15.12.1944
Sameinað þing: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í D-deild Alþingistíðinda. (5250)

188. mál, brú á Jökulsá á Fjöllum

Jörundur Brynjólfsson:

Það er fjarri því, að ég ætli að vera á móti samþ. þessarar till. Ég veit fullkomlega nauðsyn hennar. Það er því á allan hátt rétt, að Alþingi greiði, eftir því sem unnt er, fyrir því, að þetta mannvirki komist sem fyrst í framkvæmd. En fyrst þykkjur hv. þm. og skoðanir eru nú svo næmar fyrir því, að þannig sé greitt fyrir þessari umferð, sem ég tel sjálfsagt, þar sem vegalengdarmunur er 90 km eftir því sem talið er, þá er ég öruggur þess, að ekki muni standa á hv. þm. til að greiða fyrir samgöngum, sem oft verða að eiga sér stað, þar sem um 160 km krók er að ræða. Á ég þar við brú á Hvítá í Árnessýslu og þær ferðir, sem þykja þýðingarmestar, því að þótt mikil umferð sé yfir Hvítá á Iðu, þá er þó tilfinnanlegast, þegar verður að taka þennan krók í lækniserindum, því að eins og kunnugt er, klýfur Hvítá læknishéraðið í tvennt og veldur þessum krók, sem ég hef nefnt, fyrir helming íbúa læknishéraðsins. Mér þykir því vænt um þann velvilja til nauðsynlegra brúargerða, sem fram kemur hér, því að þá óttast ég ekki um liðsemd hv. þm. Ég veit, að þeir eru ekki þannig skapi farnir, að þeir láti standa á sér, þegar fullkomna á réttlætið líka í þessum efnum.