02.10.1944
Sameinað þing: 49. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (5162)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hef ráðizt í að flytja þessa till. á þskj. 365 um að skora á ríkisstj. að gera nú þegar ráðstafanir til að auka við húsnæði fyrir geðveikt fólk.

Viðvíkjandi rökstuðningi fyrir till. þá hef ég í raun og veru engu við það að bæta, sem stendur í grg. og ég vænti, að hv. þm. hafi kynnt sér. Ég orðaði þessa till. þannig, að skorað væri á hæstv. stj. að láta nú þegar koma til framkvæmda þá heimild, sem er í 33. lið 22. gr. fjárl. fyrir yfirstandandi ár, þar sem ræðir um aukningu húsrýmis fyrir geðveikisjúklinga, en sá liður, sem þar er um að ræða, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Að láta byggja við geðveikrahælið á Kleppi eða taka húsnæði á leigu fyrir geðveikisjúklinga og verja fé úr ríkissjóði til greiðslu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar hins nýja hælis.“

Þessi till. var flutt af fjvn., og ætla ég, þegar hún er þannig til komin, að mjög brýn nauðsyn hafi verið til þessarar framkvæmdar og hv. n. hafi haft mjög gild rök til að flytja till., þó að ég hafi ekki leitað þau rök uppi í þingtíðindunum, en þau liggja svo nærri, að það er ljóst mál, að hér er um framkvæmd að ræða, sem í sjálfu sér þolir enga bið.

Í grg. hef ég lítillega rætt tildrögin að því, hvernig þessi húsnæðisekla hefur skapazt, og ýmiss konar framkvæmdir, sem yfirstjórn Kleppsspítalans hefur haft með höndum til úrbóta á ýmsum tímum, og úrbótaframkvæmdir, sem þegar tilheyra fortíðinni og ekki hægt að hafa lengur gagn af, eins og þegar notaður var partur af Laugarnesspítalanum, sem nú er brunninn, fyrir eitthvað af sjúklingum o.s.frv., þá sést, þegar athuguð er saga þessa máls, að húsnæði fyrir geðveikisjúklinga hefur, jafnvel frá því að Kleppsspítalinn var byggður, verið að allt of skornum skammti. Gamli spítalinn var byggður fyrir 50 sjúklinga, en þar voru, eins og kunnugt er, að jafnaði um 70 sjúklingar. Þegar svo nýja spítalanum er bætt við, er ætlazt til, að hann taki 150 sjúklinga, en það nægir ekki heldur, þrátt fyrir það, að neytt hefur verið ýmissa bragða til að útvega sjúklingum dvalarstað annars staðar, og þrátt fyrir það, að Reykjavíkurbær hefur haft sérstaka framkvæmd með höndum í því efni með því að reka sérstakt hæli fyrir bæinn, því að Reykjavíkurbær hefur starfrækt heimili á Elliðavatni fyrir geðveika karlmenn, sem lögheimili eiga í Reykjavík, en þótt nokkur bót hafi verið að þessu, þá hefur það ekki nægt. Mér þykir sennilegt, að neytt hafi verið talsverðra bragða til að reyna að útvega þessu fólki, sem hér er um að ræða, spítalavist, en þó hvergi nærri nægilega. En svo kemur hitt atriðið, að þessi heimild, sem síðasta Alþ. samþ., virðist ekki hafa verið neitt notuð, og það er náttúrlega ákaflega bagalegt, að ekki skuli hafa verið notuð sú heimild, sem Alþ. hefur gefið hæstv. stj. til að bæta ástandið í þessu efni, því að heimildin er ákaflega rúm. Hún heimilar stj. kaup, hún heimilar nýbyggingu annars staðar, ef um það væri að ræða, eða að leigja hús, hún heimilar nægilegt fé til stofnkostnaðar í þessu skyni, og hún heimilar fé til rekstrarkostnaðar, svo að hér virðist ekki skorta það á, að þingið hafi haft vilja á að bæta úr þessu ástandi, vitandi sem eðlilegt er um þá miklu nauðsyn, sem á því er að hafa meira spítalarými fyrir geðveikt fólk.

