19.10.1944
Sameinað þing: 58. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í D-deild Alþingistíðinda. (5147)

102. mál, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar

Frsm. 1. minni hl. (Jónas Jónsson):

Herra forseti. — Hv. þm. Siglf. hefur nú haldið ræðu um málið og sagt margt bæði fróðlegt og skemmtilegt. Hann fullyrðir, að þessi ábyrgð sé hættulaus, en það hafa nú raunar allir fullyrt á öllum tímum, sem staðið hafa að ótryggum lánum.

Það er fróðlegt að leggja saman allar þær ábyrgðir og öll þau lán, sem Siglufjörður stendur nú undir. Mun láta nærri, að það séu um 30 millj. kr. eða 1 millj. kr. á hverja hundrað íbúa á Siglufirði. En þetta er ekkert undarlegt, því að þeir, sem þessu stjórna, ætla sér aldrei að borga þessar upphæðir. Það er eðlileg afleiðing trúar þessara manna, sem byggja ekki athafnir sínar á venjulegum borgaralegum hugsunarhætti. Þeir ætla að láta aðra borga þetta, þess vegna er þeim nóg, ef þeir aðeins fá það.

Hv. þm. segir, að sú aðferð, sem hér var höfð til að fá vilja þingsins í þessu máli, sé hin sama og áður hafi verið farin. Sennilega veit hann ekki, að þá var þingið búið að samþ. þetta, þótt leyfi þyrfti til að borga það út. Þetta veit maðurinn ekki og ætti því ekki að vera að tala um þetta. Hv. þm. Siglf. þykist vita, að stækka eigi Hjalteyrarverksmiðjuna. Mér er nær að halda, að því fari alls fjarri, og þótt hann hafi séð einhverja hluti, varastykki eða annað, sem fara áttu til Hjalteyrar, þá mælir það ekkert með því að reisa þessa verksmiðju. Við skulum gera ráð fyrir, að þessi verksmiðja kosti um 8 millj. kr. og taki um 5000 mál. En ríkisverksmiðjurnar allar kostuðu einungis 12 millj. og taka um 20 þús. mál. Hvernig heldur svo hv. þm., að þessi verksmiðja geti staðizt samkeppni við þær? Allir, sem nokkurt vit hafa á þessum málum, sjá, hversu mikið óráð þetta er. Má þar til nefna hv. þm. G.-K. Þegar hv. þm. talar um, hversu fullkomin verksmiðja þetta verði og hve lítinn vinnukraft þurfi til hennar, svo að jafnvel ýmsir hlutir gangi mannlausir, þá ætti hann að hugleiða, hvort þetta sé nú í sjálfu sér svo heppilegt. Ef svo væri um alla hluti, hvar ætti fólkið þá að vinna, og hvernig fara þá kommúnistar að gera verkfall? Þetta ætti hann að athuga, áður en hann gumar mikið af þessari verksmiðju sinni. – Vert er að athuga það í sambandi við störf hv. þm. Seyðf. í þessu máli, að eðlilegra hefði virzt, að hv. þm. Siglf. sjálfur hefði annazt þau störf. Hann er sjálfur lögfræðingur og alþm. Það ber því ekki vott um mikið traust á honum, að honum skuli ekki hafa verið falið þetta starf. Nú, hitt er vitað, að hv. þm. Siglf. mundi útvega þetta ókeypis. Það er orðin óskaplega mikil vinna, sem í þessar lántökutilraunir er komin. En það, að ekki hefur verið leitað til þm. Siglf., sem búsettur er í Reykjavík og er í sömu stétt og hv. þm. Seyðf. og 6. þm. Reykv., bendir helzt til, að þm. þeim sé ekki treyst af Siglfirðingum og hann sé ef til vill ekki nógu óheiðarlegur og eigingjarn, — því að hv. þm. hlýtur að skilja, að till. hans er einskis verð fyrir lántökumálið. Þó að hann fengi einhverja hv. alþm. meðmælta sér um þetta, þá er hann engu nær. Ég skil ekkert í því, hvers vegna hv. þm. Siglf. er að tala um þennan 280 þús. kr. kostnað, sem er að vísu nokkuð mikið fé, en játa svo, að borga eigi einum manni 90 þús. kr. fyrir að vinna við þetta, og mun ég víkja að því og eðli þess máls, þegar ég segi nokkur orð til hv. 6. þm. Reykv.

