15.01.1945
Sameinað þing: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (5334)

215. mál, framkvæmdir á Rafnseyri

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég skil ekkert í þessari skapvonzku hv. frsm. allshn., því að það er engin ástæða til að vera vanstilltur, þó að menn séu ekki á sama máli um það, hvaða form skuli á því haft, sem gera á til minningar um Jón Sigurðsson á Rafnseyri. Ég vil ekki vera með neinar getsakir, en mér er þó ekki grunlaust um, að það sé einhver aðkenning af samvizkubiti, sem veldur þessu. Við höfum rekið okkur á það, að mönnum hættir stundum við að nota gjarnan nöfn, sem eiga að vera — ja, segjum heilög — til að ýta fram ýmsum smámunalegum hagsmunamálum.

Það hefur borið á því, að menn hafa viljað nota nafn Jóns Sigurðssonar til þess að ýta undir framkvæmdir á einstöku stöðum. Það er mjög sómasamlegt og virðulegt að koma upp góðu bókasafni fyrir almenning. Á Ísafirði er mjög gott bókasafn, miðað við stærð kaupstaðarins. En þá skortir húsnæði o. fl. til að geta aukið við það. Nú þótti snjallræði að kalla þetta Bókasafn Jóns Sigurðssonar og ginna þannig Alþ. til að láta fé í að byggja þetta hús. Annar kom með þá till., þótt ekki væri hún skrifleg, að lagður væri vegur frá Ísafirði til Arnarfjarðar, sem helgaður væri Jóni Sigurðssyni. Vildi hann fá ríflega fjárhæð í þennan veg, er hann vildi láta kalla veg Jóns Sigurðssonar.

Það mætti sjálfsagt finna fleiri troðninga, sem Jón Sigurðsson hefur farið um. En mér þykir þetta ekki vel farið með nafn hans.

Svo kemur enn einn, sem vill láta reisa barnaskóla í þessu héraði, sem er raunar barnlaust að kalla og á hraðri ferð að leggjast í auðn. En þar sem verður lögum samkvæmt að halda þar uppi einhverri kennslu, þá er auðvitað ágætt ráð að kalla skólann barnaskóla Jóns Sigurðssonar og láta ríkið reisa hann.

Það er rangt hjá hv. frsm., að ég hafi alltaf verið á móti þessu máli. Ég hef aldrei sagt orð í þá átt, að ekki bæri að gera eitthvað til minningar um Jón Sigurðsson. Ég hef aðeins viljað, að vandlega yrði athugað, hvað það ætti að vera, því að ef það mistækist, gæti það orðið til þess að draga nafn hans niður í lítilmennskuna eða jafnvel duftið. En að öðru leyti þykir mér sjálfsagt, að ríkið sé ekki að skera við neglur sér, ef það gæti fundið eitthvað, sem vel sómdi minningu Jóns Sigurðssonar.

Ég vil að lokum leiðrétta þann misskilning, sem kom fram hjá hv. frsm. um afstöðu fjvn., því að þetta mál kom þar ekki til atkv. Var um það rætt að hafa fyrirvara við fjárveitinguna, en það var beinlínis í samráði við fjvn., að þessi leið var farin að flytja brtt. Var það borið undir mig, hvort ekki mundi eðlilegra að breyta sjálfri till. en að fylgja einhverri „klásúlu“ um fjárveitinguna, og það varð alveg að samkomulagi. Er ekki rétt af hv. frsm. að vera að grípa svona fjarstæða hluti.

Að öðru leyti skal ég ekki ræða þetta mál, álít ekki rétt að taka það með neinu kappi og vil leggja það undir dómgreind hv. þm.