10.11.1944
Sameinað þing: 63. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í D-deild Alþingistíðinda. (5282)

180. mál, framkvæmd póstmála

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég ætla ekki að hafa langa framsögu í þessu máli, því að það liggur afar ljóst fyrir. Það var sett n. til að athuga póstsamgöngur o.fl., er snertir póstmál í landinu. Snemma á þessu þingi var útbýtt frá þessari n. áliti um, hvernig hún hugsaði sér að haga póstferðum um landið. Var það í ýmsu frábrugðið því, sem nú er, aðallega í því, að póstsamgöngur stóraukast, og átti að koma póstur vikulega á flestöll heimili úti um allt land.

Það gæti vel komið til mála, að ekkert frekar væri gert í því máli og Alþ. léti málið ekki meir til sín taka, heldur léti í vald ríkisstj., hvað af þessum till. hún sæi fært að framkvæma og hvernig. Ég lít a.m.k. svo á, að það fé, sem ætlað er til póstmála, sé áætlað, og þess vegna mætti segja, að það lægi algerlega á valdi ríkisstj., hvað hún léti framkvæma af þessum till. og hvort hún léti framkvæma nokkuð af þeim eða ekki neitt.

Mér finnst ekki rétt að láta málið liggja þannig, heldur miklu réttara, að Alþ. segði álit sitt um, hvernig því litist á þessar till., og skoraði á ríkisstj. að láta þegar hefja undirbúning til framkvæmda á næsta ári. Mér finnst liggja í hlutarins eðli, að svo gagngerð breyt. eins og þetta taki tíma, og þó að undirbúningur væri þegar hafinn, er þetta ekki komið til framkvæmda fyrr en í allra fyrsta lagi snemma á næsta ári og vafasamt, að það verði komið að öllu leyti til framkvæmda, þegar árið 1945 er á enda. En því fyrr sem byrjað er, því fyrr komast þessar mikilsverðu umbætur fyrir alla þegna þjóðfélagsins í framkvæmd.

Ég vil nefna sem dæmi þær till. um að koma upp póstkössum á vegamótum víðs vegar úti um landið, sem póststjórnin á að láta smíða. Það eitt út af fyrir sig að smíða mörg hundruð kassa og koma þeim fyrir og ganga frá þeim tekur sinn tíma, og því fyrr sem byrjað er, því fyrr kemst það til framkvæmda. Till. mín er ekki önnur en að fá úr því skorið, hvort Alþ. vill fallast á þá stefnubreytingu, sem í till. n. er, og láta hefja undirbúning að framkvæmdum eins fljótt og auðið er og að mestu leyti á næsta ári.