessu upp. Og svo hefði ég fyrir mitt leyti gjarnan viljað sjá framan í það, að einhvers staðar sparaðist raunverulega fé við þessa tilraunastöðvarbyggingu, með þessu fé, sem hér er ráðgert að leggja fram til hennar. Undanfarin ár hefur verið mikið fálm í framkvæmdunum varðandi búfjársjúkdómana. Og ég vildi sjá hilla undir það, að eitthvað minnkaði sá fjáraustur, sem til ráðstafana vegna þeirra sjúkdóma hefur farið, sem þó hefur kannske orðið til lítilla nota.

Nú er sýnilegt af brtt. þeirri, sem hv. meiri hl. fjvn. hefur borið fram, að strax á þessu stigi málsins er sú upphæð, sem nefnd var í þáltill. upphaflega og menn gengu út frá, að þyrfti að eyða í þessu skyni, orðin of lítil og þarf að hækka hana um a.m.k. 200 þús. kr. Og er þá komið nærri milljóninni, sem lagt er fram í þessu skyni. Ég er þar með ekki að segja það, að þetta muni reynast nóg. Ég gæti vel trúað því, að enn væri ekki séð fyrir endann á þessum stofnkostnaði, sem þarna verður um að ræða.

Þá verð ég líka að láta í ljós skoðun mína, sem er samkvæm þeim viðtölum, sem ég hef átt við þá menn hér á landi, sem mest fást við rannsóknir á sjávarafurðum, einkum á lýsi. Enginn þeirra, sem ég hef talað við um það efni, væntir sér nokkurs góðs af þessari stofnun fyrir sjávarútveginn. Ég tel mér skylt að geta þessa hér, af því að meiri hl. fjvn. flaggar með það í grg. sinni, að þessi stofnun á Keldum geti orðið þýðingarmikil fyrir sjávarútveginn. En þetta er í mínum augum ekkert annað en svona kanell út á grautinn. Ég lít svo á, að þessi ábending eigi að krydda þetta mál til þess að afla því fylgis, gera það aðgengilegra fyrir þá, sem gætu fremur sætt sig við, að þetta spor verði stigið nú, ef vonir væru til þess, að báðir höfuðatvinnuvegir landsmanna mundu njóta svipaðs góðs af.

Það er ekki þar með sagt, þó að ég hafi ekki getað fylgt þessu máli og muni ekki fylgja því, að ég sé í prinsipatriðum á móti því, að reynt sé að grafast fyrir rætur búfjársjúkdómanna, sem herjað hafa hér á landi, þannig að meira sé gert þeirra vegna en að koma upp dýrum girðingum, sem hafa reynzt fánýtar í baráttunni við búfjársjúkdómana hér. En mér þykir hér hafa verið hrapað að því of undirbúningslítið að bera fram þetta mál, sem sýnir sig bezt á þeirri hækkun á framlaginu til byggingar þessarar tilraunastöðvar, sem nú er komin fram till. um. Því var hreyft í n., og það er ekki bara þjóðsaga, að þegar einhverjir nýbakaðir „fræðingar“ koma frá útlöndum, þá rjúka einhverjir góðir menn til með einhverjum mótívum og finna allt í einu stóra nauðsyn á því að koma upp nýrri stofnun. Og þó að hér sé að vísu um þarft mál að ræða, ef rétt er að farið, þá hefði ég talið, að þetta mál hefði þolað betri undirbúning, áður en meiri hl. fjvn. tók að sér að flytja málið. — Og ég vil enn taka fram, að ég legg svona heldur lítið upp úr því, að öll tækifæri að því er snertir Rockefellerstofnunina muni úr höndum okkar gengin, ef við ekki þegar í stað hlaupum til og gerum þá ráðstöfun, sem hér er um að ræða. Ef svo væri, yrði maður að líta svo á, sem ekki ber að gera að vísu, að þau princip, sem þessi heimsfræga stofnun hefur, væru byggð á lauslegri undirstöðu en ég hygg, að þau séu byggð á. Rockefellerstofnunin er víst ekki það dægurfyrirbrigði, að hún styðji í dag þetta eða hitt þjóðnýta fyrirtækið í hvaða landi sem er, en á morgun snúi hún baki við öllu saman. En það er nú samt eins og hv. meiri hl. fjvn. líti þannig á málið, sem sé, að Rockefellerstofnunin muni algerlega sleppa hendinni af þessu nytjastarfi að því er okkur snertir, ef Alþingi Íslendinga gengur ekki nú þegar inn á þessa braut, sem mörkuð er með þáltill., sem fyrir liggur.

Ég gat ekki fylgt þessu máli í byrjun. Ég gat ekki fallizt á þau rök, sem fram komu í n., og taldi málið alls ekki nóg undirbúið til þess, að því yrði horfið nú að koma þessu í framkvæmd. Auk þess var mér ljóst, að það, sem þarna snertir sjávarútveginn, er ekki annað en hillingar, sem ekki aðeins ég, heldur þeir, sem miklu betra vit hafa á þeim hlutum hér á landi, álíta, að ekki verði til raunhæfrar gagnsemi fyrir sjávarútveginn, sem sé þó að komið sé upp tilraunastöð fyrir hann langt uppi í sveit, sem aðallega á að fást við kvikfjársjúkdóma af ýmsu tagi. Þær rannsóknir, sem fram þurfa að fara fyrir sjávarútveginn, verða að sjálfsögðu og að eðlilegum hætti að vera framkvæmdar í stofnun, sem er við sjávarsíðuna, enda mun svo vera hagað til víðast um heim í því efni. Þau efni, sem þarf að rannsaka, t.d. úr innýflum fiska o.þ.l., þolir að jafnaði ekki þá bið að vera flutt margar mílur frá ströndinni og langt upp í land til þess að rannsakast þar. (HelgJ: Hvað eru margar mílur upp í Mosfellssveit?). Ég veit, hvaða Keldur það eru, sem átt er við í till. Og það þarf ekki að gera því neitt skóna, að fiskirannsóknir fari fram á þessum stað. Það er þvert á móti alls staðar seilzt eftir því að hafa slíkar fiskirannsóknarstöðvar sem næst fiskveiðistöðum. — En þetta er mér þó ekki aðalatriði í þessu máli, heldur hitt, að það sýnir sig, að málið hefur ekki verið undirbúið eins og skyldi, áður en það var borið fram.