16.12.1944
Sameinað þing: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (5263)

158. mál, byggingarmál

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Þessa till., sem hér liggur fyrir, hefur n. athugað, og þótt hún hafi ekki að öllu leyti orðið sammála, er það í raun og veru lítið, sem á milli ber. Það er helzt það, að minni hl. vill taka í einu öll byggingarmál landsins. Við teljum þau vinnubrögð heppileg og affarasæl að taka byggingarmál í landinu fyrir í einu, athuga alla löggjöfina og endurskoða í heild, en ekki að taka nokkurn hluta af byggingarlöggjöfinni, þann hlutann, sem um kaupstaði og kauptún fjallar, en sleppa hinum, sem á við sveitirnar. Það má sjá í skýrslu, sem nýkomin er út, að byggingarþörfin er eins mikil í sveitum og kaupstöðum. Það er talið, að mig minnir, að 3900 íbúðir í sveitum séu svo lélegar, að þær þurfi að endurnýja, og er það rúmur þriðjungur þeirra íbúða, sem eins er ástatt um á öllu landinu. Ég tel alveg víst, að jafnvíðsýnn maður og hv. 6. þm. Reykv., sem er flm. þessarar till., muni sjá þetta og sannfærast um, að enginn ágreiningur var innan fjvn. um nauðsyn þess að greiða eitthvað fram úr byggingarmálum vorum. Minni hl. n. taldi, að jafnhliða því að greiða fram úr byggingarþörf kaupstaðanna þyrftu sveitirnar þess einnig með, því að eins og við vitum, hefur mikið dregið úr húsabyggingum í sveitum á síðustu árum. Ég veit um fjölda íbúða í sveitum, sem búið er í núna, sem væru úrskurðaðar óhæfar til íbúðar, ef í kaupstað væru. Við teljum það heppilegast og ódýrast, að íbúðir í kaupstöðum og sveitum verði teknar í einu til athugunar, því að margt er sameiginlegt; við vitum, að enginn munur er á loftslaginu, hvorki fyrir utan kaupstaði né innan, byggingarefnið þarf að vera sams konar, hvort heldur er í sveit eða kaupstað. Þess vegna er það, að það er ekki nóg að hugsa aðeins um að afla löggjafar um lán til þess að byggja, heldur þarf líka að fá fræðslu um það, hvað heppilegast er, bæði aðferð og efni til þess að byggja, hvað kostnaðarminnst og hvað bezt er að gera í húsabyggingum. Þetta á allt saman að athuga, og þar getur og þarf að vera samvinna milli sveita og kaupstaða. Ég tel líklegt, að um þessi atriði þurfi að kynna sér nýjustu aðferðir í útlöndum. Það er miklu hægara fyrir ríkisstj., sem á að velja sérfræðinga, að hún sé samhent um það val. Og það er enginn vafi á því, að rétt er og drýgst, að endurskoðun allra þessara reglugerða verði tekin í einu, svo að það fáist nú varanlegt uppgjör á þessu og þurfi ekki að fara að káka við það æ ofan í æ. Ég verð að segja, að ég held, að það sé affarasælast, einmitt eins og ég tók áður fram, að stjórnin velji menn, sem eru samstilltir, einn þáttinn tekur þessi og annar hinn, þannig að byggingarfróðir menn taka þann hlutann, sem að byggingum lýtur. Að endingu vil ég benda á það, að við erum orðnir sæmilega saddir af n. og n. hér, því að ég hygg, að eitthvað á milli 50 og 100 n. sitji hér nú, svo að ég tel enga nauðsyn bera til þess að bæta miklu við. Ég tel sem sagt hér um bil víst, að hv. flm. þessa máls muni taka þessi atriði til greina nú og við nánari athugun sannfærast um, að það, sem hér er um að ræða, er aðeins það, að við förum töluvert lengra en hann, og ætti sízt að lasta það, heldur einmitt leggja samþykki á þá hluti.