24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í D-deild Alþingistíðinda. (5407)

192. mál, rafveitulán fyrir Sauðárkrókshrepp

Sigurður Þórðarson:

Ég býst við því, að það verði ekki rengt af neinum hv. þm., að það sé mikil þörf á því fyrir Sauðárkrók að fá rafveitu og styrk úr ríkissjóði til hennar. En ég vildi aðeins taka það fram, að samkvæmt því, sem Rafmagnseftirlit ríkisins hefur látið í ljós í bréfi dags. 6. des. 1944, telur það, að ábyrgðin mundi hættulaus bæði fyrir ríkið og fyrirtækið, og segir í bréfinu, að rafveitan mundi verða tekjuhá og bera sig vel fjárhagslega, og það er þetta, sem er aðalatriði, þegar Alþ. tekur að veita til þess fé. Þess vegna vil ég taka það fram, að sarnkvæmt áliti rafmagnseftirlitsins er ábyrgð ekki hættuleg fyrir ríkissjóð, hins vegar vita allir, að rafmagnsþörf kauptúnsins er mjög aðkallandi. Þess vegna vænti ég þess, að hæstv. Alþ. bregðist vel við þessu áhættulausa fyrirtæki til framdráttar fólkinu þarna norður frá. Það er að vísu svo, að þó að af þessari rafstöðvarbyggingu verði, þá mun kannske brátt verða þörf fyrir meira rafmagn, en við vonum, að ef hæstv. Alþ. vill styðja þetta mál, þá verði eitthvað til þess að styðja að áframhaldandi rafmagnsþörf fólksins, og við vonum, að þessi rafveita, ef af henni verður, gæti fallið inn í landskerfið og yrði þá eins og Elliðaárstöðin fyrir Reykjavík, sem vel hefur reynzt.

Það ríður á því fyrir Sauðárkrók að fá þennan stuðning, sem ábyrgðin veitir, til þess að geta hafizt handa um framkvæmdir málsins. Ég ætla svo ekki að orðlengja um þetta; þörfin á þessu er ákaflega brýn, og þar sem maður hefur orð Rafmagnseftirlits ríkisins fyrir því, að ábyrgðin sé ekki hættuleg fyrir ríkissjóð, vona ég, að hæstv. Alþ. sjái sóma sinn í því að hlaupa þarna undir bagga fyrir þörf fólksins á Sauðárkróki.