Það var eitt, sem hv. þm. minntist á í sambandi við þetta, og er bezt að koma strax að því, en það var ýmiss konar kostnaður við verkfræðilega aðstoð í þessu sambandi. En hv. þm. gat ekki um stjórnarkostnaðinn. Veit hann ekki, að menn, sem komu hingað frá Sigluf., að þeir háu herrar tóku 100 kr. á dag, og hinir, sem með þeim voru, 80 kr. á dag? Það er auðséð, að úr miklu er að spila, en þó er þarna ekkert að hafa nema bara lóðina, sem keypt var fyrir löngu fyrir litla peninga og nú er talin 80 þús. kr. virði. Það er það eina, sem Siglufjörður leggur fram út á það, sem borga þarf þessum mönnum með sínar 100 kr. á dag, til þess að útvega lán og með þeim árangri, sem kunnur er. Mér finnst því frekar lítilfjörleg frammistaðan hjá hv. þm. Siglf. Honum er ekki treyst til þess að útvega peningana, og till. hans er svo ófullkomin, að það verður að laga hana og endurbæta, og svo verður að treysta á hv. 2. þm. S.-M., sem hefur barizt móti málinu áður, og síðan á loks upp á það að samþ. þriðju endurbættu útgáfuna. Mér finnst hv. þm. Siglf. og öll aðstoð hans við Rauðku hafa verið ærið reikul bæði fyrr og síðar. Þar eru sömu vinnubrögðin og hjá mönnunum, sem hingað voru sendir.

Þá kem ég að hv. 6. þm. Reykv., sem tekur upp vörn fyrir flokksbróður sinn og starfsbróður sem mesta athafnamanninn í þessu máli.

Ég þykist nú vita, að borgarstjórinn hafi einhvern tíma á sinni löngu menntabraut, þegar hann lagði stund á heimspeki, heyrt það, að Spencer taldi móðurástina réttilega af því sprottna, sem hann hefur kallað „the sense of helplessness“. Og ég hugsa, að það, sem fyrir hv. 6. þm. Reykv. vakir í þessu máli, sé bróðurleg umhyggja fyrir félaga sínum. Hann finnur, að hann á bágt í þessu máli og ef til vill bágara en menn almennt fá áttað sig á. Þess vegna er sjálfsagt að meta þetta að verðleikum, því að það er alltaf fallegt að vilja hjálpa þeim, sem bágt eiga. — Nú hefur hv. 6. þm. Reykv. skipt ræðu sinni í tvo parta, lítinn part um málið sjálft og stóran part um allt annað, sem ekki snertir Rauðku. Nú vil ég aftur á móti hafa stærri partinn af minni ræðu um Rauðku, en minni partinn um hitt.

Ég ætla þá að koma fyrst að því, sem hann reyndi að halda fram og lagði nokkra áherzlu á, sem sé að sanna, að ekkert merkilegt væri við það, þó að einn alþm. hér starfi að því fyrir málafærslumannsprósentur að útvega þetta lán: Ég veit, að það voru menn, sem hlustuðu á þessa umr. síðast, e.t.v. ekki hér í þingsölunum, en á þingpöllunum, sem þótti merkilegt, að borgarstjórinn í Reykjavík skyldi segja, að það væri ekkert nýstárlegt í þessu máli, þó að einn maður fengi 90 þús. kr. verðlaun fyrir starf eins og þetta. Ég þykist vita, að borgarstjórinn hafi ekki meint þetta. Þetta er einmitt svo óhæfilegt og svo langt frá því að vera algengt, að hann getur áreiðanlega hvergi í sögu Alþingis fundið annað dæmi fyrir sömu aðstæðum, sem eru í þessu máli. Það er ekki viðkunnanlegt af alþm. að bera það á Alþingi, að það hafi viðhaft þau vinnubrögð, sem hér um ræðir.

