15.12.1944
Sameinað þing: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (5325)

215. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Sigurður Kristjánsson:

Þetta mál á að ganga til síðari umr., og það er ekki ástæða til að deila nú um þetta efni.

Ég held, að ekkert geti borið á milli að svo komnu máli, að það er þingið, sem á að leggja síðustu hönd á þetta verk. Það er alls ekki rétt hjá hv. flm., að fjvn. hafi lagt nokkurn dóm á, hvað þarna eigi að gera. Fyrir henni hefur aðeins legið að leggja til, að veitt yrði fé til framkvæmda til minningar um Jón Sigurðsson, en alls ekki komið til mála að samþ. neinar vissar aðgerðir. Ég vil ekkert segja um, hvernig það mundi standa í fjvn. Annars tel ég, að það sé ekki fjvn., heldur Alþ., sem á að segja síðasta orðið um, hvað gera skuli til minningar um Jón Sigurðsson.

Um afstöðu landlæknis er óþarft að fjölyrða. Ég hef beðið opinberan starfsmann um upplýsingar úr opinberri skýrslu, og það er enginn áróður um þetta mál frá hans hendi og ekki heldur læknisins, því að hann gefur sína skýrslu löngu áður en þetta mál kom til umr.

En hvað þau rök snertir, að þetta eigi að vera skóli fyrir allan Arnarfjörð, þá er hægt að segja slíkt, en það verður ekki framkvæmt, og þýðir ekki að tala um það, að menn fyrir vestan Arnarfjörð taki þátt í skólahaldi á Rafnseyri. Það væri álíka og að ætla að byggja barnaskóla á Suðurnesjum og ætla að taka í hann börn af Snæfellsnesi. Það er yfir stóran flóa að fara og kemur ekki til mála. Ég er viss um, að þeir á Rafnseyri yrðu að horfa yfir hafið um haust af auðri strönd eftir börnum vestan úr Ketildalahreppi. Það kemur ekki til greina, að börn þaðan sæki skóla að Rafnseyri.

Ég hef lofað hæstv. forseta að lengja ekki umr. nú og skal standa við það. Ég vil aðeins undirstrika, að fjvn. hefur enga afstöðu tekið til þess, hvað gert verði til minningar um Jón Sigurðsson, heldur aðeins mælt með fjárveitingu til þess, án tillits til, hvað gera skuli, að sjálfsögðu í trausti þess, að það yrði eitthvað skynsamlegt.