20.10.1944
Sameinað þing: 59. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í D-deild Alþingistíðinda. (5446)

169. mál, kaup á efni í Reykjanesrafveituna

Flm. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. — Ég hef borið fram þessa till., sem er þess efnis, að Alþingi heimili ríkisstj. að verja fé úr ríkissjóði á þessu og næsta ári til kaupa á efni til að fullgera Reykjanesrafveituna, svo og aðalspennistöðvar þessarar rafveitu, og í háspennuveitur um þorpin á Suðurnesjum.

Þetta mál er ekki nýtt á Alþingi, svo að ekki þarf að kynna það fyrir hv. þm. með langri ræðu. Málið var hér á ferð á s. l. hausti, og þá kom fram, hve almennur áhugi er á því á Suðurnesjum að geta orðið njótandi rafmagns. Þeir Suðurnesjabúar hafa unnið að því að útvega efni til rafveitugerðar um nesin. Árið 1942 var talið, að ekki stæði á öðru en útflutningsleyfi úr Bandaríkjunum, og horfur á, að það fengist um haustið, en vegna nýrra útflutningsreglna brást það. Haustið 1943 var þó hægt að útvega efni í þann hluta rafveitunnar, sem nægði til þess, að Keflavík fengi rafmagn. Þessi lausn á málinu var náttúrlega góð byrjun og vakti mikla ánægju hjá Keflvíkingum, en aðrir þykjast litlu nær, og fyrir þá er nú unnið að því af utanríkisráðuneytinu að útvega efni og útflutningsleyfi á því. Eftir þeim upplýsingum að dæma, sem utanríkisrh. hefur síðast fengið frá sendisveitinni í Washington, er ástæða til þess að ætla, ef nú yrði sótt um viðbótarleyfi fyrir efni til rafveitunnar, að þá fengist það, a. m. k. að einhverju leyti. Gert hefur verið ráð fyrir, að ríkið yrði til bráðabirgða að leggja fram féð til efniskaupanna, þar til ráðstafanir yrðu gerðar til annarrar fjáröflunar, sem undir yrði risið.

Í fyrra varð það úr, að ríkisstj. var veitt tímabundin heimild til efniskaupa fyrir rafveitur, unz þing það kæmi saman, sem nú situr. Sú heimild er því úr gildi. En mér er tjáð, að ekki sé til neins að sækja um útflutningsleyfi, nema vissa sé fyrir, að leyfi, sem fengist, yrði notað. Þess vegna er þessi till. fram borin í beinu framhaldi af því, sem áður hefur verið gert.

Nokkuð hefur verið um það rætt, hvort ekki mundi hagkvæmara að fá þetta efni frá Svíþjóð eftir stríð. Ég geri ráð fyrir, að n., sem fær þetta til meðferðar, taki þann möguleika til athugunar, en athugun hefur gert mig honum fráhverfan eins og sakir standa.

Komið hefur fram brtt. á þessum fundi um heimild varðandi efniskaup fyrir rafveitur á ýmsum fleiri stöðum, og er gott eitt um það að segja, að sú heimild verði einnig veitt með einhverju móti.

Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til fjvn. ásamt brtt. á þskj. 459.