Nú snertir kjarninn í þessu máli tvö atriði, sem bæði voru rækilega tekin til athugunar af hv. þm. Barð. Fyrra atriðið er fjárhagslega hliðin, og hið síðara er það, hvort málum á að koma gegnum Alþ. á þennan hátt, sem hér er á hafður. — Um fjárhagslegu hliðina vil ég segja það, að það er frá almennu sjónarmiði ómögulegt að hugsa sér, að þetta fyrirtæki geti borið sig, og það verður ekki langt, þangað til tímarnir breytast og stríðið verður búið, og tiltölulega stuttu á eftir, — það sýndi sig eftir síðustu heimsstyrjöld, — hrapar allt verðlag niður. Þess vegna á þessi verksmiðja, sem kostar 8 millj. kr., að keppa við verksmiðjur hér, sem sumpart eru alveg skuldlausar, en kostað hafa 2 millj. kr. Það hlýtur borgarstjórinn að vita, að þetta getur ekki gengið; það er óhugsandi. Ég þykist vita, að hann vilji ekki fella ísl. krónuna, en hún yrði að falla niður í sama sem ekki neitt, með því eina móti væri hægt að bjarga fyrirtækinu.

Þá er það spurningin, hvort þetta er ósk þeirra hv. alþm., sem heitið hafa þessu máli stuðningi sínum. Ég hygg, að flestir hafi gert það af ókunnugleika á málinu. Getur það verið ósk þeirra að bjarga málinu með því að gera krónuna einskis virði? Það er rétt og staðreynd, að yfirleitt hafa þeir, sem reka verksmiðjur, ekki viljað ráðast í að byggja, því að tap er þar að heita má óhjákvæmilegt. Og þess vegna er það, að þetta fyrirtæki á ekki rétt á sér, og það verður enn þá erfiðara að verja framgöngu þess, eftir að við vitum, að á tímum þjóðstjórnarinnar beitti formaður Sjálfstfl. sér á móti því, að þessi verksmiðja væri reist, og þáverandi ráðherra Framsfl. beitti sér einnig gegn því, og allir neituðu þá um hjálp, líka ríkisstjórnin. Menn segja, að það sé bara engin ástæða fyrir ríkið, sem búið er að gera stórkostlegar framkvæmdir á Siglufirði, að fara að búa út samkeppnisverksmiðju til þess að keppa við ríkið. Hyggnir menn á Siglufirði segjast vita það, að þegar þetta fer á hausinn, þá verði því kastað á ríkið og það verði að borga allt saman, og þeir kvíða fyrir því að fá þessa verksmiðju með 10 millj. kr. skuld, sem afkastar 5 þús. málum, ofan á verksmiðjur, sem kostuðu 12 millj. kr., en afkasta yfir 20 þús. málum. Þetta er ekki neinn velgerningur við Siglufjörð, og það er skaði fyrir landið að fá síldarverksmiðjurnar dregnar niður á þennan hátt. En sá flokkur, sem mestu ræður á Siglufirði, hefur það fyrir „plan“ að láta hlutina fara svona. Hvaða vit er í þessu máli núna, þegar það hefur verið stöðvað af leiðtoga Sjálfstfl. og fyrrv. ráðh. Framsfl., þegar miklu betur leit út um það en nú? Nú kemur það upp sem kosningabomba á Siglufirði. Þetta er bara partur af hinni almennu sókn kommúnista á móti þjóðfélaginu, sem út af fyrir sig er vel athyglisverð sem slík. En ég verð að hryggja hv. 6. þm. Reykv., borgarstjórann, með því, að það hefur kviknað tiltölulega fljótt í flokki hans á Siglufirði út frá þessum rauða eldi, og „þar rauður loginn brann“. Mér hefur verið sagt, að um þetta mál hafi verið haldinn fundur og þá hafi sjálfstæðismenn þar haldið því fram, að þeir gætu ekki staðið sig við næstu kosningar, ef þeir tækju ekki þetta mál að sér, og svo gengu þeir í málið. En ég verð að segja það, að rauður loginn brann líka brátt innan meiri hluta Framsfl. á Siglufirði. Að síðustu komu svo kratarnir, án þess að heyrðist hósti eða stuna. Þeir eru nú alltaf svo blíðir og góðir, og það fer svo lítið fyrir þeim, þegar þeir fallast á stefnu kommúnista, eins og þeir gerðu í þessu máli.

