15.01.1945
Sameinað þing: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (5333)

215. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. — Ég hef ekki lagt neitt til þessara mála. Till. var afgr. í allshn. áður en ég kom til bæjarins, og er mér sagt, að vantað hafi þrjá menn í n., þegar málið var afgreitt. Er mér óskiljanlegt, hvernig á því getur staðið, að hv. form. n. tók málið fyrir á meðan. Ég t. d. hafði ekki boðað, að ég mundi ekki koma til þings. Hv. 2. þm. N.-M. var kominn til þings, og er hann vanur að mæta sæmilega á fundum. Hygg ég, að aðstæður hefðu verið til að fá hann til að koma á fund. Hv. 2. þm. Skagf. var ekki við, en að sjálfsögðu átti sá, sem kom í hans stað, að mæta í n.

Ég hafði þó hreyft því við form. a. m. k., að ég hefði í hyggju að bera fram brtt. í svipaða átt og hv. 7. þm. Reykv. Þar sem sú till. er fram komin, hef ég ekki borið fram brtt.

Ég er alls ekki á móti því, að heiðruð sé minning Jóns Sigurðssonar og gert sé á Rafnseyri eitthvað, sem má verða minningu hans til sóma. En ég fæ ekki séð, að verið sé á neinn hátt að tefja fyrir þessu máli, þó að brtt. á þskj. 744 verði samþ. Þar er ekki farið fram á annað en það, að Alþ. fái að fylgjast með þessu máli. Alþ. hefur veitt fé til framkvæmdanna, og það hefur því rétt til að fylgjast með því, hvað þessir góðu menn hugsa sér að gera og hvernig þeir haga verkum sínum. — Ég segi þetta ekki af því, að ég vantreysti þeim mönnum, sem í n. kunna að verða kosnir, eða af því, að ég vilji leggja stein í götu þessa máls, heldur af hinu, að mér finnst, að hæstv. Alþ., sem að vissu leyti er ráðgjafi ríkissjóðs, eigi að hafa hönd í bagga með þessu á meðan verkinu er ekki lokið.

Ég legg því til, að hæstv. Alþ. samþ. brtt. á þskj. 744.