09.01.1945
Sameinað þing: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í D-deild Alþingistíðinda. (5305)

118. mál, kaup á hlutabréfum Útvegsbanka Íslands h.f.

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Það er ekki ástæða til að karpa lengi um þetta. Ég get ómögulega fallizt á þá skoðun hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að kaupin muni ekki þurfa að kosta ríkissjóð nein fjárútlát. Ég veit, að það er enginn vandi að fá lán, en lán verður að endurgreiða. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi reiknað það rétt, að ríkið þurfi ekki að leggja fram fé nema sem svarar arði þess af bankanum. En það er allt annað en að kaup bréfanna kosti ekkert eða að bréfin standi undir sér.

Hv. 7. þm. Reykv. (SK) taldi ríkisstj. skylda til að nota hverja heimild, sem henni er veitt, svo framarlega sem ekki sæist, að framkvæmdin væri hættuleg þjóðfélaginu. — En þingvilji á að koma fram sem áskorun eða lagaboð, en eigi aðeins heimild. Ég tel stjórninni í sjálfsvald sett, hvort hún framkvæmir heimild eða ekki. Þá skoðun hef ég haft, síðan ég kom fyrst á þing. Yfirlýsing mín var um það, að ég mundi ekki nota heimild, en alls ekki um hitt, að ég mundi setja mig móti þingvilja, ef hann kæmi fram.