Þegar svo þetta heimatrúboð var búið, sem fram fór um svipað leyti og grundvöllurinn að lýðveldinu var lagður hér á Alþ., þá kemur hinn ágæti bæjarfógeti Siglfirðinga, Guðmundur Hannesson, hingað suður með sínar 100 kr. á dag og liðsmenn hans með sínar 80 kr. En þó að þeir sætu hér í góðum fögnuði, þá fengu þeir ekki einn einasta eyri að láni, — alls staðar voru læstar dyr. En til þessa unga laglega manns, hv. þm. Siglf., sem þeir gátu gert sér svo miklar vonir um, leituðu þeir ekki, eins og hann væri ekki til. En þeir lenda hjá öðrum manni, og hann tekur þetta að sér. Og eins og ég hef tekið fram, fór Rauðka fyrst að ganga, þegar hann kom í málið. Og það kom líka nokkuð nýtt í málið, sem hefði ekki þurft að koma þar, ef Guðmundi Hannessyni hefði gengið betur eða hv. þm. Siglf. rækt skyldur sínar betur. Það, sem nú virðist einkennilegt við málið, er það, að hv. þm. Seyðf. tekur það að sér og fær mikið fé, 90 þús. kr., fyrir. Ég vil ekki viðhafa þau ljótu orð „að bera fé á“, en samt er þetta fé. Guðmundur Hannesson á að útvega þessa upphæð, en hann nær henni ekki, og hún næst ekki öðruvísi en með því að leggja fram 90 þús. kr. fyrir þessa vinnu. Ég er ekkert að segja um þetta nema það, að fullvíst er, enda þótt hv. þm. Seyðf. sé hjálpsamur maður og hjartagóður, að hann hefur ekki viljað leggja á sig neitt ómak nema fyrir þetta fé, rétt eins og verkamaðurinn vill ekki vinna fyrir ekki neitt. Slík kauplaus vinna nefnist sjálfboðaliðsvinna. Og þess vegna verður hv. 6. þm. Reykv. að muna það, að smurningin á hjólið kom fyrst, þegar þessar 90 þús. kr. komu til sögunnar. Áður stóð vélin alveg föst, og Rauðka komst ekki úr sporunum. Það er því ekkert á móti því að staðnæmast við þetta.

Ég skil ekkert í því, að hv. 6. þm. Reykv. skuli vera að telja þetta eðlilegt. Það, sem Siglufjarðarbær vinnur til, er að leggja á sig þessa fjárhæð til þess að geta komið málinu áfram.

Ég er ekki málafærslumaður, en ég verð nú að segja það, að ég álít þessa venju, sem hv. 6. þm. Reykv. viðurkenndi, að væri venja lögfræðinganna, ég álít þessa venju andstyggilega. Ég álít það bæði skömm og skaða, að það sé löglegt nokkrum manni að taka slíkt kaup sem þetta, en hitt er svo út af fyrir sig, að það er ekki okkar hér að leiðrétta þetta. En þetta er í miklu ósamræmi við laun opinberra starfsmanna. Ég veit ekki betur en að alla vinnu hæstaréttar í eitt ár, þar sem eru þrír lögfræðingar, mætti borga með upphæð þeirri, sem hér um ræðir, upphæðinni, sem hv. þm. Seyðf. tekur fyrir þessi störf sín.

