24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í D-deild Alþingistíðinda. (5184)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Ég hef áður við umr. um þetta mál látið í ljós, að mér er fyllilega ljós hin brýna þörf á að gera tafarlaust einhverjar bráðabirgðaráðstafanir. Hins vegar er mér eins og sakir standa ekki ljóst, hvernig á að gera þær, en ef þessi till. verður samþ., og raunar hvort sem er, mun ég ráðfæra mig við þá, sem mest hafa vit á þessum málum og áhuga hafa fyrir þeim til að reyna að koma einhverju til leiðar í því efni, sem till. fer fram á.

Við erum í aðalatriðum sammála um þetta mál. En út af till. hv. þm. S.-Þ. vildi ég benda á, að með því að koma henni á framfæri er hann búinn að ávinna það, sem hann ætlaði sér með henni. Ég mun fúslega taka efni hennar til athugunar, hvort sem hún gengur til atkv. eða ekki, og að sumu leyti væri viðkunnanlegra og heppilegra, að hún gengi ekki til atkvæða nú. Það verði bæði athugað um viðbótarbyggingu á Akureyri og að fá hluta af sjómannaskólanum til afnota. Mun það fremur auðsótt, ef skólinn þarf ekki á því húsrými að halda í bili, en skólinn hefur sérstaka yfirstjórn, og er ekki heppilegt að gera um það þingsamþykkt að henni fornspurðri.

Þar sem gert er ráð fyrir, að framtíðarlausn málsins þurfi sérstakan undirbúning, verður bið á henni. Verður þá fyrst að íhuga, hvort rétt muni að skipta geðveikrahæli landsins á tvo staði og efla geðveikraspítala á Akureyri. Ef horfið verður að því að flytja Klepp þaðan, sem hann er nú, verður hælið byggt í nágrenni við Reykjavík og helzt þar, sem hægt yrði að ná í heitt vatn. Vel má vera, að enn sé hægt að nota Klepp nokkur ár, en byggja viðbótarbyggingu þar, sem hælið ætti allt að rísa seinna. Það er ekki hyggilegt að gera ráð fyrir geðveikrahælum hér og þar úti um landið, því að fagkunnátta notast svo bezt, að hælið sé eitt. Hvort sem till. hv. þm. S.-Þ. kemur til atkvæða eða ekki, mun ég taka til athugunar það, sem þar er lagt til.