21.09.1944
Sameinað þing: 46. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (5086)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Jónas Jónsson:

Einu rökin, sem ég held hv. þm. N.-Ísf. vilji halda til streitu, eru þau, að stolið hafi verið stýrimanni af einum varðbátnum okkar, og sé þetta smánarblettur fyrir íslenzku þjóðina og sjálfstæði hennar. Ég er engan veginn að halda fram, að það sé æskilegt, að stolið sé mönnum frá okkur. En ég vil benda á, að það er ekki það venjulega, — það er undantekning. Meginið af útlendum skipum, sem gerzt hafa brotleg, hlýða gæzlubátum okkar. En ef þjóðir ættu að vera svo hörundssárar fyrir ósigrum, þá ætla ég að minna á það, að t.d. Bretar biðu æði mikinn ósigur í Dunkirk fyrir nokkrum árum. Og það mátti kalla mikinn ósigur hjá Þjóðverjum við Stalingrad. En hvaða manni dettur í hug, að Þjóðverjar hafi rokið til að breyta öllum her sínum á sjó og landi, þó að þeir hafi beðið ósigur af ástæðum, sem skiljanlegar eru? Þess vegna er þetta á borð við það, sem lítill fermingardrengur getur látið sér detta í hug að koma með. Hver þjóð, jafnvel hinar stærstu þjóðir, verða að þola meiri óhöpp en að stolið sé einum varðmanni og komi hegning fyrir, eins og var í þessu tilfelli.

Það hefur ekki verið hægt að benda á eitt dæmi um það, að útlendar þjóðir séu óánægðar með gæzlu okkar. Yfirmaður ensku þjóðarinnar í þessu efni hefur nýlega lýst trausti sínu á þessu eins og það er nú. Hv. þm. gagnrýndi ekki ráðh. og skrifstofustjóra í dómsmrn. í sambandi við vaxandi starf og þörf á nýjum skipum. En hann taldi, að forstöðumaður Skipaútgerðarinnar hafi vanrækt starf sitt. En viðvíkjandi rekstri og gæzlu eins og hún er nú gat hann ekkert sagt, sem sannfært gat neinn. Þegar komið var að stóru skipunum, var auðheyrt, að hann hefur aldrei vitað, að þingið ákvað að hverfa frá stórum skipum til smárra. Í fyrri ræðu sinni lét hann sem einhver djúp vizka væri á bak við, en nú er það bara hann sjálfur, og það er orðið aukaatriði hjá honum.

Þá spyr hv. þm., hvort nokkur möguleiki sé á því, að sami maður geti annazt strandgæzlu, björgun, hafrannsóknir, djúpmælingar o.s.frv. En hvers konar lærdómsmann skyldi hann þá vilja hafa í þessu starfi? Á hann að vera sérstaklega fær í djúpmælingum og hafrannsóknum? Á hann að vera duglegur að fást við að mæla okkar strandlengju? Eða hershöfðingi? Eða á það að vera sjómaður? Það væri gott fyrir væntanlega n. að vita þetta, ef einhver neisti væri til, sem hægt væri að láta lifa úr þessari tillögu. Kannske hann haldi líka, að æðsta tryggingin sé að hafa þarna júrista, t.d. hann sjálfan? Það er bezt, að hann segi til eins og er. En það er spursmál, hvort landsmenn álitu, að einhver ungur júristi væri betur fallinn en reyndur sjómaður. Reynslan hefur knúð menn til að sameina björgunarstarfsemina og gæzluna. Og þá er náttúrlega verulegt atriði, hvort t.d. júristi eða hagfræðingur væri betur hæfur til að sjá um björgun.

Ég held ég ætti að víkja að því um leið, að þegar Sæbjörg var smíðuð, var ekki flanað að því. Það voru margir skipstjórar og fræðimenn við að reikna út og ákveða, hvernig það ætti að vera, og meðal annars réðu þeir stærð og gerð. Það var ekki leitað til Pálma og ekki farið eftir hans bendingum. Meðal annars var þetta skip látið vera seglskip með þungan blýkjöl og veika vél. Það reyndist ekki hentugt. Nú kemur þessi hv. þm. og segir, eins og rétt er, að björgunarbátar þurfi að geta farið út í vond veður. En eini björgunarbáturinn, sem gerður hefur verið á Íslandi, og það með ráði fjölmargra ágætra skipstjóra, var vélarvana, en átti að treysta á segl. Vélin var ekki nærri eins góð og á bátnum á Akranesi. Og niðurstaðan varð sú, að þetta varð allt ónýtt. Það varð að taka blýkjölinn, hætta við seglin og treysta á vél, einmitt eins og bent var á af þeim manni, sem hefur forstöðu þessara mála. En það hvað björgunarskipin skuli vera stór, verður náttúrlega alltaf sambland af fjárhagsatriði og þekkingaratriði, — hvað þjóðin treystir sér til. Hitt stendur fast, að eina björgunarskipið, sem byggt var hér og tekið var eftir Lofoten-fyrirmynd, dugði ekki. Ég held það sé rétt, að það þurfi að setja sterka vél í Sæbjörgu, og kannske er búið að því. Hv. þm. sagði, að það þyrfti allt aðra kunnáttu við að stjórna varðskipi en strandferðaskipi. En hann er samþykkur því, eins og allir, að það eigi að sameina björgunarstarfsemina og gæzluna. Hann þarf þá bæði að hafa vit á björgun og hvernig á að elta togara, en það er sitt hvað. Og þarf þá ekki að kljúfa þetta aftur sundur og hafa sérstakan sérfræðing yfir björgunarmálunum?

Að síðustu viðurkenndi hv. þm., að núverandi forstjóri Skipaútgerðar ríkisins hafi ekki brotið af sér. Enda er sannleikurinn sá, að síðan hann tók við þessum málum, hefur hann haft forustuna sem sá reyndi og greindi sjómaður, og starfið hefur farið prýðilega. Það var alveg nýlega, sem einn af kunnustu þm. hélt ræðu um þennan mann og tók einmitt fram, hve sérstaka hæfileika hann hefði til þess að bæta úr þessum miklu erfiðleikum gæzlu og björgunar, hvernig hann hefði með sérstöku lagi sameinað þetta til hagsmuna fyrir þjóðina.