Ég viðurkenni, að þetta tilfelli, sem hér er um að ræða, er engu verra út af fyrir sig en mörg önnur, þó að þessi maður taki sín 90 þús. kr., ef þetta er taxti málafærslumanna, en ég segi bara, að það sé andstyggilegt, að þetta skuli tíðkast í þjóðfélagi okkar. Ef hv. 6. þm. Reykv. áttar sig á því, hvað Siglufjarðarbær borgar fyrir að koma þessu máli fram, þá hlýtur hann að sjá, að Siglufjarðarbæ kemur bara ekkert við, hvernig þetta fé er notað. Ef till. fer í gegnum Alþ., þá fær þm. Seyðf. prósentur sínar, og þá er það á valdi þessa eina manns, hvernig hann notar þetta fé. Ég get ekki séð, hvað er þá því til fyrirstöðu, að hann megi þá borga einhverjum öðrum mönnum, sem kynnu að hafa sama „móral“ og hann hefur, eftir sama taxta og sjálfum sér.

Það er ekki til neins fyrir hv. 6. þm. Reykv. að vera með óánægju í minn garð, af því að ég hef talað hér í þessu máli. Þessi borgun er staðreynd, og hún var nauðsynleg, því að án hennar hefði hv. þm. Seyðf. ekki hreyft sig. Það er á hans valdi, hvort hann svo borgar hjálparkokkum sínum, svo sem vélritunarstúlku o.fl. Það kemur öðrum ekki við, — það er bara sögulegt atriði. Hitt er rétt, að ég og hv. þm. Siglf. vitum það, að menn á Siglufirði líta hýru auga til þessa fjár.

Nú hefur mér virzt af ræðum hv. þm. Siglf. og 6. þm. Reykv., að þeir gera mun á því, ef einhverjir aðrir menn fengju eitthvað af þessum aurum, og að það væri bölvað, en eðlilegt, að þeir einir fengju, sem til þess vinna. En þeir, sem á einn eða annan hátt hjálpa til við verkið, fá þó sennilega sína „premíu“.

Þá eyddi hv. 6. þm. Reykv. tíma í að tala um það, að hann hafi stutt þetta mál af hjartans sannfæringu, og er það náttúrlega góð og falleg yfirlýsing. En ég hafði bara ekki gefið honum neitt tilefni til þess að gefa þessa yfirlýsingu. En hitt reyndi hann ekki að útskýra, hvers vegna hann áliti sig hafa betur vit á „rentability“ þessarar síldarverksmiðju en t.d. þm. G.-K., sem hefur miklu betra vit á þessu en bæði ég og hv. 6. þm. Reykv. báðir til samans. En þm. G.-K. hefur haft ótrú á þessu fyrirtæki frá byrjun og neitaði að skrifa undir þetta skjal, sem hér var á ferðinni. Og það er ómögulegt fyrir hv. 6. þm. Reykv. að sneiða hjá því, að stuðningsmenn þessa máls vilja ekki heldur tala um „rentability“ þessa fyrirtækis. Ég hef sterkan grun um, að þeir hv. þm., sem styðja þetta mál, hafi ekki gert sér ljósa grein fyrir því, sem hér um ræðir, og séu ókunnugir málinu. Og mér finnst ósennilegt, að greindur og greinargóður maður, eins og hv. 6. þm. Reykv., sem athugar málin, komist að annarri niðurstöðu en hans æruverðugi flokksforingi, sem ég hef nú vikið að.

Þá gat ræðumaður um eina hlið þessa máls. Honum fannst það vera leiðinlegt fyrir þá hv. þm., sem skrifað hafa undir til fylgis við þetta mál, að vera að fjölyrða um það, að málið hafi komizt áleiðis fyrir það, að þessar undirskriftir eða hlutaráðning komst inn í það. Þessar undirskriftir verða til þannig, að nokkrir sjálfstæðismenn, sem hafa skrifað undir það í einu, hafa getað kynnt sér málið, en til langflestra þessara þm. hefur verið leitað einstaklingslega og þeir þá enga aðstöðu haft til þess að kynna sér málið eins og vera bar. Þetta er óeðlileg aðferð, eins og hv. þm. Barð. sagði, því að undir þeim kringumstæðum geta menn ekki haft nauðsynleg gögn fyrir sér í málinu.