Mér hefur tjáð yfirlæknirinn á Kleppi, að hann hafi gert nokkrar till., ég held allýtarlegar till., til stj. um úrlausn í þessu máli til bráðabirgða, en það virðist ekki vera, að hæstv. stj. hafi treyst sér til að sinna þeim, a.m.k. hefur ekkert það skeð í því efni, að hægt sé að segja, að hafizt hafi verið handa til að auka þetta spítalapláss. Geri ég ráð fyrir, að hæstv. stj. muni geta sagt eitthvað um það, af hvaða ástæðum ekkert hefur verið gert þrátt fyrir heimild þingsins. Þetta er og verður að því er virðist ákaflega illa þolandi ástand fyrir ýmsa, sem undir þessu eiga að búa, og þeir eru landsmenn víðs vegar, en ekki kannske frekar í einum stað á landinu en öðrum. En á þeim stöðum, þar sem geðbilaðir sjúklingar eru, — ég tala nú ekki um bandbrjálaðir eða svo að segja bandbrjálaðir, en það tel ég þá vera, sem þurfa stöðuga vörzlu, og þau tilfelli eru víst ekki svo fá —, þá náttúrlega er þetta ákaflega tilfinnanlegt ástand. Og hlutaðeigendum, þ.e. aðstandendum slíkra manna, hvort sem það eru bæjarfélög eða aðrir, og hvort sem þessir menn eru á einkaheimilum eða í vörzlu á sérstökum stöðum, — hlutaðeigendum þeirra er þetta náttúrlega ákaflega tilfinnanlegt, þó að maður láti kostnaðinn alveg liggja á milli hluta. Og svo kemur þarna annað til greina, að þessir aumingja sjúklingar, sem þarna eiga hlut að máli, geta undir slíkum kringumstæðum alls ekki notið þeirrar umönnunar og læknishjálpar, sem óneitanlega er þeim nauðsynleg eins og hverjum öðrum sjúklingum. Það er kannske of mikið að segja, að við berumst mikið á, Íslendingar. En þó er ekki laust við, að manni detti það oft og einatt í hug, að fé sé eytt nokkuð mikið að óþörfu við ýmsar opinberar framkvæmdir og að á ýmsum liðum, sem ríkisstj. hefur beinlínis afskipti af og oft og tíðum eru lítið snertandi áhrif Alþ., a.m.k. framkvæmdin á þeim, sé efnt til meiri kostnaðar heldur en a.m.k. brýn þörf væri á. En þegar um það er að ræða að hlúa að fáráðlingum í þjóðfélaginu, þá virðist það sorglegt, að framkvæmdin sé dregin mjög úr hömlu. Ég held jafnvel, að það sé ekki svo óglöggur mælikvarði á menningu hvers þjóðfélags, hvernig það býr að olnbogabörnum sínum, hvernig búið er að þeim, sem einhverra hluta vegna, — og ekki sízt, þegar það er vegna óviðráðanlegra sjúkdóma, — verða útundan í lífinu. Og hvað snertir geðbilað fólk, þá er það náttúrlega heilög skylda ríkisvaldsins að reyna að búa að því fólki eins og þörf er á og siðuðu þjóðfélagi sæmir.

Ég vil benda á, að í viðbót við húsnæðisvandræðin, þá hafa nú á stríðstímanum steðjað önnur vandræði að geðveikrahjúkruninni og hið sama, sem landlæknir hefur tjáð mér að eigi sér stað viðvíkjandi hjúkrun fávita, og það eru fólksvandræðin. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að ekki þyki sérstaklega fýsilegt fyrir hjúkrunarkonur að hjúkra geðveiku fólki, þegar nóg störf bjóðast við hjúkrun á öðru fólki og vinna við mörg önnur störf en hjúkrunarstörf. En hví hagar svo til, að hjúkrunarkonur, sem starfa t.d. á Kleppi, þar sem náttúrlega er ákaflega erfitt að vera við hjúkrun í mörgum tilfellum, fá ekkert hærri laun eftir sínum þjónustualdri heldur en þær, sem t.d. taka á móti í röntgendeild eða sjá um röntgenmyndun eða því um líkt, og nefni ég þetta sem dæmi vegna þess, að þessi síðast töldu störf eru léttari, þrifalegri og áhættuminni heldur en hjúkrun geðveiks fólks eða berklaveiks fólks eða á öðru fólki, sem annaðhvort stafar smithætta af eða önnur hætta. Og þetta kann að vera ein af ástæðunum fyrir því, að allt of lítið hjúkrunarlið fæst til þeirra hæla, sem slíkt fólk dvelst á, a.m.k. að því er Kleppi við kemur, og eykur það að sjálfsögðu enn á vandræðin. Þegar bæði þrengist svo á spítölunum, að miklu fleiri sjúklingar eru hafðir þar á hverri deild heldur en ætlazt er til, og svo fækkar þeim, sem fást til að starfa við hjúkrun á þessum stöðum, þá náttúrlega eru vandræðin orðin nokkuð fullkomin, sem að steðja á þessum stöðum. Svo bætist enn annað við, hve erfitt er í landinu um húsnæði, eins og bent er á í grg. till., og það eykur erfiði þeirra, sem verða nú að hjúkra slíku fólki heima. Og eftirspurnin eftir sjúkravist á spítölum eykst líka við þetta. Eins og tekið er fram í grg. till., þá er talið, að ef Kleppur eða geðveikrahæli önnur gætu opnað dyr sínar og sagt þeim að koma, sem vildu og þyrftu að koma, þá er af kunnugum mönnum gert ráð fyrir því, að um 200 nýir sjúklingar mundu bætast við. Það náttúrlega þýðir ekki sama sem það, að 200 nýir bandóðir menn mundu þá koma á sjúkrahúsin, heldur sjúklingar á ýmsu stigi, sem af ýmsum ástæðum þurfa að vera þar undir læknis hendi. Mér er tjáð, að það hafi verið leitazt við í lengstu lög að taka á móti tvenns konar sjúklingum á geðveikrahæli, fyrst og fremst þeim, sem fá snögglega geðbilun, en von er til, að með réttri hjúkrun megi takast að láta ná bata, — komast til sjálfra sín aftur, ef svo mætti kveða að orði —, og þau tilfelli koma oft fyrir, að slíkir menn nái fljótt miklum bata, ef hægt er að fara rétt með þá. Og svo eru aftur hinir, sem reynt hefur verið í lengstu lög að taka á móti, menn, sem eru mjög alvarlega veikir og erfitt eða ókleift er að hafa utan geðveikraspítala. En nú er svo komið, að jafnvel slíkir sjúklingar verða að vera úti á landi hér og hvar, og kostar það of fjár fyrir þá, sem eiga að borga það, sem oftast eru bæjar- eða sveitarfélög, að vakta slíka menn. Og þó er aðbúnaður slíkra sjúklinga hvergi nærri sá, sem hann á að vera eða væri, ef þeir væru á reglulegu sjúkrahúsi.

