24.01.1945
Sameinað þing: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í D-deild Alþingistíðinda. (5408)

192. mál, rafveitulán fyrir Sauðárkrókshrepp

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Eins og vikið var að af hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. Rang., þá er það svo, að það hefur verið starfandi mþn. í raforkumálum, og hún er, að einum manni undanskildum, alveg sammála um það, að þessi mál beri að setja í fast kerfi, þannig að það sé rannsakað, hvað heppilegast er með heildarskipulag fyrir augum, og okkar aðalstefna er sú, að það verði ríkið sjálft, sem standi fyrir þessum framkvæmdum, en ekki einstök kauptún eða héruð. Ég ætla ekki að fara langt út í þetta í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, af því að ég geri ráð fyrir, að umr. snúist aðallega um það mál, sem er næst á dagskrá, sem er virkjun Andakílsár. Þó vil ég segja það varðandi þessa ábyrgð, sem hér liggur fyrir, að ég get ekki samþ. hana að fengnum þeim upplýsingum, sem fyrir liggja. Í fyrsta lagi hef ég ekki séð áætlanir um stofnkostnað eða rekstrarkostnað þessa fyrirtækis, og þó að það sé sagt, eins og alltaf hefur verið sagt, þegar slík ábyrgð hefur verið til meðferðar, að fyrirtækið gæti staðið undir sér, þá hafa þær áætlanir viljað bregðast, a. m. k. finnst okkur það varðandi Siglufjörð, og eins gæti farið um þetta. Það er alveg rétt, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði, að þörfin er alls staðar um allt landið ákaflega brýn og eins á þessum stað og annars staðar. En það ber að sjálfsögðu að líta á það, hvaða skipulag er heppilegast fyrir heildina og hvaða kerfi ber að taka. En með tilliti til þess, að það er alveg rétt hjá hæstv. forseta, að það skiptir ekki miklu máli, hvort þetta mál verður samþ. til síðari umr. eða ekki, því að það, sem fyrst og fremst verður hér rætt um varðandi það, hvaða stefnu beri að taka, er brtt. okkar varðandi Andakílsárvirkjunina og hvort hún verður samþ. eða ekki hér á Alþ., og um það mál hljóta að verða aðalumr. og átökin í sambandi við það, hvaða stefnu eigi að hafa á þessu þýðingarmikla sviði.