24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (5404)

192. mál, rafveitulán fyrir Sauðárkrókshrepp

Gísli Jónsson:

Í sambandi við þetta mál vildi ég leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvort beri að skilja svo, að þessi stefna sé tekin hjá hv. fjvn. í rafmagnsmálum yfirleitt, og hvort skoða beri hana sem ákveðna stefnu í framtíðinni.

Fyrir þessu þ. hafa legið allmargar beiðnir fyrir rafveitur, sem flestar eða allar eru stílaðar á líkan hátt, að ríkissjóði sé heimilt að ábyrgjast allt að 85%, og mér skilst sú stefna tekin af hv. fjvn. að mæla með því, að þessar ábyrgðir séu veittar, og kemur þá vitanlega á eftir á næsta þ. hópur af beiðnum frá hinum ýmsu héruðum á landinu, sem ég býst við fari fram á það sama, að óska eftir því að fá 85% ríkisábyrgð fyrir þeim rafveitum, sem þau kynnu að vilja koma á stofn, og finnst mér með því mörkuð stefna um, að allt, sem mþn. hefur lagt til í þessum málum, að fara skuli fram rannsókn um allt land, sé sett til hliðar og hér sé hverri sveitinni út af fyrir sig ætlað að brjótast áfram í málinu með aðstoð ríkisins, eins og gert er ráð fyrir í þessari till.

Ég er ekki með þessu að mæla á móti, að þessi stefna sé tekin og því síður, að þessar ábyrgðir séu veittar, en ég vildi gjarnan fá upplýsingar við þetta tækifæri, þar sem rætt er í fyrsta skipti um þetta mál, hvort þessi stefna er ofan á í fjvn. og hvort fjvn. er þá alveg óskipt um þessa stefnu í þessu stórmáli þjóðarinnar.