26.01.1945
Sameinað þing: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í D-deild Alþingistíðinda. (5377)

222. mál, virkjun Andakílsár

Jón Pálmason:

Þegar umr. stóðu um þetta mál hér í fyrradag, komu fram ýmsar aths. í sambandi við till. mína og okkar fjögurra, sem ég finn ástæðu til að fara örfáum orðum um. Þær aths. komu frá tveim hv. þm., hv. þm. Barð. og hv. þm. Mýr., 2. flm. þessarar aðaltill., sem hér liggur fyrir. Enda þótt einn meðflm. minn, hv. þm. V.-Húnv., hafi að nokkru leyti svarað sumum af þessum atriðum, þykir mér ástæða til að víkja þar nokkru nánar að.

Hv. þm. Barð. byrjaði ræðu sína á því að gefa yfirlýsingu um það, að enda þótt hann teldi hér skorið úr um þá stefnu, sem taka ætti í raforkumálum þjóðarinnar, gæti hann ekki fylgt brtt. okkar á þskj. 837. Mér kom þessi yfirlýsing mjög á óvart, því að ég gerði ráð fyrir, að þessi hv. þm. að vanda væri það víðsýnn maður að sjá, að hér þýðir ekki að taka út úr einstaka staði á landinu og skaffa þar rafmagn, en skilja hina eftir. Það, sem hann færði þessu til sönnunar, var aðallega tvennt. Í fyrsta lagi það, að ekkert fé væri áætlað á fjárl. varðandi þetta mál, og í öðru lagi hitt, að með þeim hætti mundi verða meiri dráttur á þessum framkvæmdum víðsvegar um landið en ella mundi. Viðvíkjandi því, að ekki sé veitt fé til þessarar virkjunar á fjárl., er það náttúrlega kunnugt og rétt og hefur í sjálfu sér aldrei verið til þess ætlazt, hvorki af okkur né neinum öðrum, að þessar framkvæmdir væru gerðar með fjárframlögum, heldur eins og hv. þm. V.-Húnv. vék að, með lántöku, og ef till. okkar verður samþykkt, er innan handar fyrir hæstv. ríkisstj. að afla sér, áður en þingi slítur, lánsheimildar til þessa verks. Ég fæ ekki með nokkru móti séð, að það breyti nokkru um, hvort hægt sé að framkvæma verkið eða ekki, hvort fé sé tekið á ábyrgð ríkisins eða af ríkisstj. fyrir hönd ríkissjóðs. Það er nákvæmlega sama upphæðin, sem þarf til framkvæmdanna, hvora leiðina sem farið er. Það leiðir því af sjálfu sér, að það sem hv. þm. Barð. talaði um í þessu sambandi og rétt var, að það væri ekki veitt fé á fjárl., kemur í sjálfu sér ekki þessu máli við.

Það, sem hann nefndi í sambandi við ríkisreikninginn 1941, var rétt, og ég tók það ekki sem nein ásökun fælist í því til okkar yfirskoðunarmanna, því að það kom ekki þannig fram, en ég tel, að það komi ekki neitt þessu raforkumáli við. Hvað viðvíkur hinu, um dráttinn, þá er nokkur ástæða að víkja örfáum orðum að því. Ég býsi við, af því að ég þekki hv. þm. Barð. að því að vera glöggan mann og slyngan í fjármálum, að honum hljóti að vera ljóst, að aldrei hefði komið jafnmikið af vegum, símum og brúm hér á þessu landi og er, ef einstök héruð eða félög hefðu átt að koma þeim framkvæmdum á. Það er einmitt vegna þess að ríkisvaldið hefur staðið fyrir því með því fjármagni, sem það hefur átt yfir að ráða, að þessi mál eru þó komin það langt á leið sem þau eru, þótt mikið vanti á, að vel sé í þeim efnum. Það er nokkuð líkt ástatt með þessar raforkuframkvæmdir og símann, að til þess að nokkurt vit sé í framkvæmdunum, þarf að byggja á því að fullnægja þörfum talsvert fjölmennra héraða samtímis, svo að það komi að gagni. Þegar landssíminn var upphaflega lagður, var hann strax lagður á aðalleiðunum, og það mundi eins verða í þessu tilfelli. Ég get þess vegna ekki fallizt á þessa röksemd hv. þm. Barð., enda þótt henni sé mjög á lofti haldið, ekki eingöngu af þessum hv. þm., heldur mörgum öðrum, sem eru því andvígir að fara þá leið, sem við í meiri hl. raforkumálan. teljum rétt að farin sé í þessu sambandi.