Þess vegna er það, að ef hv. 6. þm. Reykv. hefur geðshræringar út af þessu máli, þá ættu þær að vera við þá menn, sem leiddu hann til þess að skrifa undir það, en ekki við menn, sem hvergi komu nærri þessu máli, eins og hv. þm. Borgf. og ég, sem höfum fengið þá óverðskulduðu æru, að okkur var ekki sent skjalið. (BBen: Við reyndum að ná til hv. þm., en það tókst ekki.) Hv. þm. Seyðf. tók það skýrt fram í fjvn., að til væru þeir menn, sem hann treysti illa í þessu máli, og meinti hann þá, að ég væri einn af þeim. Ég held þess vegna, að skjalið til mín hafi ekki misfarizt og þetta sé rangt hjá hv. þm.

Öll rök í þessu máli hníga því að sama punkti, því að þeir menn, sem vit hafa á málinu, snúast allir á móti því og dæma það til dauða.

Nú hefur reynzt hægt — með þessum hörmungaraðferðum — að þoka málinu þetta áfram, að Útvegsbankinn og tryggingastofnun ríkisins ætla að lána nokkuð af peningum, því að þessi fyrirtæki hafa nóga peninga, sem þau geta hæglega lánað, ef þau vilja. En þau vilja ekki leggja neitt í hættu, og þau vilja sem minnst eiga við Siglufjörð. Þau setja því bæði þá skýru kröfu fyrir láninu, að ríkið gangi í þessa ábyrgð. Það er leikur fyrir þessi fyrirtæki að lána þessa upphæð, 1½ millj. kr., nóg hafa þau af peningunum, en þau vilja ekki gera það. Þau vita, að þetta fyrirtæki sligast innan skamms, þegar Siglufjörður springur, og að þá lendir á þeim mikið tap. Þess vegna segja þeir menn, sem fyrir þessum fyrirtækjum standa, að rétt sé að gera þetta, ef Alþ. samþ. það núna. Þessi erfiðu og alveg óvenjulegu skilyrði man ég ekki eftir, að hafi verið í sambandi við nokkra aðra lántöku á því 20 ára bili, sem ég hef setið á Alþ., — að það hafi verið búið að útvega allálitlega lánsfjárupphæð með því skilyrði, að ríkið gengi í ábyrgð. Og af því að svona er og af því að endurbygging Rauðku er fyrirtæki, sem er endemi á alla enda og kanta, þá álít ég, — þó að hv. 6. þm. Reykv. hafi komið í þetta mál af góðum hug og til að hjálpa þeim hjálparlausa, — að hv. 6. þm. Reykv. eigi að taka tíma í það að athuga málið gaumgæfilega; og við það mun hann sannfærast um, að hann hafi ekki haft svo gott vit á þessu máli sem skyldi í upphafi. Við þm. verðum oft að taka ákvarðanir um mál, sem við á þeirri stundu höfum ekki mjög mikla þekkingu á.

En svo var hv. 6. þm. Reykv. að snúast um það atriði, hvort allir þeir hefðu verið keyptir til fylgis, sem væru með þessu máli. Þær umþenkingar hans eru aðeins eiginn heilaspuni hans. En það, sem fyrir liggur, er þetta: Einn maður fær stóra fjárhæð til þess að koma þessu máli í gegn, og hann fær upphæðina því aðeins, að atkv. falli svo hér á þinginu, að ábyrgðin, sem til þarf, verði veitt af hæstv. Alþ. Hann getur svo fengið öll þessi atkv., kannske út á mælsku sína og kannske sumpart út á það, að hv. þm. eru málinu ókunnugir, og svo getur margt komið annað inn í þetta, t.d. flokksfylgi, og það er skiljanlegast, að einmitt það geti gert hv. þm. Seyðf. auðveldara með að fá fylgi fyrir þessu. (Forseti: Þetta er orðið allt of langdregið og margendurtekið, og vil ég biðja ræðumann að takmarka sig.) Ég tek bendingu hæstv. forseta, en bendi honum á, að ég hef ekki talað annað en í sambandi við málið og fer með rétt mál, og ef hæstv. forseti vill takmarka málfrelsi, verður hann að gera það formlega.

