16.12.1944
Sameinað þing: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (5288)

180. mál, framkvæmd póstmála

Páll Zóphóníasson:

Við 2. umr. fjárl. var fellt að veita meira fé til þessara framkvæmda en hv. fjvn. hafði ákveðið. Ég var óánægður með þetta, því að ég sá það, að í þessu fólst, að þessar miklu umbætur myndu ekki framkvæmdar nema að litlu leyti. Af þessum ástæðum flutti ég brtt. mína á þskj. 689. Nú hef ég heyrt það í ræðu hv. frsm. fjvn., að þessi upphæð er að hans dómi algerlega áætlunarupphæð og því á valdi ráðh. og póstmálastjórnar, hve umbæturnar verða miklar og víðtækar. Það má því gera ráð fyrir, að sama gildi um þessa fjárhæð og ýmsar aðrar í fjárl., að hún sé áætluð miklu lægri en hún muni verða. Af þessum ástæðum get ég sætt mig við það, þar sem þetta sé áætlun, og tek brtt. mína aftur, en jafnframt vil ég undirstrika það, sem hv. þm. Barð. sagði, að fyrst verði byrjað á því að bæta póstsamgöngurnar þar, sem þær eru lakastar. Sem dæmi um, hversu póstsamgöngurnar eru óviðunandi sums staðar, get ég tekið það sem dæmi, að ég veit um staði, þar sem bréfin eru orðin 6 til 8 vikna gömul, er þau berast viðtakanda, en á öðrum stöðum vikugömul eða svo. Það liggur í augum uppi, að mest þörfin er að auka póstsamgöngurnar, þar sem þær eru lakastar, eins og t.d. í Múlasýslum yfirleitt, suðurhluta Vestfjarða og á mörgum fleiri stöðum. Ef ég sendi bréf til einhvers þessara staða, þarf ég ekki að reikna með því, að svar geti borizt fyrr en eftir 2 til 2½ mánuð. Þess vegna undirstrika ég það, sem hv. þm. Barð. sagði, að fyrst þyrfti að bæta póstsamgöngurnar þar, sem þær eru lakastar. Mér hefur borizt til eyrna, að því hafi verið haldið fram í fjvn., að ómögulegt væri að bæta póstsamgöngur við Austurland, skipaferðum væri þannig háttað. Þetta er í raun og veru svo mikil fjarstæða, að því er ekki svarandi, enda er fjvn. ekki fylgjandi þeirri skoðun, þótt hún kunni að hafa komið fram í n., heldur er hún sammála hv. þm. Barð. um það, að fyrst beri að bæta úr póstsamgöngum þar, sem þær eru lakastar, en með tilliti til þess, að því er yfirlýst, að liðurinn sé áætlaður, og með tilliti til þess, að vitað er, að margar aðrar upphæðir í fjárl. eru áætlaðar miklu lægri en þær koma til með að vera, þá geri ég ráð fyrir, að því sé eins farið með þessa upphæð, og tek því aftur brtt. mína á þskj. 689.