30.11.1944
Sameinað þing: 68. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í D-deild Alþingistíðinda. (5190)

146. mál, húsnæði fyrir geðveikt fólk

Jóhann Jósefsson:

Ég vildi leyfa mér, af því að mér hefur verið bent á það, að vekja athygli á því, án þess að ég geri um það neina till., hvort ekki sé hugsanleg lausn á þessu máli, að samkomulag geti tekizt um það að hafa einhver afnot af Korpúlfsstöðum fyrir þann spítala, sem hér um ræðir. Ég veit, að hér er um eign að ræða, sem ríkið á ekki, en ég vil benda hæstv. stj. á þann möguleika, sem þarna virðist að kunnugra manna dómi vera fyrir hendi.

Korpúlfsstaðir eru að vísu nokkuð notaðir nú fyrir fólk, sem er húsnæðislaust, en hvergi nærri til fulls; m.a. er mér skýrt frá því, að þar séu góðar íbúðir notaðar sem lagerpláss fyrir húsgögn fyrir ýmsa bæjarbúa, og mundi hins vegar mega fá þess háttar pláss á öðrum stöðum. Sá, sem vakti athygli mína á þessu, benti á það, að ef um samkomulag væri að ræða við bæinn í þessum efnum, þá mundi ríkið geta látið af hendi eitthvað af Syðra-Langholti til bæjarins, til móts við það, ef bærinn þættist missa of mikið með því að láta slík afnot af hendi af Korpúlfsstöðum. En búskilyrði á Korpúlfsstöðum er mér tjáð, að ekki séu notuð nema að litlu leyti. Nú er það svo, að þarna er um mjög reisuleg hús að ræða; þarna er mikið ræktað land og miklir möguleikar til þess að hafa stórt bú. Virðist því ekki óhugsandi, að þarna gæti í framtíðinni orðið spítalapláss, þar sem allir vita, að geðveikrahælið þarf að flytjast burt þaðan, sem það er nú. En þetta er aðeins ábending frá minni hálfu til hæstv. ríkisstj. að taka þennan möguleika til athugunar. Aðrir hv. þm. hafa bent á úrlausn, sem ekki hefur fengið náð fyrir augum þingsins. Ég skal ekki segja um það, hvort þessi hugmynd á rétt á sér, en mér finnst eftir atvikum, að hún sé þess virði, að hún sé athuguð. Í þessum húsakynnum munu vera öll þau þægindi, sem þarf til þess að fólk gæti hafzt þar við, frárennsli, vatnsrennsli o.s.frv. Ég vildi ekki láta undir höfuð leggjast að koma þessari uppástungu á framfæri, þar sem góður og gegn borgari þessa bæjar heimsótti mig til þess að ræða um þessa úrlausn málsins.