Þá var það einn misskilningur, sem hlýtur að vera, sem fram kom í ræðu hv. þm. Barð. Hann sló því fram, að það hefði verið á mér að skilja eins og ég vildi láta virkja fyrir þá staði fyrst, sem lakasta hefðu aðstöðuna. Þessi misskilningur er alveg tilefnislaus af minni hálfu, vegna þess að það, sem ég hef um það sagt og við um það skrifað, gefur ekki tilefni til neinna slíkra ályktana. Það, sem við leggjum áherzlu á, er að virkja samtímis fyrir hvert það svæði, sem á að nota hverja virkjun, eða skipuleggja það að minnsta kosti þannig, að hægt sé að fullnægja þörf þeirra nærliggjandi héraða, sem hlut eiga að máli. Því til sönnunar, að þetta er okkar skoðun, er það, að við viljum koma í veg fyrir, að það sé einungis virkjað fyrir fjölmenna kaupstaði, en sveitirnar í kring skildar eftir og útilokaðar þannig, því að við sjáum ekki að nokkrar líkur séu til, að tækifæri eða ástæður aðrar gefi tilefni til þess, að mögulegt verði að fá rafmagn í þær, eftir að sú aðferð hefur verið viðhöfð. Hér er því ekki um það að ræða, að við viljum eða látum okkur detta í hug að láta virkja fyrst fyrir þá staði, sem lakasta hafa aðstöðuna, heldur, að það sé gert samtímis á hverju því svæði, sem virkjunin nær til. Hitt er náttúrlega, eins og gefur að skilja, óákveðið mál, á hvaða virkjunarstöð verður byrjað, þegar þessum framkvæmdum er lokið, sem hér eru til umr. og ætlazt er til að nái fyrst og fremst til Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og þeirra kauptúna, sem þar eru, en mundu þó að öllum líkindum ná til víðara svæðis.

Það kemur í sjálfu sér ekki þessu máli við, sem hv. þm. Barð. talaði um, að við gætum alveg eins í sveitum landsins heimtað heitt vatn, eins og t. d. Reykjavík, eins og að heimta rafmagn. Það er ólíku saman að jafna, því að því miður eru mjög fáar sveitir, sem hafa tækifæri til að fá þau þægindi, svo að við getum ekki borið það saman.

Þá er það síðasta, sem ég vildi víkja að í sambandi við ræðu hv. þm. Barð. og eru mjög athyglisverð ummæli, að hann sagði, að hann teldi, að ekki væri unnt eða að minnsta kosti væri mjög hæpið að taka virkjunarframkvæmdir af einstökum félögum eða einstökum kauptúnum, ef þau fyrirtæki bæru sig og stæðu að öllu leyti undir þeim skuldbindingum, sem þau hafa tekið á sig. Hérna er einmitt nákvæmlega gripið á kýlinu, gripið á því höfuðágreiningsefni, sem um er að ræða, og það er, að um leið og farið er inn á að virkja fyrir fleiri kaupstaði og fleiri kauptún og þeim tryggð raforkuframlög, eftir því eru minni líkur til, að strjálbýlið í kring fái nokkurn tíma að njóta þessara þæginda. Við höfum í því efni talsverða reynslu, eins og hv. þm. V.-Húnv. benti á í ræðu sinni í fyrradag, og það er augljóst mál, að ef haldið er áfram á þeirri braut, þá skapar hver ný virkjun, sem gerð er fyrir kauptún eða kaupstaði, meiri örðugleika á því, að hægt sé að fullnægja raforkuþörf úti í strjálbýlinu á nálægri tíð. Það, sem gerir það að verkum, að þessi ágreiningur liggur hér fyrir í þessu sambandi, er náttúrlega það, og það þýðir ekkert að leyna því, að ef raforkan er virkjuð eingöngu fyrir kaupstaðina, þá verður hún ódýrari þar en ef strjálbýlið er tekið með. Og það, sem þeir menn óttast, sem þar eiga hlut að máli, er, að þeir þurfi að borga raforkuna hærra verði, ef hún er tekin sameiginlega fyrir sveitirnar og kauptúnin, heldur en ella, ef kauptúnin eða kaupstaðirnir eru teknir eingöngu. Þetta er eiginlega sá grundvallarágreiningur, sem hér er um að ræða og veldur því, hversu það virðist erfitt uppdráttar að fá til vegar komið að skipuleggja þetta stórmál fyrir hagsmuni landsins í heild.

