02.03.1945
Efri deild: 140. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1964 í B-deild Alþingistíðinda. (5115)

254. mál, fasteignamat

Frsm. (Magnús Jónsson):

Eins og hv. þdm. minnast, þá var þessu frv. breytt dálítið í þessari d. frá því, sem það var borið fram upphaflega, en sú breyt. gekk út á að hafa nokkur sérákvæði um fasteignamat í Reykjavík milli þess, sem aðalmat fer fram, þar sem Reykjavík er svo umfangsmikil, og þegar almennt mat á ekki að fara fram nema á 25 ára fresti, þá er ofviða fjmrn. að sjá um matið nema taka til þess matsmenn, sem að því ynnu. Það er því eðlilegt, að þeir séu til þess skipaðir og annar ákveðinn af fjmrn., en hinum skyldi bærinn ráða. Nú hefur Nd. að vísu haldið þessu aðalatriði, en aukið þó nokkru við, þannig að þetta skal svo vera í fleiri bæjum. Það er þannig ákveðið, að úttektarmenn skuli framkvæma matið í sínum hreppum, en í kaupstöðum skuli sérstakir menn sjá um það. Ég hef ekki haft tækifæri til að bera mig saman við hæstv. fjmrh. um þetta atriði, af því að hann er veikur og þessu frv. var útbýtt hér fyrst nú í dag, en mér sýnist, að hér sé aðeins um óverulega breyt. að ræða, og þó að mér sýnist hún óþörf, þá sé ég ekkert athugavert við, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir nú.