Sem sagt, þetta er mjög alvarlegt mál. Og mér þótti ekki mega ganga framhjá því án þess að hreyfa því hér á Alþ., sérstaklega þegar þess er gætt, að Alþ. hefur gefið hæstv. ríkisstj. heimildir, sem hafa, að því er virðist, legið ónotaðar, a.m.k. síðan síðustu fjárl. voru samin.

Ég hef aðeins drepið á það í grg. till., að við burtflutning erlendra herja hafi hér losnað ýmiss konar húsakynni, sem herinn hefur notað fyrir sjúkrahús. Og ég geri ráð fyrir, að þau séu þannig úr garði gerð, að eitthvert gagn megi af þeim hafa. Enn fremur gæti verið hugsanlegt, að um meiri eða betri vistarverur hersins gæti verið að ræða til bráðabirgða. Ég skal svo ekki ræða þetta ýtarlegar hér, meðfram af því að ég býst við, að hæstv. ríkisstj. hafi verið á þetta bent. Og hafi hún ekki séð sér fært að hreyfa því máli að koma slíkum hælum upp í þessum húsakynnum, þá hefur hún ákaflega gild rök fyrir því, sem væri gott að fá að heyra. En hitt er augljóst, að stórkostlegur hagur væri að því fyrir alla aðstandendur, ef um bráðabirgðaúrlausn á þessi máli væri að ræða, að geta komið geiðveikisjúklingum á spítala, við skulum segja bráðabirgðaspítala, þó að vikið væri frá þeirri gjaldskrá, sem nú tíðkast á Kleppi, og það þannig væri allmiklu dýrara að hafa sjúklinga á hælisvist á bráðabirgðaspítala en á Kleppi. Því að jafnvel þótt það yrði, þá yrði sá kostnaður ekki eins mikill og við að setja kannske tvo fíleflda karlmenn til þess að passa einn sjúkling. Og svo eru önnur atriði ákaflega þýðingarmikil í þessu sambandi, sem sé, að á spítala væri í té látin nauðsynleg hjúkrun og lækniseftirlit með slíkum sjúklingum.

Ég geri ekki till. um það að sinni, hvort þessu máli verður vísað í n. til meðferðar að lokinni þessari umr., en ég vil minna á það, að till. um heimildina í fjárl. þessum málum viðkomandi kom frá sjálfri fjvn. Það getur vel verið, að það þyki hlýða að fela þeirri n. enn athugun á þessu máli. Ég ætla ekki að gera það að neinu deiluefni, hvort það verður gert eða ekki, því að ég þykist vita, að málið muni hvort sem er verða að fara til n., og er þá varla um aðrar n. að ræða en fjvn. eða allshn. Læt ég þetta á vald hæstv. Alþ. og bíð svo átekta.