09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í D-deild Alþingistíðinda. (5303)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Það er vafamál, hvort hlutabréfaeigendum er nokkur sérstakur greiði gerður með því að kaupa hlutabréfin á nafnverði, þegar þau eru talin fyllilega þess virði, ef seld væru á opnum markaði, og eru nú vel seljanleg. Í stað þess að greiða eðlilegan arð voru á síðasta hluthafafundi, sem svo var nefndur, gefnar gjafir af arðsúthlutunarfénu.

Hæstv. fjmrh. taldi óþægilegt fyrir ríkið að fara að taka lán til hlutabréfakaupanna. Mín skoðun var, að Útvegsb. gæti lagt fram nóg fé til þess (Fjmrh.: En það fé þyrfti að endurgreiða). Að vísu. En sú eignabreyting bankans væri honum ekki óhagstæð í bili, og þyrfti hann að losa féð, eru opnar leiðir til sölu bankavaxtabréfa. Þó að ráðh. telji þetta e.t.v. ekki hagkvæmt bankanum í bili, getur margt breytzt á árinu með þeirri hreyfingu, sem nú er á peningamálum okkar, og tel ég sjálfsagt, að þetta sé heimilað.