24.11.1944
Sameinað þing: 67. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (5200)

186. mál, alþjóðlega vinnumálasambandið

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vildi aðeins þakka hæstv. félmrh. og ríkisstj. fyrir að bera fram þessa þáltill., sem er beint framhald till. minnar, er samþ. var 15. okt. 1943. Ég tel einnig, að af hálfu fyrrv. ríkisstj. hafi verið vel að málinu unnið með því að velja ágætan fulltrúa fyrir landsins hönd á þingið í Philadelphíu. Kemur vel fram í hinni glöggu skýrslu hans, hve þýðingarmikið ýmsir fulltrúar á þinginu töldu, að Ísland gengi í þessi samtök. Það er að mínu viti mjög nauðsynlegt, bæði vegna álits og beinna hagsmuna, að við gerum það sem fyrst, og er það í samræmi við yfirlýsing ríkisstj. að neyta allra slíkra möguleika til þátttöku í alþjóðasamstarfi.

Ríkisstj. hefur á stefnuskrá sinni að koma á almennum tryggingum á næsta ári, og væri þá talsverð stoð í að hafa samráð við þessa stofnun og skrifstofu hennar. Ég vona, að þetta sé spor í áttina til að fullkomna félagsmálakerfið á Íslandi.