03.10.1944
Sameinað þing: 50. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í D-deild Alþingistíðinda. (5168)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. — Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans góðu undirtektir við þetta mál. Hæstv. forsrh. taldi, að það hefði verið eitt sitt helzta áhugamál, er hann tók við yfirstjórn þessara mála, að greiða úr þessum málum. (Forsrh.: Ég orðaði það ekki svona). Ég skildi það svona, en það getur vel verið, að ég hafi misskilið hæstv. ráðh. eitthvað, því að það getur verið, að orð hans hafi fallið eitthvað öðruvísi, en ég var ekki að leita að orðanna hljóðan, heldur að meiningu málsins. Ég verð að segja það, að ef þetta hefur verið hans aðaláhugamál, þá er það sorglegt, að árangurinn skuli ekki hafa orðið meiri en raun ber vitni um.

Hæstv. forsrh. var að tala um það, að hann hefði átt viðræður við geðveikralækni og landlækni um þetta mál, en út úr þeim viðræðum hefur komið lítið jákvæð niðurstaða, og mér skildist á hæstv. ráðh., að hann hefði ekkert viljað taka sér frekara fyrir hendur í málinu, þar sem þá hefði verið komið svo nærri því, að þing tæki til starfa.

Ef svona væri haldið áfram, væri hægt að gera úr þessu eilífðarmál, með því að láta það lenda í eintómum bollaleggingum. Það er rætt við tvo embættismenn, sem hvor leggur sitt til, og loks er ekkert aðhafzt. Svo var hæstv. ráðh. að tala um það, að húsameistari ríkisins væri enn ekki búinn að leggja fram sínar till. En hver er húsbóndi þessa húsameistara, ef það er ekki ríkisstj. sjálf? Var það þá ekki hægt fyrir hana að fá annan húsameistara til þess að gera uppdrátt að þessu, ef þessi brást henni? Það er ekkert annað en viðbára að láta svona aðkallandi framkvæmdir bíða vegna eins húsameistara, þegar nóg er til af húsameisturum í þessu landi, til þess að ekki þurfi að stranda á teikningum að byggingunni. Mér fannst það skína í gegn hjá hæstv. ráðh., að ráðstafanir hans í þessu máli hefðu einkum beinzt að því að leita álits landlæknis og geðveikralæknis, og að þar sem komið hefði fram meiningamunur hjá þessum læknum, þá hefði ríkisstj. ekki séð sér fært að gera meira í málinu.

En málið má ekki heldur stranda á þessu. Ríkisstj. má ekki standa ráðalaus, þótt tveimur embættismönnum hennar beri ekki saman. Hún verður sjálf að ráða fram úr málunum. Hæstv. forsrh. sagði, að fólksleysið væri erfitt viðfangs, og það hef ég fengið upplýsingar um, að muni vera rétt hjá honum. En till. yfirlæknisins á Kleppi gekk í þá átt, eins og hæstv. ráðh. drap á, að finna bráðabirgðalausn á þessu máli þann veg, að betur mætti ráðast fram úr þessu fólksleysi. Og þar kom það fram, að yfirlæknirinn á Kleppi hefur sótzt eftir því að reyna að hreiðra um sig, — ég segi enn til bráðabirgða, því að þetta er ekki til frambúðar, — með sína sjúklinga hér í bænum, þar sem rafmagn, vatnsleiðsla og skolpleiðsla er við höndina og þar sem líka bráðabirgðahælið væri svo í sveit komið, að unnt væri að styðjast við hjúkrunarkrafta frá fólki, sem annars vinnur önnur störf, t.d. húsmæðra, sem lært hafa hjúkrunarfræði og mundu vera fáanlegar til þess, ef hælið væri í bænum, að taka nokkurra klukkutíma vakt á dag við hjúkrun á slíku hæli, — náttúrlega fyrir háa borgun. Þetta mun hafa vakað fyrir yfirlækninum á Kleppi. En Hafravatnshugmyndin getur verið ákaflega mikils virði í framtíðinni til lausnar kannske báðum þeim málum, sem hæstv. ráðh. minntist á. En hún verður háð sömu annmörkum hvað fólkshald snertir og hver annar spítali utan við bæinn. Og þetta þarf að lagfæra. Og að því er þessa hugmynd snertir, þá er það hún, sem strandar á þessum blessuðum húsameistara til þess að framkvæma það, sem hann á að framkvæma í ríkisins þarfir. En geti hæstv. ríkisstj. ekki fengið þennan mann til þess að skila teikningu sinni, þá á hún bara að snúa sér til annars húsameistara. Í svona þýðingarmiklu máli á ekki að binda sig við það, hvort maðurinn heitir húsameistari ríkisins eða ekki. Það verður þá að notast við aðra krafta, ef húsameistari ríkisins getur ekki unnið sín störf eins og ætlazt er til.

Hv. þm. Barð. minntist á það, að það væri til lítils gagns að bæta við byggingum á Kleppi fyrir geðveikisjúklinga, — eiginlega kæmi það í bága við aðrar framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru í nágrenni Klepps. Þetta mun vera rétt. En það snertir í raun og veru ekki lausn þessa máls, sem hér liggur fyrir, því að hér er um að ræða úrræði til bráðabirgða, en ekki framtíðarskipun eða framtíðarstað fyrir geðveikrahæli, a.m.k. ekki þann veg, að það verði nein úrbót til þess að ráða bót á því vandræðaástandi, sem er hvað hælisvist fyrir sjúklinga snertir nú. Sem sagt, þó að geðveikraspítalinn nýi, sem hv. þm. Barð. telur, að verði að vera einhvers staðar annars staðar en á Kleppi, — og ég skal ekki mæla á móti því, að svo verði að vera í framtíðinni —, þó að honum væri valinn staður í sveit, langt frá skipasmíðastöð og öðrum skarkala, sem ég játa, að sé ekki heppilegt nágrenni fyrir slíkan spítala, og þó að húsameistari eða aðrir væru settir í að gera nýjar teikningar að spítala og heilbrigðisstjórn réði ráðum sínum um það, hvernig hann ætti að vera, þá er það annað og talsvert óviðkomandi því, sem hér er um að ræða.

Það, sem um er nú að ræða, er að gera bráðabirgðaráðstafanir í þessu máli, ráðstafanir, sem hæstv. ráðh. segist hafa verið að bollaleggja við báða læknana í sumar, sem nefndir hafa verið. En ráðh. segir, að því miður hafi þessar bollaleggingar ekki borið tilætlaðan árangur.

Ég vil nú vænta þess, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, sæki að ráðum annaðhvort annan þessara lækna eða báða, og gæti þá n. heyrt till. þeirra sameiginlega eða þá hreint og beint farið eftir till. annars hvors þeirra. Því að hitt, að ganga þarna á milli tveggja heysátna og vita aldrei, að hvorri á að snúa sér, það leiðir ekki að neinni niðurstöðu í málinu. Náttúrlega verður maður að álíta, að yfirlæknirinn á Kleppi sé bærastur til þess að dæma um það, hvað er möguleg lausn um spítalavist, þegar um geðveikisjúklinga eingöngu er að ræða. En ég geri það ekki að ágreiningsefni, hvort þessu máli verður vísað til hv. fjvn. eða heilbr.- og félmn., eins og hæstv. ráðh. stakk upp á.