20.11.1944
Sameinað þing: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í D-deild Alþingistíðinda. (5177)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Ég er að vísu þakklátur n. fyrir það starf, sem hún hefur lagt í að rannsaka þetta mál, en þó hefði ég óskað og get tekið undir það með hv. 6. þm. Reykv., að hún hefði komið með gagngerðari till. til úrbóta en hún hefur gert. En ég þykist vita, að um mikla örðugleika sé að ræða á þessu sviði og að hún hafi orðið þeirra vör líka. Afleiðing þess er sjáanleg á till. hennar, án þess þó að tillit sé tekið til tillagnaleysis hennar. Það ástand, sem blasir við í þessu efni, er svo alvarlegt, að það krefst handfastari aðgerða en sjáanlegar eru á því, sem hér liggur fyrir, og heyranlegar eru, þegar talað er við heilbrigðisyfirvöld landsins.

Yfirlæknirinn á Kleppi hefur bent á bráðabirgðaúrbætur, sem n. hefur varpað frá sér, þ.e.a.s. að notast við bragga í bili og svo hitt, sem drepið hefur verið á, að nota nokkuð af húsnæði sjómannaskólans til bráðabirgða. Þá má geta þess, að skoðanamunur virðist vera milli landlæknis og yfirlæknisins um bráðabirgðaúrlausn þessa vandamáls.

En ástandið er nú svo hræðilegt, að málið þolir enga bið. Ég veit til þess, að fílefldir karlmenn verða að vera yfir sjúklingum á daginn og að loka verður þá í fangaklefum um nætur.

Tillit til þessa hræðilega ástands hlýtur að hefla vankantana af þeirri bráðabirgðalausn, sem bent hefur verið á, og betri er lítilfjörleg lausn en engin.

Hús sjómannaskólans er geysistórt, og er vel athugandi, hvort ekki er hægt að nota nokkurn hluta kjallarans sem bráðabirgðahúsnæði fyrir geðveikt fólk, án þess að skemma starfsemi stofnunarinnar.

Ég býst ekki við, að eftir þessu hafi verið leitað við skólastjóra sjómannaskólans. Stýrimannaskólinn hefur verið nefndur í þessu sambandi, en húsrúm hans er svo takmarkað, að slíkt getur ekki komið til greina. Ég vil óska, að bót yrði ráðin á þessu slæma ástandi sem fyrst. Það dugar ekki að horfa í kostnaðinn, sem yrði meiri í bili en kostnaðurinn við þá sjúklinga, sem nú eru á Kleppi.

Það er tvennt, sem nú þegar þarf að bæta úr: fólksekla og húsnæðisskortur. Það þarf engan að undra, þótt skortur sé á þjónustu- og hjúkrunarkonum á Kleppi. Þær bera ekki meira úr býtum þar en annars staðar, en þar mega þær búast við glóðarauga og pústrum. Það er því engan veginn réttmætt, að þær búi við sömu launakjör þar og á venjulegum spítölum. En þegar á það er bent, að starfsfólk fáist máske með því að bjóða hærra kaup en á venjulegum spítölum, kemur í ljós, að það rekst á taxta, sem gerður var við hjúkrunarkvennafélagið. Fleiri agnúar kunna að vera hér á.

Landlæknir taldi, að kvenfólk vildi ekki vera við hjúkrunarkvennastörf nú og að hjúkrunarkvennaeklan stafaði af því, en ég held, að flestir vilji vera við þann eldinn, sem bezt brennur.

Aðgerðaleysi í þessum efnum hlýtur að leiða til enn meiri vandræða en eru þegar í dag. Þegar á það er litið, mega menn ekki vísa á bug þeim till. um bráðabirgðalausn, sem fram hafa komið, með þeim rökum einum, að leiðinlegt sé að búa í bragga. Nauðsynin hlýtur að ganga fyrir, og verður að neyta einhverra ráða, og mun hér sannast hið forkveðna, að neyðin kennir naktri konu að spinna.

Þetta á við þá stórkostlega geðveiku, sem virðast vera bitbein þjóðfélagsins og enginn vilji hafa, þá sem Helgi Tómasson kallar kroniskt geðveika. Það er eðlilegt, að læknir, sem leitast við að lækna sjúklinga sína, vilji ólíkt heldur taka inn á spítalann fólk, sem fær köst, en getur losnað við þau, eða fólk með hugarvíl og aðra sinnisveiki, sem batnað getur við skynsamlega meðferð og aðbúð. En þessir menn, sem ekki þykir von um, þurfa einhvers staðar sómasamlegt skýli, og þjóðfélaginu ber skylda til að sjá þeim fyrir því. Ef það er athugað ofan í kjölinn, hvaða aðbúnað t.d. þeir menn hafa, sem loka þarf hverja nótt í klefum, þarf ekki að láta sem ketill falli í eld, þótt talað sé um að taka bragga eða kjallara stýrimannaskólans og breyta í íbúðir fyrir þetta fólk.

Eftirtektarvert er, hve þetta geðveikramál hefur átt þröngum skilningi að mæta og átt örðugt uppdráttar hjá fyrrv. ríkisstjórnum. Minna vil ég á, að fyrrv. forsrh. lýsti yfir, að hann hefði hinn mesta áhuga á að bæta úr, en þar við situr. Í áliti allshn. á þskj. 502 er fylgiskjal frá landlækni, og vil ég lesa part af því með leyfi hæstv. forseta:

„Vildi ég eiga þess kost að ræða mál þetta ýtarlega við nefndina. Jafnframt mundi ég vilja láta bera á góma, hver höfuðnauðsyn er á því, að ekki dragist lengur að hefja ráðstafanir til að auka til frambúðar sjúkrahúsrými fyrir geðveika sjúklinga, til þess að ekki þurfi að koma til þess, þegar úr raknar starfsfólksvandræðunum, að þá verði eftir sem áður ekkert unnt að gera vegna húsnæðisvandræða. Hef ég árum saman aldrei þagnað á því, hver höfuðnauðsyn er að láta verða úr því að reisa hina margfyrirhuguðu deild fyrir órólega sjúklinga á Kleppi, en allar ríkisstjórnir og Alþingi jafnan daufheyrzt við. Og meðfram þess vegna er nú svo komið sem komið er.“

Þetta segir landlæknir 16. okt. 1944, og býst ég við, að allir þm. muni samþ. með mér, að það sé þung ákæra á Alþingi og ríkisstjórnir, sem að völdum hafa setið undanfarin ár.

Hv. 6. þm. Reykv. áleit það koma til mála, að allshn. tæki þetta enn til athugunar og framkvæmda í samvinnu við félmrh. Ég vil mjög gjarnan taka undir þá ósk og vona, að hæstv. ráðh. veiti nú þegar nokkur svör um hvað hann hyggst fyrir í málinu. Hef ég þar fyrst og fremst í huga bráðar bætur núverandi ástands, en sízt vil ég vera móti því, að undirbúin sé nú þegar framtíðarlausn geðveikramálanna. Allir vita, að til þess undirbúnings þarf langan tíma, og eitthvað hagnýtt verður að gera tafarlaust. Að öðru óreyndu vil ég treysta ríkisstj. til þess að ganga í málið af dugnaði. Ég væri þess og fýsandi, að n. yrði áfram stjórninni til ráðuneytis um lausn vandans. Ég vænti svara ráðh.