14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (5069)

177. mál, rannsóknarstöð á Keldum

Jónas Jónsson:

Það er eins fyrir mér og hv. þm. Vestm., að ég hef ekki skrifað undir nál. meiri hl., þó að ég hafi ekki komið með nál. í gagnstæða átt, en það er af því, að ég ætla að láta mér nægja að gera grein fyrir atkv. mínu varðandi þetta mál. Það hefur sýnilega það mikið fylgi, að það verði samþ., en verða má, að umr., sem um málið verða að þessu sinni, geti orðið hæstv. stj. til leiðbeiningar viðvíkjandi meðferð þess, þegar til framkvæmda kemur. Það, sem er einna lakast við þessar framkvæmdir, er það, að þær hafa allar verið gerðar svo að segja undirbúningslaust og athugunarlaust, og talsvert mikið af framkvæmdum í þessu efni er nokkurs konar atvinnubót fyrir menn, sem eru sjálfsagt duglegir til ýmissa starfa, en vilja fá sérstaka aðstöðu á unga aldri án þess að þurfa að vinna sig upp með náttúrlegum hætti, eins og venjulega gerist í þessu efni.

Við höfum nú ekki minna en fjóra staði, sem kallaðir eru vísindastöðvar og eru það sjálfsagt að einhverju leyti, en eru algerlega óháðar hver annarri. Er þar fyrst að nefna rannsóknarstöð Fiskifélagsins, þar sem Þórður Þorbjarnarson hefur unnið, sem virðist hafa gert útveginum verulegt gagn með rannsóknum sínum. Hann vinnur í þessari stöð eins og unnið er erlendis, þar sem verklega færir menn taka starfið með miklum áhuga, yfirlætislaust og án þess að keppa við aðra og án þess að vera með auglýsingaskrum. Mér er ekki kunnugt um vinnuaðstöðu hans; ég held, að hún sé frekar léleg, en þó þolanleg. Mér er kunnugt um, að leiðandi menn í útgerðarmálum þakka þessum manni hans vinnu og álíta hana mikils verða. Þá kemur næst rannsóknarstofa Háskólans, sem Níels Dungal hefur unnið upp með talsverðum dugnaði, a.m.k. í einu atriði. Umbætur hans á erlendu bóluefni eftir okkar þörfum hafa orðið til verulegs gagns fyrir landbúnaðinn, og þó að þar hafi orðið ýmis óhöpp, sem ég fer ekki út í hér, sérstaklega í sambandi við mæðiveikina á fyrsta stigi, þá hefur verið talsverður dugnaður í sambandi við þessa stofnun. Síðan kom rannsóknarstofa atvinnuveganna, sem var í raun og veru gerð fyrir frumkvæði Háskólans, en hún var bara gerð allt of fljótt og allt of lítið undirbúin. Það voru byggð stór hús og svo reynt að fylla þau af mönnum. Lengi stóð landbúnaðardeildin auð, en svo hefur tekizt að fá hana fyllta. Í þessari stofnun er elzti maðurinn, sem lengst hefur unnið með venjulegu rólegu vinnulagi fyrir landið, Trausti Ólafsson. Hann hefur líka gert á vissum sviðum í iðnaði mjög verulega gagnlegar rannsóknir. Ég hygg, að í sambandi við tóbaksgerðina hér hafi þessi eini maður gert svo mikið gagn, að fjárhagslegur ávinningur af því muni borga kostnaðinn við þá deild, sem hann starfar við. Þetta er líka maður, sem hefur byrjað neðst og unnið sig áfram með föstum skrefum, en ákaflega yfirlætislaust.

Þá kem ég að Keldum, og það mál er okkur, sem í nokkur ár höfum verið í fjvn., ekki ókunnugt. Þegar ég kynntist því máli fyrst, var svo ástatt, að ungur maður, Guðmundur Gíslason, sem hafði mikla trú á sér í þessu efni, hafði fengið talsverða peninga hjá þingi og stjórn og farið að byggja á Keldum og gera þar ýmsar ráðstafanir, sem allar voru einhverjar þær ófullkomnustu, sem ég hef séð, ekki heil brú í neinu. Að síðustu sá fjvn. sig nauðbeygða til að taka af honum öll fjárráð. Það skoðaði hann burtfararsök, því að hann vildi einn ráða öllu og ekkert eftirlit hafa frá þinginu og ekkert aðhald nema beint frá ráðh. Hugsaði hann sér að geta gengið beint til ráðh. og fengið hjá honum peninga áfram í nýjar byggingar, og þó að ráðh. séu ekki vitlausari en annað fólk, þá er ekki að ætlast til, að þeir geti haft svona byggingar undir sér fyrir utan þingið. Upp úr þessu kom svo það, að Guðmundur fór burt, þoldi ekki aðhaldið, þegar þingið vildi láta byggingarnar vera þannig, að þær væru ekki verri en eins og gerist og gengur, þá stökk hann úr vistinni, og var það í sjálfu sér ekki harmað mikið. Síðan var vel menntaður og ráðdeildarsamur maður, Halldór Pálsson, settur yfir landbúnaðardeildina og einnig sem yfirmaður á Keldum sem trúnaðarmaður stj. til að sjá um, að unnið væri eftir föstum og skipulegum reglum, en það er það, sem þeir á Keldum hafa aldrei viljað, heldur að eftirlitsleysi væri með öllu. T. d. um það, hvað þetta hefur allt verið laust í böndunum, má nefna það, að það var ætlazt til, að þessir lærðu menn framleiddu serum til lækningar vissum sjúkdómi. Til þess þurfti hesta, þurfti að hafa 24, en til þess voru ekki peningar, svo að þeir voru aldrei fleiri en 8–9, en ef það hefði verið haft strax eins og til var ætlazt, hefði verið til serum til margra ára, framleitt á einu ári.

