20.11.1944
Sameinað þing: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í D-deild Alþingistíðinda. (5105)

127. mál, landhelgisgæzla og björgunarstarfsemi

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Mér þykir gott að heyra, að hv. flm. þessarar þáltill. fellir sig eftir atvikum við þá afgreiðslu, er hún hefur fengið hjá fjvn. Ég vil vona, að það, sem hann aðallega minntist á, sem sé meira öryggi og betri skipan á þessum málum, geti orðið niðurstaða þeirrar athugunar og rannsókna, sem fram eiga að fara samkvæmt brtt. nefndarinnar.

Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. góðar undirtektir undir það að hraða þessu máli eftir föngum.

Þá vil ég aðeins minnast á uppástungu, sem kom frá hv. 4. þm. Reykv. um það, að Slysavarnafélagið hefði fulltrúa á skrifstofu ríkisútgerðarinnar, sem væri í samstarfi við útgerðarstjórn, þegar þessi varðskip væru notuð til slysavarna. Ég hef ekki átt þess kost að ræða þetta við samnefndarmenn mína og get því ekki talað fyrir þeirra hönd um þessa uppástungu hv. 4. þm. Reykv., en ég geri ráð fyrir, að hann muni koma þessari uppástungu á framfæri hjá dómsmrn., sem hefur yfirstjórn þessara mála á hendi. Ég verð að segja, að mín reynsla og okkar Vestmannaeyinga er sú af forstjóra Skipaútgerðar ríkisins, að hann hefur verið lipur og komið vel fram, svo að ekki verður á betra kosið. Svo að þess vegna held ég, að óþarft væri að setja honum hjálparmann, en vitanlega getur komið fyrir, að hann sé ekki viðstaddur, og þá er þörf annars manns. Mér er að vísu kunnugt um erfiða sambúð sumra við stjórn Skipaútgerðarinnar, en hvort það er orsök þessa hjá 4. þm. Reykv., skal ég ekki um segja. Ég sé ekki þörf á þessu og geri það ekki að till. minni. Hins vegar er eðlilega þörf góðs samstarfs milli forstjóra Skipaútgerðarinnar og Slysavarnafélagsins. Ég held, að það yrði lítið starf fyrir mann að gegna þessu einu og því heppilegra, að Slysavarnafélagið og Skipaútgerðin starfi saman.