15.12.1944
Sameinað þing: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í D-deild Alþingistíðinda. (5323)

215. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði, að það er búið að samþ. fjárveitingu til framkvæmda á Rafnseyri til minningar um Jón Sigurðsson, en fyrirkomulag þess er að öðru leyti alveg óháð Alþ., að mér skilst.

Nú er það að sönnu vitað, að ætlazt er til þess af flm., að þessar framkvæmdir, sem um er að ræða, standi í sambandi við byggingu barnaskóla á Rafnseyri. Ég skal ekki fara út í það, — það er mál út af fyrir sig. (EystJ: Kemur það fram einhvers staðar?) Það er margyfirlýst og tekið fram í samráði við skólan. og fræðslumálastjórn. Ég skal ekki fara langt út í það mál, heldur vil ég benda á hitt, að þegar um er að ræða einhverja verulega minningu um Jón Sigurðsson, virðist mér ekki geta komið til mála, að hæstv. Alþ. afsali sér allri íhlutun, hvað verður gert. Ég held, að það hljóti að vera misskilningur hjá hv. flm. að hugsa sér, að með samþ. þessarar þáltill. verði kosin þriggja manna n., alveg án íhlutunar Alþ., sem skuli gera á kostnað landsins og ábyrgð Alþ. það, sem henni sýnist, til minningar um Jón Sigurðsson. Ég mun þess vegna, áður en þessu máli lýkur, bera fram brtt. um það, að framkvæmdirnar verði bornar undir vilja Alþ. og komi þá aðeins til framkvæmda, að Alþ. samþ., hverjar þær skuli vera. Ég get ekki skilið, að hæstv. Alþ. hafi neitt á móti, að þessi aðferð verði við höfð. Og ekki heldur get ég skilið, að það muni koma mjög í bág við vilja hv. flm., því að sjálfir hafa þeir ekki ætlað sér að taka neitt fram fyrir hendur Alþ. um þetta mikilsverða atriði, og maður verður í því sambandi að gera sér það vel ljóst, að það er ekki alveg vandalaust að gera veglega og varanlega minningu Jóns Sigurðssonar. Því hefur margsinnis verið yfir lýst, að Íslendingar litu svo á, að Jón Sigurðsson hafi verið langmerkasti maður Íslands á síðari tímum og Alþingi beri því í hvívetna að halda uppi með öllu minningu hans. En það væri alls ekki að mínu viti viðeigandi vinnubrögð, ef hæstv. Alþ. leyfði, að kosin væri einhver n. til þess að gera það, sem henni sýndist, á kostnað landsins.

Í þessu sambandi get ég ekki komizt hjá því að minnast á það, sem ég held, að hátíðarn. hafi hugsað sér, að gert yrði á þessum stað til minningar um Jón Sigurðsson. Það er nú út af fyrir sig ákafIega vafasamt, að varanleg minning um Jón Sigurðsson eigi að standa á Rafnseyri, því að hann er náttúrlega ekki sérstakt tákn fyrir einhverja þúfu eða laut og hóla í þessu landi, þar sem hann af tilviljun er fæddur, heldur auðvitað fyrir þjóðina og landið í heild, og mér virðist, að minning eftir slíka menn eigi fyrst og fremst að vera á þeim stöðum, þar sem fjölmennt er og hver maður getur séð. Þetta er mál út af fyrir sig. En svo er framkvæmd þessa minningarstarfs, sem ekki er farið dult með, að eigi að reisa barnaskóla á Rafnseyri. Nú skil ég ekki, satt að segja, hvernig mönnum hefur dottið í hug, að það væri sérstaklega viðeigandi að láta minningu um Jón Sigurðsson vera bundna við barnaskóla, en ef svo ætti nú að vera, þá ætti sá skóli a. m. k. að standa á þeim stað, þar sem skilyrði eru til þess, að sá skóli gæti orðið þjóðfélaginu að gagni. En nú er útlitið svo þarna vestra, að þrátt fyrir það, þótt þessi mikli maður sé fæddur þar, þá er það að verða ískyggilegt með þetta byggðarlag, að það fari í eyði, það fækkar alltaf þeim jörðum, sem eru byggðar. Ég hef hér fyrir mér skýrslu frá landlækni, sem honum var send frá héraðslækninum, ekki í sambandi við þetta mál, heldur aðeins hans embættisskýrsla, og segir þar m. a., að byggðarlagið sé að fara í eyði, meiri hluti af jörðum í þessari sveit sé að fara í eyði á fáum árum, og það er engin ástæða til þess að véfengja skýrslu læknisins, er segir m. a., með leyfi hæstv. forseta: „Í Auðkúluhreppi er lítið að gera af þessum ástæðum, enda er sá hreppur að fara í eyði og fullur helmingur býla mannlaus. Þó má telja, að þarna séu hin beztu lífsskilyrði til lands og sjávar, en fólkinu þykir þar of afskekkt, og það verður ekki við það ráðið, að byggðin er að leggjast í eyði.“ Og eftir skýrslu sama læknis eru barnsfæðingar að hverfa úr sögunni, t. d. var ein barnsfæðing í hreppnum árið 1941, en landlæknir segist ekki hafa fengið skýrslu um þetta síðan, svo að slíkir atburðir geta hafa komið fyrir. Mér finnst það út af fyrir sig ekki nema eðlilegt, þó að menn í þessari fámennu og deyjandi sveit séu tregir til þess að leggja út í barnaskólabyggingu, og ég get skilið, að þeir vilji gjarnan velta því af sér, ef þeir eiga þess kost á annað borð. En þó að við sleppum nú þessari firru með barnaskólabygginguna, þá er ekki sama, hvaða aðrar framkvæmdir verða gerðar. Ég mun bera fram brtt. fyrir síðari umr. um það, að í staðinn fyrir niðurlag aðalmálsgr. þáltill., að n. skuli ráðstafa því fé, sem veitt er á fjárl., og skuli starfa í samráði við skipulagsstjóra ríkisins og fræðslumálastjóra og einnig við sóknarn. Auðkúluhrepps og skólan. komi: Nefndin fær til umráða það fé, sem verður á fjárl. í þessu skyni, þegar hæstv. Alþ. hefur samþ. framkvæmdir. — Sem sagt, nefndir geta ekki ráðizt í neinar framkvæmdir, fyrr en hæstv. Alþ. hefur sagt þar síðasta orðið um.