05.01.1945
Sameinað þing: 81. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (5279)

206. mál, herzla síldarlýsis

Atvmrh. (Áki Jakobsson):

Ég get fyrir mitt leyti algerlega undirstrikað röksemdir hv. frsm. fyrir þessari till. Það er bráðnauðsynlegt að geta komið því við að flytja út lýsið í hertu formi. Það eru ekki einasta þær röksemdir, sem hann taldi fram, heldur það, að þetta eykur mjög markaðsmöguleika okkar. Það lýsi, sem út er flutt, er ekki hægt að selja annars staðar en þar, sem skip geta farið og lýsisherzlustöðvar eru, en ef við gætum sjálfir komið fitunni í fast form, er hægt að selja hana út um allt meginland Evrópu og handhægt að flytja hana með járnbrautum og hvers konar farartækjum, en mjög erfitt um allan flutning á lýsi. Eins og hv. frsm. tók fram, eru margvíslegir örðugleikar og vandamál, sem þarf að leysa í sambandi við þetta, umfram það, sem venjulega gerist. Í fyrsta lagi eru nú teknisku vandamálin og þau fjárhagslegu við að koma þessu upp hér á landi. Hins vegar höfum við ýmsa, sem hafa kynnt sér þetta vel og eindregið hvatt til þess, að í þetta verði lagt, bæði af tekniskum og fjárhagslegum ástæðum hér heima fyrir, en þar að auki eru viðskiptaleg vandamál, sem rísa upp vegna þessa, þar eð við mættum búast við samkeppni tveggja stórra hringa, annars ensks, en hinn hefur aðsetur á meginlandinu. Þessir hringar gerðu með sér samkomulag skömmu fyrir stríð. Er hætta á því, ef við færum að herða eitthvað lýsi, en þurfum jafnhliða að selja þann hluta lýsisins, sem við ekki herðum, til þessara aðila, að þeir beiti okkur refsiráðstöfunum, svo að okkur takist ekki að selja lýsið. Fyrirsjáanlegt er, að þegar í stað verða ekki herzlustöðvar, sem herða allt okkar lýsi. Þetta er atriði, sem þarf að gera sér ljóst, sérstaklega ef farið er út í þetta í stórum stíl. Það þarf að athuga í heild markaðsmöguleika fyrir hert lýsi og venjulegt lýsi, áður en út í þetta er farið. Hins vegar mun neyzlan hér á landi á fituefnum vera um þúsund tonn til smjörlíkisframleiðslu og annars, og það er ákaflega sennilegt, að það muni vera rétt að ráðast strax í að herða það lýsi, sem hægt er að losna við í landinu. Með því mætti kannske fá þýðingarmikla reynslu.

Ég álít till. þá, sem hér liggur fyrir, mjög góða. Hún bendir til þess, að þ. vilji eindregið, að einskis sé látið ófreistað til þess að geta stigið skrefið áfram í þessu efni, og tel ég sjálfsagt að samþ. hana.

Nýjustu upplýsingar, sem fyrir liggja í þessu máli, er álitsgerð, sem framkvæmdastjóri síldarverksmiðja ríkisins lét stj. í té, þegar hann kom úr Ameríkuför sinni, en í þeirri för var honum sérstaklega falið að rannsaka möguleika á því að kaupa vélar til lýsisherzlu, og það var einmitt byggt á frv. frá 1942. Ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér efni þessarar álitsgerðar, en hún mun að ýmsu leyti vera mjög ýtarleg, og ég mun gera ráðstafanir til þess, að þeir menn, sem vit hafa á þessum málum og áhuga, fái að kynna sér það sérstaklega með það fyrir augum að athuga möguleika í sambandi við stríðið. Því miður gat ég ekki komið þessari álitsgerð til nm. eða flm., sem þó kannske hefði getað orðið þeim einhver leiðbeining í málinu, en hún verður afhent hverjum þeim, sem kynni að hafa áhuga á þessu máli. Mæli ég svo eindregið með því, að þessi till. verði samþykkt.