26.01.1945
Sameinað þing: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í D-deild Alþingistíðinda. (5383)

222. mál, virkjun Andakílsár

Frsm. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. — Ég vil segja hér nokkur orð út af þeirri brtt., sem hv. þm. Barð. hefur borið hér fram. Ég get efnislega að ýmsu leyti verið henni samþykkur, en teldi réttara að orða þá hugsun, sem þar kemur fram, dálítið öðruvísi, og það með sérstöku tilliti til þess, að ég álít niðurlag þeirrar till. ekki heppilega orðað, því að það mætti segja, að samþ. þess fæli í sér yfirlýsingu Alþ. um, að einhverjir sérstakir erfiðleikar væru á að taka þær stöðvar eignarnámi, sem nú þegar er búið að ljúka byggingu á. En ég vil ekki leggja stein í götu þess, að sá möguleiki standi opinn. Þess vegna ætlum við flm. að bera hér fram brtt., sem ég hef borið undir hv. þm. Barð. og hann getur fallizt á, og mun hann þá taka sína brtt. aftur. Og má segja, að á þessu stigi stöndum við þrír að brtt. En brtt. er um, að bætt verði aftan við tillgr., eins og hún er hér á þskj. 830: „Enda sé virkjunin háð þeim ákvæðum, sem síðar kunna að verða sett um eignarhald og rekstur á raforkuveitum í landinu.“ Þetta er nákvæmlega í samræmi við þá skoðun, sem ég hef haldið fram, og má þá líta á þessa viðbót, ef samþ. verður, sem skilyrði af hálfu Alþ. fyrir því, að ábyrgðin verði veitt. Er þá rutt úr vegi þeim ótta, sem ég álít, að hafi verið ástæðulaus, um að þetta fyrirtæki yrði ekki að lúta þeim ákvæðum, sem sett yrðu í löggjöf um þetta efni, alveg eins og ég líka lít svo á, að þau fyrirtæki slík sem þetta, sem nú þegar er búið að byggja, verði að sjálfsögðu að lúta löggjöf um þetta. Þessa brtt. vil ég svo afhenda hæstv. forseta. En áður en ég geri það, ætla ég aðeins að segja nokkur orð að gefnu tilefni frá tveim hv. síðustu ræðumönnum.

Hv. þm. V.-Húnv. varpaði hér fram þeim spurningum, sem ekki aðeins snerta mig, heldur líka hv. þm. Mýr., og getur þá það svar, sem ég gef hér með við þessum spurningum, gilt fyrir okkur báða, því að við höfum borið okkur saman um það. Viðvíkjandi þeirri spurningu, hvaða samningar eru á milli þeirra aðila, sem að Andakílsárvirkjuninni standa, er fljótlegt að gefa upplýsingar. Þessir aðilar eru allir jafnréttháir, af því að þeir eiga allir jafnan hlut í virkjuninni. Þess vegna er það meirihlutaákvörðun hverju sinni, sem gildir, bæði að því er snertir stofnkostnað þessarar virkjunar og einnig hvað snertir rekstur hennar, og þar á meðal um verðið á raforkunni. Og það er samkomulag um það, að rafmagnið verði selt allt á sama verði til sömu nota frá þessu orkuveri, og er það staðfest, með því að gengið er út frá því, að þeir sveitabæir, sem eru margir, sem fá rafmagn frá þessari virkjun, fái rafmagnið á sama verði og íbúar Akraness og Borgarness. Og að því er snertir sveitirnar í þessu sambandi og það, sem hv. þm. A.-Húnv. skaut inn í í þessu sambandi um það, að samkvæmt manntalsskýrslum séu Akranes og Borgarnes samanlagt mannfleiri en sveitirnar, sem þarna standa að, þá rengi ég það ekki út af fyrir sig. En það hefur ekkert að segja viðkomandi stjórn þessa fyrirtækis, því að þar eru þrír aðilar jafnréttháir og hlutföllin innan stjórnar fyrirtækisins eru í samræmi við það. Það eru 8 hreppar í Mýrasýslu, og Borgarnes er ekki nema einn af þeim 8. Svo að þarna kemur manntal ekki til greina, heldur hlutföllin frá þessu sjónarmiði séð, sem tryggja hlut sveitanna.

