01.03.1945
Efri deild: 139. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (5226)

292. mál, stýrimannaskólinn í Reykjavík

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur athugað þetta mál á þskj. 1238 og borið saman við gildandi l. nr. 100 frá 23. júlí 1936, um stýrimannaskólann í Reykjavík, og orðið þess áskynja, að það sé ekki gerlegt að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, meðal annars vegna þess, að í 6. gr. l. er ákvæði, sem ekki er tekið upp í þetta frv. og fellur því alveg burt, ef frv. er samþ. óbreytt. Það er því nauðsynlegt að gera breyt. við 3. gr. frv., eins og það liggur nú fyrir, þannig að þetta ákvæði um staðarákvarðanir með radíómiðunum komi aftur inn í frv.

Það er einnig nauðsynlegt að gera breytingar á 5. gr. frv., sem eru fólgnar í því að gera þar ýmsar leiðréttingar. T.d. er ætlazt til þess, að orðið „meira“ í upphafi gr. falli niður, eins og stendur í frv., en þetta orð kemur fyrir 4 sinnum annars staðar í þessari sömu gr. Svo að þótt orðið „meira“ sé fellt niður í upphafi gr., þá stendur þetta orð enn í l., og þarf því að fella í burt það orð alls staðar á þeim stöðum, þar sem það á ekki lengur heima, eftir að búið er að breyta frv. Þessa leiðréttingu er að finna á þskj. 1257 undir a-lið, 2. tölulið.

B-liðurinn er ekki um annað en að færa þarna til til samræmis við þá breyt., sem búið var að gera.

Þá er c-liðurinn um það, að í stað orðsins „segulskekkjumælinum“ komi: stefnumagnsmælinum, en ekki stefnumagnsmælirinn; þetta kemur af því, að þess hefur ekki verið gætt, í hvaða falli það ætti að standa, þegar það kæmi saman við meginmál frumvarpsins.

Þá kemur d-liðurinn. Þar er nokkuð breytt orðalagi, þannig að aftan við kaflann komi ný málsgr., svo hljóðandi: Þekking í stórbaugskortum og siglingu eftir stórbaug, í staðinn fyrir, að í frv. er: „Sigling eftir stórbaug og stórbaugskort.“

Að síðustu er e-liðurinn, að aftan við gr. komi ný málsgr., sem hljóðar þannig, og er tekin upp málsgr. alveg eins og hún er í frv. á þskj. 1238: „Ráðherra er heimilt, að fengnum till. skólastjóra, að ákveða, að aðeins skuli kennd tvö af hinum erlendu tungumálum til farmannaprófs.“ Þetta er nokkuð skýrara hér, hvar það eigi að koma í l., svo að ekki verði villzt á því, að það á að koma á eftir þeim kafla l., sem ákveður, hve mörg tungumál á að kenna til þessa prófs.

Flestar þessar breytingar eru í raun og veru ekki nema orðalagsbreytingar og leiðréttingar á því, sem af vangá hefur fallið niður, þegar frv. var samið.

En þetta hefur allt verið borið undir skólastjóra stýrimannaskólans og einnig borið saman við gildandi lög.

Nm. eru sammála um, að þessar breyt. séu nauðsynlegar, til þess að frv. geti náð því, sem því var ætlað.

Leggur n. einróma til, að þær verði samþ., eins og þær liggja fyrir á þskj. 1257.