Ég kem þá að því, sem fyrr var frá horfið og hv. 6. þm. Reykv. sveigði að, hversu menn gætu snúizt með þessu máli með ýmsu móti, — t.d. þegar bæjarfógetinn á Siglufirði gat ekki útvegað neitt fylgi við þetta mál. Hann var maður ókunnugur hér með lítinn persónustandard og flokksstandard. Og þó að hann gæti engu komið til vegar í málinu, þá er ekkert á móti því, að orðhagur og sniðugur maður, eins og hv. þm. Seyðf., geti það, og hann er að vinna málið. Hann getur beitt ræðusnilld sinni og kunningsskap sínum til þess. — Og hér hefur gerzt það, sem oft hefur gerzt í parlamentariskum löndum, að það hefur ákaflega mikið verið sótzt eftir stuðningi kommúnista til stjórnarmyndunar. Nú er þetta Rauðkumál áhugamál kommúnista, og það getur verið mjög verulegur þáttur í málinu, að menn hafi viljað gleðja kommúnista og liðka þá til með því að láta þetta mál ganga fram, því að þeir hafa um tveggja ára skeið haft steinhart hjarta gagnvart þeim mörgu biðlum, sem reynt hafa að láta þá láta blíðu sína í té í sambandi við ráðherrastólana. — Þessi rök öll og mörg fleiri, sem mætti fram tína, hníga að því, að nú virðist sem þetta mál hafi nægilegt fylgi, þótt undarlegt sé. En ég vil taka verðugt tillit til okkar ágæta forseta og fara ekki frekar nú út í að telja upp fleira í þessu sambandi og eiga þá kannske eitthvað eftir til seinni umr. málsins, ef það þætti betur henta. Læt ég því útrætt um þennan part ræðu hv. 6. þm. Reykv.

En ég get ekki komizt hjá að ræða hinn partinn af ræðu hv. 6. þm. Reykv., þar sem hann fór — að hætti sumra hershöfðingja — í sóknaraðstöðu, eftir að hann hafði skilið sitt veika vígi eftir lítt varið, eins og nú kom í ljós. Hann hafði leitt rök að því, að ég af eiginhagsmunaástæðum hafi greitt atkv. með því, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur fengið 5 þús. kr. á ári — og stundum minna — til þeirrar stofnunar, sem ég vinn við. Þegar ég svo benti hv. 6. þm. Reykv. á, að þetta fyrirtæki munar ekkert verulega um þessar 5 þús. kr. og gæti verið án þeirra, ef því væri að skipta, og ég hefði einmitt átt verulegan þátt í því um margra ára skeið, að þetta framlag var ekki hærra, þá féll hv. 6. þm. Reykv. frá þessu, og má hann á því sjá, hversu lítið hald honum verður í slíku einu og einu hálmstrái, sem hann grípur í á þeirri röksemdaeyðimörk, sem hann stendur á í þessu efni.

Vænti ég þess, að hæstv. forseti leyfi mér að minnast á bæjarfélag Reykjavíkur fáeinum orðum í ræðulok, svo sem til frekari skýringar og mótvægis við það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði. Hann sagði, að ég teldi mig hafa átt nokkurn þátt í því, að samvinnufélögin yrðu skattfrjáls, og að ég þar af leiðandi ætti að álítast starfsmaður hjá þeim, sem væri með hagsmunabaráttu. Nú ætla ég að gleðja hv. 6. þm. Reykv. og marga aðra, sem líta eins og hann á það mál, með því að upplýsa það, að það er hið mesta oflof, ef ég hef verið tengdur við það að gera samvinnufélögin skattfrjáls, svo mikið oflof, að þótt ég nefni ekki nema 5–6 samvinnufyrirtæki, þá var það svo árið, sem leið, að Samband ísl. samvinnufélaga borgaði 430 þús. kr. í skatt og opinber gjöld, Kaupfélag Eyfirðinga 270 þús. kr., Kaupfélag Skagfirðinga 96 þús. kr., Kaupfélag Þingeyinga 102 þús. kr., Kaupfélag Árnesinga 102 þús. kr. og Kaupfélag Héraðsbúa 57 þús. kr. Mér finnst það því ekki alveg viðeigandi, að hv. 6. þm. Reykv., sem allir vita, að er mjög vel viti borinn maður og er talinn talsverður lærdómsmaður, komi hér með svo staðlausa stafi sem þetta. Þessi sex fyrirtæki, sem ég hef nefnt, eru tekin af handahófi. Og eitt þeirra, Kaupfélag Árnesinga, hefur boðizt til að gefa ríkinu stórkostlega eign, sem mundi kosta nú um 1½ millj. kr., ef það mætti vera skattfrjálst í 15 ár. En þm. neituðu þessu, af því að þeim fannst það skaði fyrir ríkið.

