20.11.1944
Sameinað þing: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í D-deild Alþingistíðinda. (5175)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Á fjárl. fyrir árið 1944 er í 23. lið 22. gr. ríkisstj. veitt heimild til að veita fé til þess að byggja við hælið á Kleppi, án þess þó að nokkur fjárhæð sé tiltekin. Þetta sýnir, hversu fjvn. hefur álitið þetta mál mikilsvert. Nú hafa engar framkvæmdir átt sér stað, og því er þetta hér flutt. En úr framkvæmdum varð ekki, sökum þess að ekki hafði farið fram nægur undirbúningur, til þess að verkið yrði hafið. Þegar allshn. hafði fengið þetta mál til meðferðar, tók hún að kynna sér orsakir þess, að ekkert hafði verið gert, og hverjar líkur væru til, að hafizt yrði handa til úrbóta í þessu máli. Hún gerði fyrirspurnir til landlæknis og yfirlæknisins á Kleppi. Úr báðum stöðunum komu þau svör, að brýn nauðsyn væri að ráða bót á því ástandi, er nú ríkir í þessum málum. Húsrúm fyrir geðveikt fólk væri allt of lítið, þannig að þörf myndi vera fyrir húsrúm fyrir á fimmta hundrað sjúklinga, en eins og nú er ástatt, væri ekki rúm fyrir nema um 200 á Kleppi, auk 25 sjúklinga á spítalanum í Víðihlíð og nokkurra á öðrum stöðum. Landlæknir gerði ráð fyrir, að samkvæmt Evrópumælikvarða gætum við reiknað með um 600 geðveikisjúklingum. Nú koma þau tvö sjónarmið til greina, hvort byggja skuli einn stóran spítala eða fleiri smærri úti um land. N. taldi það ekki heyra undir sig að ákveða neitt hér um á þessu stigi málsins, en taldi rétt að fela ríkisstj. að athuga þetta vandlega. En vert er að gæta þess, að innan tíðar mun rísa upp mannvirki við Elliðaárnar, svo og skipasmíðastöð í nágrenni Klepps, og mun þetta mæla á móti að byggja þennan spítala þar. Um þetta voru báðir læknarnir sammála; þó var landlæknir ekki frá því, að þar mætti byggja deild fyrir órólega sjúklinga, þótt aðalbyggingin yrði annars staðar. Viðvíkjandi því að byggja spítala úti á landi, þá taldi landlæknir ekki ómögulegt, að það gæti komið til greina, þó varla á þann hátt, að þau yrðu reist í sambandi við önnur sjúkrahús. En yfirlæknirinn leit svo á, að ekki yrði hjá því komizt að hafa sérfróða lækna við þessi sjúkrahús. Höfuðvandamálið þessu viðvíkjandi töldu þó báðir læknarnir væri skortur á hjúkrunar- og starfsliði til spítalanna. Bent var á, að til væri hús uppi við Reyki, sem mundi nothæft, ef starfslið væri fyrir hendi, og sama er að segja um hús austan fjalls við Kaldaðarnes. Virðist ljóst, að helzt mundu líkur til að fá starfsfólk að sjúkrahúsi, sem reist væri og starfrækt í Reykjavík eða nágrenni hennar.

Dr. Helgi Tómasson lagði til, að komið yrði á fót hæli hér í bænum með einhverju móti, t.d. fá til þess braggahverfi. N. taldi sig ekki geta mælt með þessu. Þá kvaðst yfirlæknirinn mundu geta útvegað starfsfólk, ef hann mætti hækka kaup þess um 100%. Þetta áleit n. ekki vera færa leið, með því að á þann hátt gæti myndazt kapphlaup á milli sjúkrahúsanna, án þess nokkur bót væri ráðin á málinu í heild. Einnig var bent á, að nú væru launal. til athugunar og þar væri væntanlega gerður munur á launum hjúkrunarliðs við geðveikraspítala og aðra spítala. Enn bar það á góma í n., að bráðabirgðalausn þessa máls gæti orðið sú að taka einhvern hluta af kjallara sjómannaskólans og útbúa þar nokkrar sjúkrastofur. N. gerir þetta þó ekki að till. sinni, en með því að nú hefur dr. Helgi Tómasson mælt fastlega með, að þessi leið verði farin, þá vil ég láta þetta koma fram; mun það þá koma undir félmrh. að ræða þetta við landlækni og ríkisstj. Dr. Helgi gerir sér vonir um, að á þennan hátt muni hjúkrunarkonur, sem giftar eru hér í bæ, fást til að hjúkra og hafa það sem aukaatvinnu. N. leggur til: Í fyrsta lagi, að þegar sé hafinn undirbúningur af hálfu ríkisstj. til að leysa þessi mál; í öðru lagi leggur n. til, að Alþ. feli ríkisstj. að bæta úr þeirri brýnu þörf, að sjúklingar utan af landi, sem eru heimilum alls ofviða, verði fluttir á spítala. Mikið af sjúklingum, sem nú dveljast á Kleppi, eru einungis taugaveiklaðir, en margir sjúklingar úti á landi eru að leggja heil heimili í rústir. Þetta er að sjálfsögðu ekki vandalaust, því að erfitt mun vera að skipa yfirlækninum að skipta á lítið veikum sjúklingum, sem þar eru nú, og meira veikum sjúklingum utan af landi, einkum þar eð læknirinn hefur þá skoðun, að meiri þörf sé að lækna sjúklingana til fulls en taka stöðugt inn mikið veika sjúklinga.

Víðihlíð mun geta tekið nokkru fleiri sjúklinga, ef þar fengist starfsfólk. Sömuleiðis tel ég líklegt, að takast mætti að fá húsrúm fyrir veiklaða sjúklinga t.d. á Húsavík, en sjúkrahúsið þar varð að hætta vegna skorts á starfsliði.

Ég vil svo að lokum geta þess, að allshn. leggur á það mjög mikla áherzlu og væntir þess, að hæstv. félags- og heilbrmrh. geri sitt ýtrasta til þess, að úr þessu verði leyst eins fljótt og auðið er, með tilliti til þess, að fyrra þing hefur raunverulega samþ. takmarkalausa fjárhæð til að geta leyst úr þessum vandræðum.