24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (5183)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. álítur, að ég hafi smitazt af ræðu hv. 6. þm. Reykv. Það kann að vera að einhverju leyti rétt, ef það er lagt þannig út, að ég lét í ljós eftir ræðu hans þá ósk, að n. hefði gert ýtarlegri till. um þetta mál heldur en er að finna á þskj. 502. En ég skal játa, að mér kemur ekki til hugar að gera þær kröfur til n., að hún geri þær ýtarlegustu till. um framkvæmdir.

Ég skal taka undir það, sem hv. frsm. segir, að við verðum, og mér er það mjög ljúft, að treysta réttdæmi og góðvilja þess ráðh., sem um þetta mál á að fjalla, og þeirra sérfróðu manna, sem hæstv. ráðh. getur kvatt sér til aðstoðar til að leysa þetta mál.

Það er að vísu svo, að till. n. ganga lengra en þær till., sem ég setti niður á pappírinn. En það er alltaf bezt að hafa það, sem sannara reynist í hverju máli, og ég get vel fallizt á, að það beri að líta á fleiri hliðar þessa máls en þá, sem mest er um rætt og mestra og fljótastra aðgerða þarf, en það eru bráðabirgðaaðgerðirnar í þessu máli. Hitt er alveg rétt, sem hv. frsm. minntist á, að það eru stærri verkefni, sem bíða, sem sé að koma betra skipulagi á það í framtíðinni, að þetta húsnæði sé á hentugum stöðum. Það virðist vera, að þeir, sem rannsökuðu skipasmíðastöðvarstaðinn, hafi alveg gleymt, að þar stendur geðveikraspítali. En það er fleira, sem hér kemur til greina. Það er nú orðið ljóst, að Kleppur, sem á sínum tíma var langt frá annarri byggð bæjarins, er nú orðinn talsvert leiðinlega nálægt ýmsum íbúðarhverfum, sem nú eru að rísa upp. Eru þær byggingar nú komnar nálega heim að túngarði á Kleppi. Þarf það engrar skýringar við, hversu óviðfelldið það hlýtur að vera fyrir fólk að búa svo nærri geðveikrahæli. Ég held því alls ekki fast við, að það eigi endilega að samþ. það orðalag, sem mín till. hefur, og ég get vel ímyndað mér og meira að segja fallizt á, að það sé réttara að líta lengra fram í þessu máli, eins og hv. n. gerir.

Ég verð að segja, að ef það er, sem ég álít, að sé engin ástæða til að efa, rétt hermt hjá hv. frsm., að yfirlæknirinn á Kleppi álíti sína kollega ekki hafa meira vit en svo á geðveikimálum, að eins gott væri að fela slíka sjúklinga í umsjá járnsmiða, að ég mundi hafa tilhneigingu til að taka mér varúð á fullyrðingum frá slíkum sérfræðingi í geðveikimálum. Þetta er vitanlega talað af leikmanni, sem hefur ekkert vit á sjúkdómum, en ég verð þó að segja það, að mér finnst, að svona fáránleg fullyrðing hjá sérfræðingi sé sem sagt ófær.

Viðvíkjandi brtt. hv. þm. S.-Þ. á þskj. 535, þá er þar lagt til, að ákveðin bygging sé tekin til þessara nota, sem sé nokkur hluti af kjallara sjómannaskólans. Ég hefði tilhneigingu til að fylgja þessari till., ef hún væri framkvæmanleg. Hitt er annað mál, hvort rétt er að hafa eina deild geðveikispítala landsins á Akureyri.

Að öllu samanlögðu finnst mér, að þær aths., sem fram hafa komið frá hv. þm. S.-Þ., hv. n. og öðrum, hljóti að geta orðið dálítil ábending fyrir hæstv. stj.,

sem maður hlýtur að treysta til að taka þetta mál til meðferðar, svo aðkallandi sem það er.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja um þessa till. Ég skal sem sagt alveg játa, að ég tel, að málið í heild sinni þurfi að athugast eins og hv. n. leggur til, en það dregur ekkert úr því, að óhjákvæmilegt er að bæta sem allra fyrst úr þeirri brýnu nauðsyn, sem er á því að gera nú þegar eitthvað til bráðabirgða.