Þá eru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Mýr., sem er 2. flm. að þessari till., sem gefa tilefni til þess að segja nokkuð meira, enda þótt hann væri í flestum greinum inni á sömu línu og hv. 1. flm. og hv. þm. Barð. í þessu máli. Hann sló því föstu, sem mér þykir undarlegt, að nokkur greindur maður skuli gera, að þó að þessi till. yrði samþ., hefði hún engin áhrif á, hvaða stefna yrði tekin í þessum málum. Mér þykir þetta mjög undarlegt, vegna þess að þetta virðist liggja í augum uppi. Það fylgir þessari till. heil hrúga af ábyrgðarheimildum til handa ríkissjóði fyrir kauptún og kaupstaði víða kringum land, sem vafalaust verða samþ. á sama hátt og þessi till., ef hún nær fram að ganga í þeirri mynd, sem hún er í hér. Það virðist því skorið úr hér með því, hvort till. verður samþ. eða ekki, hvaða stefna á að verða ofan á hér á Alþ. í þessu stærsta máli, sem fyrir liggur.

Hv. þm. Mýr. var að átelja það, að við í raforkumálanefnd hefðum ekki fyrr lagt hér inn okkar frv. til raforkulaga, og er ástæða til að svara því fáeinum orðum, vegna þess að þær átölur eru tilefnislausar. Við afhentum okkar nál. og frv. til hæstv. ríkisstj. í nóvembermánuði og óskuðum eftir, að hæstv. stjórn tæki þetta frv. til flutnings, helzt á þessu þingi. Um það fengum við, sem ekki var eðlilegt, ekki neitt ákveðið svar hjá hæstv. ríkisstj., en stuttu seinna, áður en þinghlé var gert fyrir jól, fengum við það svar í þessu sambandi, að ríkisstj. teldi sig ekki hafa aðstöðu til í þingönnum að athuga þetta flókna og stóra mál svo rækilega sem hún óskaði, til þess að hún gæti lagt það fyrir Alþ. áður en því væri nú slitið. Við sáum því, að þess var ekki von, að hæstv. ríkisstj. flytti frv. nú, og er það að vísu leitt, en þegar við sáum, að farið var að hrúga hér inn á Alþ. till. um ábyrgðarheimild upp á margar milljónir eða jafnvel tugi milljóna, því að það voru hvorki meira né minna en 10 slíkar till. á dagskrá hv. Sþ. í fyrradag, þá sáum við okkur ekki annað fært en sýna þetta frv., þótt við gerum engan veginn ráð fyrir, sem varla standa efni til, að það fái afgreiðslu áður en þessu þ. er slitið.

Ýmsir vilja halda því fram, að okkar till. stefni í þá átt að tefja þetta mál, sem hér liggur fyrir, en ég fæ ekki séð annað en það sé misskilningur, því að það er einskis manns ætlun, að það sé tafið fyrir það, þó að ríkinu sé ætlað að annast þessar framkvæmdir, í stað þess að hv. flm. ætlast til þess, að félag geri það. Ég vil spyrja: Hvers vegna ætti það að vera til tafar fyrir Keflavík, að ríkisstj. er falið að annast kaup á efni til þeirrar rafveitu? Þar er að vísu ekki svo um búið sem skyldi, og það mundi sjálfsagt fylgja þeim l., sem samþ. verða í þessu sambandi, en það er þó á réttri línu. Þó að það sé sjálfsagt rétt, sem hv. þm. Mýr. sagði, að fyrrverandi stj. hefði ekki viljað fara inn á það að taka þessa virkjun að sér sem ríkisvirkjun, sem hún hafði þó heimild til samkvæmt till., sem samþ. var í fyrra, þá sannar það ekkert um það, að það mundi verða á neinn hátt til þess að tefja fyrir þessu máli, þó að samþ. yrði sú till., sem hér liggur fyrir frá okkar hálfu.

