13.12.1944
Sameinað þing: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í D-deild Alþingistíðinda. (5364)

222. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Það er alveg rétt, sem hv. þm. V.-Hún. (SkG) tók fram, að sú þáltill., sem samþ. var í fyrra viðvíkjandi þessu máli, veitti ríkisstjórninni heimild til að láta virkjunarframkvæmdir fara fram á vegum ríkisins eða veita ábyrgð til að semja um efniskaup. Ríkisstjórnin veitti ábyrgð fyrir láni, sem þeir aðilar tóku, sem að verkinu standa. Og þar sem engin löggjöf er til um það, að ríkið hafi með höndum slíkar framkvæmdir, er það eðlilegt, að þeir aðilar, sem að verkinu standa, hafi allar framkvæmdir með höndum í þessu efni, með þeim stuðningi, sem ríkið veitir með ábyrgð. Þessi tilhögun hefur leitt til þess, að nú þegar er búið að útvega allt efni til virkjunarinnar. Nokkur hluti vélanna er smíðaður í Svíþjóð, og verður smíði þeirra lokið í febrúar og júní. Verða þær og annað efni þar tilbúið til flutnings hingað strax og siglingaleiðir opnast. Með þessari tilhögun er málið komið þetta langt á leið. Og finnst mér það eðlileg afleiðing, að þessi tilhögun verði látin haldast áfram með þessa byrjunarvirkjun Andakílsár. Um tilhögun áframhaldandi virkjunar leiðir af sjálfu sér af því, hvaða löggjöf verður sett um þetta efni.

Þessari virkjun er hagað þannig, að þá orku, sem ekki er hagnýtt við fyrsta átak, er auðvelt að hagnýta síðar með því að bæta við fleiri vélasamstæðum. Og á þann hátt er búið í haginn fyrir áframhaldandi virkjun.

Ég vænti, að hæstv. Alþ. geti fallizt á að afgr. till. eins og hún liggur fyrir. En vitanlega verður till. rædd í fjvn. frá því sjónarmiði, sem hv. þm. V.-Húnv. minntist á.