Viðvíkjandi hinu atriðinu, hver afstaða okkar flm. þessarar þáltill. er gagnvart raforkulagafrv., er það að segja, að það kemur ekki til úrslita fyrr en á næsta þingi, svo að hv. þm. A.-Húnv. á enga kröfu á því að fá að vita afstöðu okkar flm. þessarar till. til máls, sem kemur til úrslita á næsta þingi. En hann getur að vísu ráðið nokkuð í hana eftir þessum umr., sem hér hafa farið fram. En frekari svör fær hann ekki frá okkur að þessu sinni. Enda er það frv. ekki komið til umr. enn á hæstv. Alþ. Og mér virðist ræða hv. þm. A.-Húnv. litlu eða engu hagga af því, sem ég sagði um hans afstöðu eða þeirra félaga, sem nú hafa staðið í nokkurri andstöðu við okkur um þetta mál. Ég skal aðeins geta þess, að því leyti sem hv. þm. A.-Húnv. minntist á till., sem liggja fyrir þessu þingi, að ég hafði gleymt að minnast á rafveituna fyrir Sauðárkrók. Hv. þm. sagði, að sú till. félli ekki inn í þetta kerfi, sem hann vill mynda um raforkumálin. Það má nú kannske segja, að svo sé. En það lágu fyrir í fjvn. yfirlýsingar um það frá forstöðumanni rafmagnseftirlits ríkisins, að virkjunarskilyrði væru svo hagstæð þarna, að ekki væri hægt að gera ráð fyrir því, þótt Sauðárkrókur kæmist inn í þetta kerfi, að það skapaði honum hagstæðari aðstöðu en þessi virkjun nær. Og það, hvort virkjunarskilyrðin eru hagstæð eða ekki hagstæð, skapar grundvöllinn fyrir því, hvert rafmagnsverðið er, en ekki hitt, hvar rafmagnið er tekið. Og eftir upplýsingum um það, við hvaða verði hægt er að selja rafmagnið þar, þá er það með því hagstæðara, sem við höfum hér hjá okkur. Þetta rafmagn nægir Sauðárkróki kannske nokkuð lengi, en ekki þar fram yfir. Og þá gæti þessi stöð fallið inn í kerfið, eins og stöðin við Elliðaárnar inn í Sogsveitukerfið. Svo að það er ákaflega langsótt að draga Sauðárkrók fram sem dæmi til þess að sýna, að ekki eigi að verða við slíkum ábyrgðarbeiðnum, að segja, að þetta falli ekki inn í kerfið. En það má fullkomlega gera ráð fyrir því, að verðið verði ekki lægra á rafmagni frá þessari virkjun en þegar til þess kemur að selja rafmagn frá því væntanlega kerfi. Þetta tek ég fram, af því að hv. þm. Skagf. hafa ekki gert það til forsvars þeirra till.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að við mættum eiginlega vera þakklátir fyrir það, að samkvæmt þeirra till. ættum við að verða fyrstir til að komast að um raforkuframkvæmdir eftir hinu nýja kerfi. Ég veit nú ekki, hvað þetta þakklæti á að ná langt. En það, sem gert hefur það að verkum, að við mundum geta komið þar fyrstir til greina, er sá áhugi og það starf fyrir málið, sem komið hefur fram og átt sér stað heima í héraðinu um að koma þessu máli í framkvæmd og fá ríkisábyrgð til þess. Hitt stendur óhaggað, að hv. þm. A.-Húnv. hefur ekkert gert til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Hins vegar vildi hann veita þessu máli viðnám árið 1943.

Vitanlega kom fram afbrýðisemi hjá hv. þm. A.-Húnv. þegar hann sagði, að ég hefði tekið svari ríkisstjórnarinnar. Það mátti kannske til sanns vegar færa, að ég gerði það. Því að ég hafði nokkurn fyrirvara um það, að eiginlega væri það einkennilegt, að ég skyldi hljóta að sjá mig tilneyddan að taka svari hæstv. ríkisstjórnar. Og máske, sagði hann, væri ég vinveittari stjórninni en ég hefði verið. Ég hafði lesið í blaði, að á fundum, þegar hv. þm. A.-Húnv. talaði við kjósendur sína, þá hefði hann haldið því fram, að við fimm-menningarnir værum farnir að dauðsjá eftir því öllu saman, sem við gerðum, þegar við studdum ekki núverandi hæstv. ríkisstjórn, og líklega vildum við svo skríða yfir til þeirra, sem með henni stæðu. (SigfS: Er þetta ekki satt?) Okkar afstaða, fimm-menninganna, er gersamlega óbreytt. Og það, sem skeð hefur, síðan stjórnin var mynduð, hefur engin áhrif haft á okkur til þess, að við álítum ekki, að okkar afstaða hafi verið rétt.