Þá vildi hv. þm. Mýr. halda því fram, að það væri ekki neitt til tryggingar því, að rafmagn yrði selt sama verði í bæjum og sveitum, þótt okkar till. yrði samþ. En þar er einmitt um aðalágreiningsefnið að ræða, eins og ég hef tekið fram í sambandi við ummæli hv. þm. Barð. í því sambandi, og ef það eru réttar röksemdir hjá honum, að það sé ekki hægt að taka virkjunina af þeim kaupstöðum, sem hafa sett þær upp og þær bera sig vel og fullnægja að öðru leyti sínum skuldbindingum, þá er það víst, að það tefur mjög fyrir því, að rafmagnsframleiðslan komi að notum úti um hinar strjálu byggðir landsins.

Þá var hv. þm. Mýr. að tala um það, að það væri mjög illa sagt af minni hálfu að tala um þann áhuga, sem fyrir liggur í þessum málum og kæmi fram í hinum mörgu till., sem lagðar hefðu verið fram um raforkumál á þessu þingi, þegar ég talaði um það sem nokkurs konar æði. Ég skal ofurlítið fara inn á, hvað það er, sem ég á við. Ég á ekki við, að það sé neitt æði í sambandi við Andakílsárvirkjunina, vegna þess að hún kemur alveg inn í það plan, sem okkur kemur saman um að eigi að verða ríkjandi, hvor leiðin sem þar verður farin. Það, að farið var að undirbúa þetta mál með efniskaupum o. s. frv., stafaði meðal annars af því, að það var á þinginu 1943 gert bandalag milli þeirra manna, sem standa að þessari virkjun, og hinna, sem stóðu fyrir Siglufjarðarvirkjuninni, sem við höfum þegar fengið nokkra reynslu af, hvernig horfir við. Hitt kalla ég æði, að það skuli vera svo, að margir hv. þm. skuli leggja á það höfuðkapp að koma fram með till. um ábyrgðarheimildir einmitt nú, áður en nokkuð er séð um það, hvort mögulegt muni verða að koma á heildarlöggjöf um þetta þýðingarmikla mál, sem við erum að reyna að koma í framkvæmd og búið er að skila áliti um. Ég held þess vegna, með þeirri aðstöðu, sem nú liggur fyrir í okkar landi, svo sem um verðlag og annað, þá hefði það verið skaðlaust, þótt ekki hefði verið gengið lengra í þessu máli á þessu ári fyrr en séð var, hvernig sú heildarlöggjöf yrði, sem ætlazt er til, að sett verði um þessi mál. Það gera allir ráð fyrir því, að það sé komið að stríðslokum, og það eru allar líkur, sem til þess benda, að það verði skammt þess að bíða, að efni til þessara framkvæmda verði ódýrara en nú er. Við höfum fengið upplýsingar um það, í sambandi við þá stórvirkjun, sem nú er verið að byggja og upphaflega var áætlað að mundi kosta 6 millj. kr. og nú er sagt að muni kosta 13 millj., hvað það gildir að flýta slíkum þýðingarmiklum framkvæmdum á þeim tíma, sem verðbólgan er sem allra mest. Ég held þess vegna, að það væri öllum fyrir beztu, að það væri ekki gengið lengra í þessum efnum en það að halda áfram þeim virkjunum, sem búið er þegar að panta efni til, og það verður að láta sitja fyrir að koma á þeirri heildarlöggjöf, hvernig svo sem hún verður, sem stendur til að setja um þessi mál á næsta þingi. Mér þykir það raunalegt, að það skuli vera lagt á það jafnmikið kapp af hv. þm. og nú er að gera ákvarðanir eins og þessi till. gerir ráð fyrir, og gera ákvarðanir, sem torvelda það á allan hátt að koma löggjöfinni í það horf, að málið sé skipulagt fyrir landið í heild sinni.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að sinni að fjölyrða meira um þetta mál, en vænti þess, að fyrir þeim hv. þm., sem hafa verið við þessar umr., liggi það ljóst fyrir, hvað það er, sem er hér deiluefni í sambandi við þessi stóru rafmagnsmál.