14.11.1944
Sameinað þing: 65. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (5102)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Ég hef ekki hugsað mér að tefja þessar umr. að neinu leyti, en vildi lýsa því yfir út af tilmælum hv. þm. Vestm., um að ríkisstj. léti sem fyrst koma í framkvæmd þá athugun, sem fór fram á till., að mér fyrir mitt leyti væri sérstök ánægja að geta flýtt fyrir því, að sú athugun færi fram, og mundi, ef hún væri samþ., gera ráðstafanir til þess. Ég hef á fundi fjvn. í dag farið fram á verulega aukið fé til slysavarnanna og óskað eftir því, að fjvn. sjái sér fært að taka upp á fjárl. nokkra fjárveitingu til byggingar á nýju varðskipi. Það er vitað mál, að væntanlega strax á næstu árum verði mjög aukinn átroðningur af útlendum skipum hér við land Verður að reyna að fá stækkaða landhelgina, og jafnvel þótt ekki fengist rýmkun á henni, er augljóst mál, að skipastóll okkar til strandgæzlu er ekki eins nægur og þörf krefur. Ég tel, að sú stefna, sem ríkt hefur hjá a.m.k. mörgum þm., sem tekið hafa á þessu máli, að sameina sem mest björgunarstarfsemina og landhelgisgæzluna, sé alveg rétt. Það hefur verið fengið eitt björgunarskip hingað til landsins. Útgerð þess er nú kostuð af ríkinu að öllu leyti og þetta skip notað bæði til strandgæzlu og björgunarstarfsemi.

Í sambandi við þau ummæli hv. 4. þm. Reykv., að rétt væri að velja sérstakan mann fyrir millilið milli Skipaútgerðarinnar og slysavarnanna, vil ég láta þess getið, að ég hef ekki orðið annars var en að það hafi ætíð verið mjög fljótlegt fyrir Slysavarnafélagið að fá óðara þá aðstoð, sem Skipaútgerðin hefur getað látið því í té. En ef það kemur í ljós við athugun á þessu máli, að hægt sé að hafa þá afgreiðslu betri en hún er nú, tel ég sjálfsagt að taka ábendingu hv. 4. þm. Reykv. til athugunar.