Nú hefur, sérstaklega við Ameríkuferðirnar, fjölgað þeim mönnum, sem eru sérstaklega lærðir í þessum efnum. Það stóð svo um stund, að Guðmundur og fleiri héldu fram, að hægt væri að fá peninga frá Rockefellerstofnuninni, ef Keldur væru sérstök stofnun, en ekki undir eftirliti eins og nú er hjá Halldóri Pálssyni. Þannig stóð, þangað til í haust, er þáv. atvmrh., sem þá var vestan hafs, talaði við forráðamenn Rockefellerstofnunarinnar, hvort framlag frá þeirra hendi væri bundið því skilyrði, að Keldur væru ekki undir neinu eftirliti, og það reyndist misskilningur, sem lærðu mennirnir héldu fram, að stofnunin mætti ekki vera undir neinu íslenzku eftirliti nema ríkisins sjálfs.

Nú veit ég, að það eru rök meiri hl., að það sé háskasamlegt, að við leggjum hér ekki fram þetta fé, þar sem okkur standi til boða fjárframlag á móti erlendis frá. Ég skil þessi rök, en ástæðan til þess, að ég get samt ekki greitt atkv. með þessu, er sú, að ég álít ekki til vinnandi að fá þessa peninga til að taka þessi stóru stökk út í loftið, af því að það vantar þá eðlilegu þróun í þessa hluti. Kem ég þá að undirbúningi þess. Þessi ungi maður, Björn Sigurðsson, sem mun telja sig sjálfsagðan yfirmann þarna, hefur verið, eins og ekki var ólíklegt, ráðamaður fyrrv. og núv. stj., og við fyrrv. stj. hafði hann gert nokkurs konar áætlun, sem gerði ráð fyrir, að helmingurinn af þessum stofnkostnaði væri 750 þús. kr. Svo urðu stjórnarskipti. Hefur hann breytt áætluninni, svo að partur ríkisins er kominn upp í eina millj. kr. eða kannske vel það. Svo er símað til Ameríku og spurt, hvort þeir vilji taka undir, að þetta verði hækkað svo mikið. Þessi undirbúningur er svo lítill, að fjvn. fékk engar teikningar af þessu, og ég held, að ég megi fullyrða, að áætlunin sé sú allra versta, sem ég hef séð lagða fram frá nokkru fyrirtæki. Skal ég nú lauslega minnast á hana, en annars geta hv. þm. fengið að sjá hana hjá fjvn. Þar er bréf frá Birni Sigurðssyni, þar sem hann sýnir fram á, að allt þetta kosti ekkert. Það er gert með því að taka alls konar bráðabirgðakostnað, t. d. 100 þús. kr., sem sauðfjárveikin. átti að leggja fram, vegna rannsókna og starfs Guðmundar Gíslasonar hjá n., og styrkur á móti þeim lið, og svo átti þessi fjárhæð að koma sem eyðsla inn í þessa nýju stofnun, en ekki að teljast eyðsla þar, vegna þess að það hefði verið lagt fram til rannsókna hjá Guðmundi Gíslasyni, og yfirleitt er þarna farið að þinginu eins og þar séu börn. Það er leiðinlegt fyrir þingið að láta fara með sig eins og gert er með þessari áætlun, það er allt annað mál, hvort menn vilja, að lagðar séu fram 2 millj. kr. í þessar framkvæmdir eða að fá lagða upp í hendurnar áætlun jafnfáránlega og þessi er.

Þegar Danir voru að byggja upp sínar vísindastofnanir í þarfir atvinnuveganna, voru þar að verki menn, sem unnu eins og Þórður Þorbjarnarson og Trausti Ólafsson, í kyrrþey yfirlætislaust og ekki með einu auglýsingaskrumi, og þeir byggðu upp þessa merkilegu tækni, sem Danir hafa að heita má í öllu sínu atvinnulífi. Hjá okkur aftur á móti eru byggðar stórar stofnanir og í þær settir alveg óreyndir menn, sem ekkert hafa til brunns að bera nema venjulega skólamenntun, en óskaplega kröfuharðir um laun. T. d. nú fyrir einu ári bauðst einn ungur maður, sem ríkið hefur kostað að miklu leyti erlendis til náms, til að vinna við eina slíka stofnun og vildi fá miklu hærra kaup þar heldur en Trausti Ólafsson og grasafræðingurinn Ingólfur Davíðsson, og síðan vilja svona menn fá að vinna í fullkomnu eftirlitsleysi. Þess vegna er það, að okkur skiptir það ekki svo miklu máli, þó að Rockefellersjóður vildi leggja fram mikið fé til að byggja slíka stofnun, því að rekstrarkostnaðurinn er aðalatriðið. Og þó að ekki verði þarna nema 5–6 sérfræðingar á ári, sennilega með 30 þús. kr. laun hver, þá er það talsverður kostnaður. Það hefði því verið miklu meira virði fyrir okkur, ef Rockefellersjóður hefði viljað kosta þá menn, sem settir verða í þessa stofnun, heldur en þótt hann hjálpaði okkur til að byggja þetta hús á Keldum. Ég geri fastlega ráð fyrir, að þessi till. verði samþ. og allt þetta verði í fullkomnu eftirlitsleysi, og mun þar sannast, að eins og sáð er verður líka uppskeran.