15.01.1945
Sameinað þing: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í D-deild Alþingistíðinda. (5331)

215. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Eins og kunnugt er, hef ég flutt brtt. við þessa þáltill. Nú hefur fjvn. haft þetta mál til athugunar og lagt til, að brtt. minni verði ekki sinnt. Það er rétt að rifja upp helztu atriði þessa máls. Eins og þáltill. á þskj. 636 ber með sér, er lagt til, að skipuð sé n. til að annast framkvæmdir á Rafnseyri við Arnarfjörð. Þeir menn, sem n. skipa, skulu eigi kosnir af Alþ., heldur af sýslunefndum Vestur-Barðastrandarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu og hinn þriðji af ríkisstj. Og n. skal ráðstafa því fé, sem lagt verður fram, og starfa í samráði við skipulagsstjóra ríkisins, fræðslumálastjóra, biskup, sóknarnefnd í Auðkúluhreppi o. fl. En með þessu eru áhrif Alþ. algerlega þurrkuð út og ríkisstj. næstum.

Ég get ekki fallizt á, að sú fjárveiting, sem við í fjvn. höfum ákveðið til þessa, sé þannig fengin í hendur hinum og öðrum mönnum, án þess þó að ég vantreysti þessum væntanlegu heiðursmönnum. Og ég get ekki skilið, hvað getur mælt á móti því, að Alþ. megi leggja dóm sinn á þetta.

Þessi brtt. mín er því bara öryggisráðstöfun, að Alþ. fái að hafa eftirlit með því, hvað gert er við það fé, sem það veitir, og tel ég þetta tilræði við sóma þingsins.

Á því er enginn vafi, að það er gengið nærri landsfólkinu í innheimtu skatta, og því er slæmt, að hæstv. Alþ. fari gáleysislega með þetta fé. Vil ég því skora á hv. þm., að þeir hugsi sig um, áður en þeir fella þessa brtt.