Ég álít heppilegt, að hv. 6. þm. Reykv. kom með þessa fjarstæðu nú, því að það gæti verið, að hann og aðrir hlífðu sjálfum sér framvegis og sköpuðu sér ekki óþarft óorð fyrir fákænsku með því að ætla að tala um skattfrelsi samvinnufélaganna, þar sem þau eru með hæstu gjaldendum í landinu. Og um leið og það er upplýst, að ég á hér ekkert hrós skilið fyrir að hafa greitt fyrir samvinnufélögunum í þessu efni, þá fellur líka sú aðdróttun um sjálfa sig, sem hv. 6. þm. Reykv. beindi til mín um það, að ég hefði verið að vinna mér til fjárgróða hjá Sambandinu. Ég hef verið dálítið undrandi yfir því, að þessi hv. þm., sem mér þykir mjög gaman að tala við og stundum gaman að hlusta á líka, en þó minna, því að hann er ánægjulegri í samtali en í ræðum, þó að þær séu stundum byggðar á töluverðum lærdómi, — mér þykir undarlegt, að hann skuli hafa getað komizt inn á þennan halla, sem hann er kominn, að halda langar ræður til að styðja mál, sem er illa útbúið, hvað röksemdum viðvíkur, og verður eitthvert mesta hneykslismál, ef reist verður þessi verksmiðja og tapið fer að koma fram.

En ég hygg, að hann hafi leiðzt út í þetta af ástandinu í hans eigin bæjarfélagi, þar sem hann er félagsbróðir kommúnista í bæjarstjórn Reykjavíkur. En það er nú svo komið, eins og hv. þm. er kunnugt, að í þessum bæ, sem hv. 6. þm. Reykv. stýrir, er það mikið áhyggjuefni fólksins, sem hann stýrir og prýðir, hvernig framtíð bæjarins muni verða. Menn vita, að það er bókstaflega ekkert, sem þessi bær hefur að lifa af, nema sárfáir mótorbátar og togarar, þegar setuliðsvinnan hættir, og það er verið að selja togarana burt. Og nú er mér sagt, að verið sé að gera samning, aðallega milli tveggja hv. þm. úr Sjálfstfl., sem hér hafa talað, hv. þm. Seyðf. og hv. 6. þm. Reykv., og svo kommúnista, um það, að það eigi að reyna að fá einhvers konar farveg úr innstæðum almennings, ekki óleyfilegan, heldur fyrir ráðstafanir ríkisvaldsins, þegar ný stjórn er komin, — til þess að bjarga Reykjavík við, af því að hún hafi bara ekki á neinu að lifa, þegar setuliðið sé farið. Ég harma það, að þessir samningar skuli vera að gerast, og ég álít, að það hefði verið miklu skemmtilegra, ef hv. 6. þm. Reykv. hefði notað sína ágætu hæfileika til þess að vinna bæinn upp eftir sömu eða eitthvað svipuðum leiðum og samvinnufélögin hafa á 60 árum dregið verzlunina úr höndum útlendrar þjóðar fyrir meira en helming þjóðarinnar og hafa verið sjálfbjargarfyrirtæki hin mestu fyrir allan landslýð og hafa minnst allra fyrirtækja staðið fyrir glæfraframkvæmdum eins og þessi endurbygging Rauðku á Siglufirði mundi verða nú. Ég vildi óska, að hv. 6. þm. Reykv. gæti sem fyrst komizt af þessu plani, sem hann hefur hér lent á, og mætti auðnast að snúa málefnum Reykjavíkur sem fljótast inn á öruggari leiðir en þau virðast vera komin á nú.